Við kjósum okkur stjórnvöld til að halda um stjórnartaumana á samfélaginu. Stundum þarf að taka erfiðar og jafnvel óvinsælar ákvarðanir sem mæta andstöðu en stuðla að heildar hagsmunum almennings.
Sérhagsmunir virðast hafa átt greiða leið inn í stjórnarráðið og jafnvel löggjafarsamkomuna miðað við það sem dæmin sýna undanfarið og afrakstur yfirstandandi þings ber merki um.
Nýlegt dæmi er fyrirliggjandi frumvarp um sölu Íslandsbanka framhjá Bankasýslu ríkisins, í markaðssettu útboði þar sem óljóst er hvort skilningur Alþingis á orðinu markaðssett útboð sé sá hinn sami og Bankasýslunnar, samkvæmt orðskýringu þeirra (e. fully marketed offering). Raunar er óljóst hvort skilningur stofnunarinnar sé sambærilegur við alþjóðlega fjármálamarkaði.
Sýndarmennska virðist nú einnig orðin mikilvægari samhengis orða og athafna. Raunverulegar aðgerðir skortir oft eftir glærusýningar. Alþjóðlegar stofnanir eins og IMF gagnrýna harkalegan slakan árangur Íslands í loftslagsmálum miðað við fyrirheit. Hjá öðrum, eins og OECD, er ekkert að finna um árangur Íslands í velsældarmálum þó hér séu haldnar fínar ráðstefnur um efnið.
Grunngildi laganna um opinber fjármál eru fimm og voru þau ekki felld úr gildi þegar að fjármálareglur þeirra voru teknar úr sambandi. Stöðugleiki og sjálfbærni eru tvö þeirra grunngilda, en sérhagsmunir og sýndarmennska ekki.
Ísland á líklega heimsmet í því hve lengi reglurnar um opinber fjármál eru óvirk, jafnvel að Argentínu meðtalinni. Evrópusambandið samþykkti nýja umgjörð fyrir endurskoðaðar fjármálareglur nýverið, eftir nokkurra ára umræðu, þær taka gildi þar nú í árslok.
Því ber að fagna að umræðuskýrsla er komin fram um breyttar fjármálareglur hér. Knýjandi spurning er þó hvort hægt verði að ræða þá skýrslu vel og komast að niðurstöðu. Önnur spurning er hvernig takast muni að innleiða fjármálareglurnar að nýju, hvort sem er þær gömlu eða nýjar.