Clara Ganslandt hóf starfsferil sinn í sænsku utanríkisþjónustunni og þegar Svíþjóð gekk í Evrópusambandið árið 1995 flutti hún til Brussel og hefur starfað þar í næstum þrjár áratugi fyrir Evrópusambandið í mismunandi störfum. Æðsti yfirmaður hennar undanfarin ár hefur verið hinn spænski Josep Borrell sem gegnt hefur stöðu utanríkismálastjóra ESB og varaforseta framkvæmdastjórnar ESB (e. High Representative of Foreign Affairs and Security Policy and Vice-President of the European Commission).
Meðan að viðtal okkar fer fram í sendiráðinu við Reykjastræti í lok nóvember var einmitt verið að velja hina eistnesku Kaju Kallas sem væntanlegan næsta utanríkismálastjóra Evrópusambandsins og varaforseta framkvæmdastjórnarinnar – svo ég spyr hvort hún verði þinn nýi yfirmaður? „Líklega!“ svarar Clara og eftir viðtalið hefur það verið staðfest að frá og með desember 2024 fer Kaja Kallas, fyrrum forsætisráðherra Eistlands, með utanríkismálefni Evrópusambandsins. Stefnumörkun nýrrar framkvæmdastjórnar sambandsins undir stjórn Ursulu von der Leyen til næstu fimm ára stendur nú yfir.
Clara útskýrir að hlutverk hennar sem sendiherra og yfirmaður sendinefndar ESB á Íslandi sé að vera opinber fulltrúi Evrópusambandsins gagnvart Íslandi. Hún á í góðu samstarfi við sendiherra Evrópusambandsríkja, bæði sendiherra ESB-ríkja sem eru staðsettir í sendiráðum hérlendis, en einnig þá sem ekki eru með fasta viðveru hérlendis eða sendiskrifstofu hér í Reykjavík og nýta sér þá gjarnan hennar stöðu og sendinefnd ESB sér til aðstoðar. Auðvitað hefur stríðsástandið í álfunni einnig áhrif á starfsemina en við komum aftur að því undir lok samtalsins.
Áður en Clara varð sendiherra hefur hún heimsótt reglulega Ísland, í tengslum við fyrra …