Forsagan
Stuttu eftir að láns-og-leigulögin, sem heimiluðu afhendingu vopna til Bretlands, voru samþykkt á Bandaríkjaþingi snemma árs 1941, sendi Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti bandaríska herafla til Íslands sumarið 1941 til að leysa af hólmi brezka herliðið, sem árið áður hafði hernumið Ísland í forvarnaskyni. Þannig hófst, nokkrum mánuðum fyrir árásina á Pearl Harbor í desember 1941, náið samstarf Bandaríkjanna og Íslands — hlutlauss, fullvalda ríkis í persónusambandi við danska kónginn. Þetta samstarf leiddi meðal annars af sér skjóta viðurkenningu Bandaríkjanna á þeirri ákvörðun Íslendinga að stofna lýðveldi 1944 að loknum endanlegum aðskilnaði frá Danmörku, sem þá var hernumin af nasistum og gat enga björg sér veitt. Samstarfið styrktist enn frekar 1949 þegar Ísland gerðist stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO).
Náið varnarsamstarf landanna stóð óhaggað fram að einhliða brottför bandaríska hersins frá Íslandi 2006, þvert á mótmæli íslenzkra stjórnvalda. Þetta gerðist ári áður en Vladimir Pútín hélt tímamótaræðu sína á öryggisráðstefnunni í München 2007 og tveim árum áður en Rússland réðist inn í Georgíu 2008. Eftir innlimun Rússlands á Krímskaga 2014 hafa Bandaríkin smám saman endurnýjað herveru sína á Íslandi með reglubundnum heimsóknum herliðs frá NATO, þótt leynt hafi farið. Ísland hefur áfram reynzt traustur bandamaður í NATO.
„Landfræðilega og menningarlega stendur Ísland í nánu sambandi við bæði Bandaríkin og Evrópu“
Á brúnni milli Evrópu og Ameríku
Landfræðilega og menningarlega stendur Ísland í nánu sambandi við bæði Bandaríkin og Evrópu. Ísland hefur verið aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) frá 1970 og Evrópska efnahagssvæðinu frá 1995, sem — líkt og hliðstætt fyrirkomulag í Noregi og Liechtenstein — jafngildir í reynd „léttri“ aðild að Evrópusambandinu (ESB). Þetta þýðir að Ísland nýtur sem aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) margvíslegs efnahagslegs ávinnings og axlar jafnframt lögbundnar skuldbindingar sem EES-aðild útheimtir — þar á meðal eru frjálst flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns milli aðildarríkja — en Ísland er þó ekki aðili að sameiginlegri landbúnaðar-, sjávarútvegs-, utanríkis- og öryggisstefnu ESB, viðskiptasamningum við ríki utan ESB eða samræmingu skattalaga; né heldur felur EES-aðild í sér skyldu til að taka upp evru sem lögeyri. Ísland, Noregur og Liechtenstein hafa engan atkvæðisrétt um löggjöf ESB.
Þótt norskir kjósendur hafi tvisvar hafnað aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslum (1972 og 1994), hefur Alþingi aldrei haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild. Skoðanakannanir sýndu nauman en stöðugan stuðning meiri hluta svarenda við ESB-aðild frá árunum eftir 1990 fram að fjármálahruninu 2008, þegar þeir sem báru höfuðábyrgð á hruninu heima fyrir reyndu að varpa ábyrgðinni á útlendinga, þar á meðal ESB. Þannig tókst innlendum sökudólgum um skeið að snúa almenningsálitinu gegn ESB-aðild. Þau sinnaskipti áttu eftir að ganga til baka. Nú þegar rykið eftir hrunið hefur sezt að mestu hafa nýlegar kannanir sýnt að meirihlutastuðningur kjósenda við aðild Íslands að ESB er kominn til skjalanna á ný. Þrátt fyrir það eru þó aðeins tveir af sex stjórnmálaflokkum sem nú eiga fulltrúa á Alþingi fylgjandi ESB-aðild.
