
Fimmtán ár eru liðin síðan fyrsta tilraunin var gerð hér á landi til að skrásetja með heildstæðum hætti hagræn áhrif atvinnugreina lista og menningar, sem alla jafna er vísað til með samheitinu „skapandi greinar“. Það var gert að frumkvæði greinanna en með dyggum stuðningi stjórnvalda. Það var á fullveldisdaginn 1. desember 2010 sem tölulegar niðurstöður skýrslunnar „Hagræn áhrif skapandi greina“
Af niðurstöðum rannsóknarinnar var augljóst að skapandi greinar voru ört vaxandi atvinnuvegur sem ekki yrði lengur horft fram hjá í uppgjöri á þjóðarhag eða framlagi ólíkra atvinnugreina til þjóðarbúsins. Vægi greinanna í hagkerfinu varð sýnilegt. Það lá í augum uppi að ekki var lengur forsvaranlegt að telja hvern einasta þorsk sem dreginn var úr sjó, hvert einasta tonn af áli sem flutt var úr landi, en láta eins og Björk, Bubbi eða Mezzoforte væru ekki til eða hefðu enga þýðingu fyrir efnahagslíf þjóðarinnar.
Framtíðarsýn og tillögur um næstu skref
Fljótlega eftir útgáfu skýrslunnar um hagræn áhrif greinanna var komið á laggirnar starfshópi sem fékk það verkefni að leggja fram tillögur að næstu skrefum í þróun þeirra. Skýrsla hópsins „Skapandi greinar – sýn til framtíðar“
Hvaða skref voru stigin?
Það er áhugavert að líta í þennan baksýnisspegil og bera saman við það sem fram kemur í nýjustu gögnum um greinarnar. Þau er að finna í tveimur afar gagnlegum skýrslum sem unnar hafa verið á síðustu tveimur árum. Annars vegar er það skýrsla Önnu Hildar Hildibrandsdóttur, formanns stjórnar nýstofnaðs Rannsóknarseturs skapandi greina, „Sköpunarkrafturinn – orkugjafi 21. aldar“, sem út kom vorið 2023
Af lestri beggja þessara skýrslna má ráða að hægt hafi miðað í baráttunni fyrir bættu starfsumhverfi skapandi greina. Báðar sýna að þó ákveðin skref hafi verið tekin til úrbóta þá sé enn langt í land. Í báðum eru lagðar fram tillögur að aðgerðum sem ráðast þarf í til að skapandi greinar njóti þess stuðnings og umbúnaðar sem jafn umfangsmikill atvinnuvegur þarf á að halda. Í skýrslu Önnu Hildar er áhersla á gagnasöfnun, rannsóknir og greiningar, og taldar upp 29 veigamiklar aðgerðir í því tilliti. En í skýrslu Ágústar eru tíundaðar 40 aðgerðir sem mikilvægar eru til eflingar greinunum og til að auka verðmætasköpun innan þeirra.
Ákallið sem lesa má úr báðum þessum skýrslum gefur til kynna að enn skorti á úrbætur í opinberu stjórnkerfi og þó Hagstofa Íslands gefi nú út menningarvísa þá skortir enn á tölfræðilegar greiningar og söfnun gagna. Enn fremur er ljóst að þó stjórnvöld hafi stutt við stefnumótun í greinunum þá vantar enn fjármagn og vilja til aðgerðanna sem þarf til að innleiða markmið í stefnunum. Þó Listaháskóli Íslands hafi dafnað og bjóði nú meistaranám og jafnvel doktorsnám á námsbrautum sínum, þá er draumurinn um að starfsemi hans komist undir eitt þak enn fjarlægur draumur. Eins mætti nefna sjóðaumhverfi greinanna, sem hefur ekki þróast á þann hátt sem vonir stóðu til. Loks er mikilvægt að horfa til opinberra menningarstofnana, bæði ríkis og sveitarfélaga, sem búa við naumt skammtað fjármagn til rekstrar og glíma margar við þröngt og jafnvel óviðunandi húsnæði til starfsemi sinnar.
Skapandi greinar úti um allt í atvinnulífinu
Unnið hefur verið að eflingu skapandi atvinnugreina víða um heim á undanförnum áratugum. Íslenskur vinnumarkaður hefur notið góðs af því og fulltrúar skapandi greina hér á landi …








