Til baka

Aðrir sálmar

Samgöngur og samskipti

Borgir eru myndaðar fyrir samskipti en samgöngur eru eitt helsta úrlausnarefnið í uppbyggingu þeirra. Almenningssamgöngur og aðalskipulag kallast því á. Það er síðan mannlífið á milli húsanna sem gerir borgir lífvænlegar og skemmtilegar.

deilimynd-asgeirbrynjar

Sænska hugtakið kommunikation getur bæði þýtt það sem hérlendis er kallað samskipti og samgöngur. Á tímum landpóstanna var því eflaust svipað háttað hér, þegar menn með poka á bakinu eða hengda á klakka á klyfberum hesta ferðuðust yfir fjöllin með bréf landshluta á milli og miðluðu einnig munnlega fréttum.

Það má með vissri einföldun hugsa sér að uppbygging samgöngu- og samskiptakerfanna okkar hafi hangið saman við þróun sjálfstæðis þjóðarinnar. Þar sem ríkið réði menn í vegavinnu fljótlega eftir að fullveldi var náð og margfaldaði ríkisútgjöldin milli nokkurra ára á millistríðs árunum, meðal annars til að byggja vegi með vinnuafli, skóflum og hökum. Nú er öldin önnur og göturnar fullar af bílum, en spurningin er hvort byggja eigi þá fleiri akgreinar og hreinlega hvort pláss sé til þess.

Nú berast fréttir af því að Bandaríkin í hyggist reyna að banna kínverska íhluti í samgöngutækjum sérstaklega varðandi samskiptatækni þeirra, enda geti framleiðendur mögulega fylgst með ferðum fólks og ferðavenjum. Einn ríkasti bandaríkjamaður nútímans á stóra eignarhluti í geimferðafyrirtæki, einum helsta samskiptamiðli veraldar og einum ötulasta rafbílaframleiðanda heims, sem hefur svo góð innbyggð samskiptatæki að lögreglan nýtir þau við úrlausnir sínar.

Eins og kemur fram í forsíðugrein blaðs vikunnar þá myndast borgir sem vettvangur fyrir samskipti fólks. Borgarskipulag er því aðferð til að efla og auðvelda þau. Við verðum því að vona að okkur takist að nota hugvitið, skipulagið og samskiptahæfileikana til að leysa úr samgönguvandanum á höfuðborgarsvæðinu okkar.

Það eru engin sérstök geimflaugarvísindi sem þarf til að leggja af díselrútur við flutning tveggja milljóna ferðalanga frá alþjóðaflugvellinum. Við sem eitt grænasta orkuframleiðandi land heims lítum líka ósköp frumstæð út að hafa ekki enn komið upp rafdrifnu almenningssamgöngukerfi innanbæjar. Hvort það kerfi verði tilbúið á hundrað ára afmæli sjálfstæðis þjóðarinnar er önnur spurning.

Næsta grein