
Clara Ganslandt hóf starfsferil sinn í sænsku utanríkisþjónustunni og þegar Svíþjóð gekk í Evrópusambandið árið 1995 flutti hún til Brussel og hefur starfað þar í næstum þrjár áratugi fyrir Evrópusambandið í mismunandi störfum. Æðsti yfirmaður hennar undanfarin ár hefur verið hinn spænski Josep Borrell sem gegnt hefur stöðu utanríkismálastjóra ESB og varaforseta framkvæmdastjórnar ESB (e. High Representative of Foreign Affairs and Security Policy and Vice-President of the European Commission).
Meðan að viðtal okkar fer fram í sendiráðinu við Reykjastræti í lok nóvember var einmitt verið að velja hina eistnesku Kaju Kallas sem væntanlegan næsta utanríkismálastjóra Evrópusambandsins og varaforseta framkvæmdastjórnarinnar – svo ég spyr hvort hún verði þinn nýi yfirmaður? „Líklega!“ svarar Clara og eftir viðtalið hefur það verið staðfest að frá og með desember 2024 fer Kaja Kallas, fyrrum forsætisráðherra Eistlands, með utanríkismálefni Evrópusambandsins. Stefnumörkun nýrrar framkvæmdastjórnar sambandsins undir stjórn Ursulu von der Leyen til næstu fimm ára stendur nú yfir.
Clara útskýrir að hlutverk hennar sem sendiherra og yfirmaður sendinefndar ESB á Íslandi sé að vera opinber fulltrúi Evrópusambandsins gagnvart Íslandi. Hún á í góðu samstarfi við sendiherra Evrópusambandsríkja, bæði sendiherra ESB-ríkja sem eru staðsettir í sendiráðum hérlendis, en einnig þá sem ekki eru með fasta viðveru hérlendis eða sendiskrifstofu hér í Reykjavík og nýta sér þá gjarnan hennar stöðu og sendinefnd ESB sér til aðstoðar. Auðvitað hefur stríðsástandið í álfunni einnig áhrif á starfsemina en við komum aftur að því undir lok samtalsins.
Áður en Clara varð sendiherra hefur hún heimsótt reglulega Ísland, í tengslum við fyrra starf sitt vegna EES-samningsins og varðandi norðurslóðaverkefni. En nú er hún flutt hingað til lands og lýsir yfir ánægju með hve samstarf landsins og sambandsins er gott. Venjulega eru sendiherrar fjögur ár hérlendis. Fyrri sendiherra sambandsins, Lucie Samcová-Hall Allen, skrifaði grein í Vísbendingu í vor í tilefni af þrjátíu ára afmæli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
Samningar og markaðir
Færum okkur því að umræðu um samninginn um EES – hver er þín sýn á hann? spyr ég Clöru fyrst:
„Samningurinn hefur verið virkilega sveigjanlegur og dugað lengur en búist var mögulega við í upphafi, segja mér sumir sem komu að gerð hans,“ segir hún. „Það hefur skapað stöðugleika og núna eftir þrjátíu ár eru þrjátíu lönd, sem öll eru lítil lönd í heiminum, saman aðilar að hinum alhliða sameiginlega markaði. Sem er í raun stórkostlegt, það að hægt sé að hafa hið frjálsa flæði á vörum, þjónustu, fjármagni og fólki milli allra þessara landa.“
Samningurinn hefur verið virkilega sveigjanlegur og dugað lengur en búist var mögulega við í upphafi, segja mér sumir sem komu að gerð hans
Samstarfið í samningnum hefur kannski ekki mikið verið til umræðu, segir Clara, en þar sem það er árangursríkt er því gjarnan tekið sem gefnu. „Oft er það aðeins þegar vandræði steðja að sem að raunverulega er rætt um gildi þess góða í samstarfi. En við getum ekki tekið það sem gefið og við verðum að viðurkenna hve mikið það samstarf hefur gefið okkur.“ Þá ekki bara aðgangurinn að yfir fjögur hundruð og fimmtíu milljóna manna markaði þar sem starfa tuttugu og þrjár milljónir fyrirtækja, heldur hún áfram. „Heldur einnig samstöðu um sameiginleg gildi og aðlögun að sameiginlegum reglum markaðarins sem stuðlar að samkeppnishæfni svæðisins og tryggir að með sanngjörnum jafngildum reglum á samkeppnismarkaði þá myndast þessi risastóri markaður án hindrana,“ – og verðmæti þess er erfitt að meta til fjár.
Auk þess hefur Ísland notið góðs af samningnum með því að hann opnar landinu mörg tækifæri og hún bætir við að: „Við verðum því að tryggja að öll lög séu sambærileg, reglugerðir séu innleiddar á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Til þess að fyrirsjáanleiki og jöfn aðstaða allra fyrirtækja sé til staðar. Því verða öll EES-ríki að standa sig í innleiðingu á sameiginlegu löggjöfinni sem sameiginlegi markaðurinn krefst.“
Þar skipta tafir á innleiðingu miklu máli og það að unnið sé að því að minnka þær. Við ræðum aðeins viðhorf viðskiptalífsins á Íslandi gagnvart Evrópusambandinu og ég spyr hana um nýjasta hugtakið í íslenskri viðskiptaumræðu, sem stundum birtist með óljósri afstöðu gagnvart ESB og markaðinum.
„Gullhúðun er hugtak sem ég hafði í raun ekki heyrt áður en ég kom til Íslands. Það getur hins vegar gerst að aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins bæti við ákvæðum á innlendum grundvelli við innleiðingu Evrópulöggjafa (e. overcompliance).“
Rannsóknir og menning
Áhersluatriði Clöru við stjórn sendiráðsins sem nýr sendiherra eru svipuð og verið hefur með því að leggja áherslu á samstarfið milli Íslands og Evrópusambandsins sem hefur verið gott. Hún segir okkur þó núna í upphafi að mikil tækifæri liggi á sviði orkumála, rannsóknaáætlana og menningarsamvinnu. Þar nefnir hún, sem dæmi, þýðingarstyrki fyrir bókmenntir inn á þrjátíu landa markaðssvæði sambandsins. Auk þess er Erasmus ávallt mikilvægur kjarni Evrópusamvinnunnar sem flestir landsmenn þekkja af eigin raun úr sínum fjölskyldum. Hún nefnir einnig sérstaklega í samtali okkar hið mikilvæga starf sem Rannís vinnur hérlendis sem lykilaðili í nánast öllu samstarfi við Evrópusambandið, sérstaklega varðandi rannsóknir, menningarsamvinnu og Erasmus. Grein birtist í Vísbendingu fyrr í ár frá forstöðumanni Rannís um árangurinn samstarfinu við Evrópusambandið í tilefni 30 ára afmælis …