Horfur á aðild að ESB
Gömlu röksemdirnar fyrir aðild eru enn í fullu gildi. Upptaka evrunnar myndi lækka vexti og draga úr verðbólgu. Þar eð ESB er langmikilvægasti viðskiptavinur Íslands myndi full aðild — þar með talin upptaka evrunnar — eyða gengisóvissu, draga úr viðskiptakostnaði og auka aðdráttarafl Íslands í augum erlendra fjárfesta, hvort heldur í litlum sprotafyrirtækjum eða stærri fyrirtækjum til dæmis í orkugeiranum eða sjávarútvegi. Með líku lagi fengi íslenzkt atvinnulíf greiðan aðgang að hinum gríðarstóra evrópska markaði, þar á meðal rétt til fjárhagsaðstoðar á erfiðum tímum — eins og til dæmis þeirri aðstoð sem Írlandi var veitt í fjármálakreppunni 2008.
Við þessi efnahagsrök má bæta stjórnmálarökum. Í fyrsta lagi myndi aðild að ESB auka valddreifingu og gagnkvæmt aðhald þar eð aðildarlöndum ber að deila fullveldi sínu hvert með öðru innan vel skilgreindra marka. Í annan stað er það almennt og yfirleitt hyggilegt að eiga aðild að þeim félögum þar sem flestir nánustu vinir og bandamenn eru fyrir í samræmi við þau sjónarmið sem leiddu Ísland inn í Sameinuðu þjóðirnar 1946 og NATO 1949.
Og nú bætist við nýtt sjónarmið sem sprettur af árásarstríði Rússa gegn Úkraínu. Ef Finnum og Svíum þótti skyndilega nauðsynlegt að ganga í NATO — eftir 75 ára hlutleysi — væri skynsamlegt af hálfu Íslendinga og Norðmanna, af hliðstæðum utanríkis- og öryggisástæðum, að ganga í ESB án frekari tafar til að þétta raðirnar á útjaðri Evrópu. Öryggi kallar á samstöðu. Þetta sjónarmið vegur þungt í ljósi þess að Bandaríkin virðast nú hika við skuldbindingar sínar gagnvart NATO.
Mynd 1 sýnir þróun kaupmáttar landsframleiðslu á mann á Íslandi frá 1990, borið saman við Bandaríkin og ESB. Myndin sýnir að það tók Ísland átta ár að jafna sig eftir hrunið 2008, borið saman við sjö ár í ESB og sex í Bandaríkjunum. Meðalvöxtur landsframleiðslu á mann yfir þetta 34 ára tímabil var nánast hinn sami: 1,5% á ári í ESB og á Íslandi, borið saman við 1,6% í Bandaríkjunum.
Enda þótt Evrópa standi Bandaríkjunum að baki mælt í landsframleiðslu á mann, stendur Evrópa Bandaríkjunum framar á ýmsum öðrum sviðum: Evrópubúar lifa að meðaltali þrem árum lengur, þeir búa við sterkara lýðræði, meiri borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, minni spillingu, meira jafnrétti, öflugra réttarríki og markvissari aðgerðir gegn loftslagsvánni. Efnahagsárangur er ekki allt. Margt annað skiptir máli líka.
Það er þetta sem laðar marga Íslendinga í auknum mæli að Evrópu, jafnvel þótt flest okkar vilji áfram halda uppi vinveittum samskiptum við Bandaríkin. Hér er engu ósamræmi til að dreifa. Skömmu eftir hrunið 2008, þar sem erlendir kröfuhafar jafnt sem innlend fyrirtæki og fjölskyldur urðu fyrir gífurlegu fjárhagstjóni, sótti nýkjörið Alþingi um aðild Íslands að ESB 2009. Viðræður hófust. Eftirsókn Íslands eftir aðild mátti að einhverju marki skilja sem afsökunarbeiðni — sem yfirlýsingu um að Íslendingar vildu framvegis lúta þeim aga sem fylgir ESB-aðild. Þegar húsið þitt stendur í björtu báli ber þér að gera nágrönnum þínum viðvart.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) var kallaður til að hrinda af stað björgunaraðgerðum. Með lánum frá …








