Í grein þessari verður litið um öxl og reynt að bregða ljósi á þróun þá sem orðið hefur á vettvangi skapandi atvinnugreina frá þeim tíma er fyrsta skýrslan um hagræn áhrif greinanna kom út. Einnig verður sjónum beint að mikilvægi frumsköpunar sem lykilþáttar í uppbyggingu öflugra atvinnugreina lista og menningar. Loks er vikið að starfsumhverfi þeirra sem kjósa að starfa sjálfstætt í skapandi greinum og vakin athygli á mikilvægi gagnaöflunar og greininga í þágu framtíðarþróunar greinanna.
Fimmtán ár eru liðin síðan fyrsta tilraunin var gerð hér á landi til að skrásetja með heildstæðum hætti hagræn áhrif atvinnugreina lista og menningar, sem alla jafna er vísað til með samheitinu „skapandi greinar“. Það var gert að frumkvæði greinanna en með dyggum stuðningi stjórnvalda. Það var á fullveldisdaginn 1. desember 2010 sem tölulegar niðurstöður skýrslunnar „Hagræn áhrif skapandi greina“[53ec64] voru kynntar af þáverandi menntamálaráðherra Katrínu Jakobsdóttur og fulltrúum greinanna í Regnboganum. Það var ekki einfalt fyrir skýrsluhöfunda, Margréti Sigrúnu Sigurðardóttur og Tómas Young, að afla viðeigandi upplýsinga í rannsókn sína. Þau gögn sem safnað var komu fyrst og fremst frá Fjársýslu ríkisins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga ásamt virðisaukaskattsskrám Hagstofu Íslands. Gerð er grein fyrir vanköntum þessa gagnaskorts í formála skýrslunnar, sem átti sinn þátt í því að hún kom ekki út með formlegum hætti fyrr en í maí 2011. Þrátt fyrir þessa vankanta og skort á viðunandi gögnum vakti útkoma skýrslunnar verulega athygli og beindi sjónum að áður óþekktu umfangi skapandi greina og því hversu ósýnilegar þær höfðu verið í þjóðhagsreikningum og öðrum opinberum útleggingum á hlut atvinnugreina í hagkerfinu fram að þessu.
Af niðurstöðum rannsóknarinnar var augljóst að skapandi greinar voru ört vaxandi atvinnuvegur sem ekki yrði lengur horft fram hjá í uppgjöri á þjóðarhag eða framlagi ólíkra atvinnugreina til þjóðarbúsins. Vægi greinanna í hagkerfinu varð sýnilegt. Það lá í augum uppi að ekki var lengur forsvaranlegt að telja hvern einasta þorsk sem dreginn var úr sjó, hvert einasta tonn af áli sem flutt var úr landi, …