Það verður ekki annað sagt en órói sé á Vesturlöndum um þessar mundir. Það er óstöðugleiki í stjórnmálum, ýmsar öfgahreyfingar til hægri og vinstri njóta vaxandi vinsælda, málefni innflytjenda eru orðin hitamál og þannig mætti lengi telja. En af hverju stafar þessi órói? Í nýlegri bók þess sem þessa grein skrifar var reynt að greina orsakir og afleiðingar. Bókin ber heitið The Great Economic Slowdown og kom út hjá Palgrave Macmillan nú í september. Meðhöfundar eru þeir Edmuns S. Phelps, nóbelsverðlaunahafi, og annar fyrrverandi nemandi hans Hian Teck Hoon, sem er prófessor í hagfræði í Singapúr.
Undirliggjandi orsök óstöðugleikans sem kemur fram á margvíslegan hátt er lækkandi vöxtur framleiðni í Bandaríkjunum og einnig á öðrum Vesturlöndum síðustu áratugina. Myndin hér að neðan sýnir vöxt heildarþáttaframleiðni í Bandaríkjunum frá byrjun sjötta áratugs síðustu aldar. (Tímaröðin hefur verið jöfnuð með H-P filter.) Takið eftir lækkandi hraða framleiðnivaxtar allt fram á tíunda áratuginn. Síðan varð tímabundin aukning samfara tilkomur internetsins á seinni helmingi áratugarins sem svo fjaraði út.
Bandaríkin leiða á flestum stigum tækni og viðskipta. En forskot þeirra í upphafi þessa tímabils gaf öðrum löndum færi á að læra af þeirra tækni og auka þannig eigin hagvöxt. Þetta skýrir að stórum hluta gullnu öld hagvaxtar á eftirstríðsáratugunum í Vestur-Evrópu og í Japan. En eftir að hagvöxtur í Bandaríkjunum minnkaði eftir 1970 þá leið ekki á löngu þar til hagvöxtur minnkaði einnig í Evrópu og í Japan. Fyrstu í Evrópu (og Kanada) um og eftir 1980 og svo í Japan eftir 1990.
Afleiðingar hægari tækniframfara
Afleiðingar hægari tækniframfara eru margvíslegar. Jafnvægisraunvextir hafa lækkað síðustu fjóra áratugina. Þetta þýðir á mannamáli að þeir vextir sem láta eftirspurn eftir vörum og þjónustu vera nærri framleiðslugetu, þ.e.a.s. atvinnuleysi vera hóflegt, hafa farið lækkandi. Þetta gerir framkvæmd peningastefnu erfiðari. Árin fyrir farsóttina og verðbólgu sem hefur fylgt í kjölfarið var í fullri alvöru rætt um að nafnvextir þyrftu að geta orðið neikvæðir, þannig yrðu t.d. vextir á bankareikningum neikvæðir. Til þess að koma í veg fyrir að sparifjáreigendur tækju sparifé sitt út af reikningum og geymdu það þess í stað í formi peninga – seðla og myntar – heima hjá sér þyrfti að leggja seðla og mynd niður. Öll viðskipti yrðu þá rafræn. Nú þegar verðbólga hefur orðið til þess að hækka seðlabankavexti hefur þessi umræða hljóðnað en hún gæti komið aftur ef framleiðnivöxtur verður áfram lágur og þá vextir einnig.
Önnur afleiðing hægari framleiðnivaxtar eru há eignaverð. Lægri vöxtur framleiðni veldur því að vextir eru lægri sem síðan veldur því að verð á húsnæði og hlutabréfum verður hátt. Há eignaverð eru alþjóðlegt fyrirbrigði sem þá orsakast af því að vextir í heiminum hafa verið lágir. Fylgifiskur þessarar þróunar hefur verið misskipting eigna vegna þess að hækkun á verði hlutabréfa og húsnæðis verður til þess að hækka verðmæti eigna þeirra sem mest eiga meira en hinna sem minna eða ekkert eiga.
Enn önnur afleiðingar hægari vaxtar framleiðni er að laun …








