Til baka

Aðrir sálmar

Sögulegar staðreyndir

Spurningin hvort mjúk lending sé nú alveg að koma ómar nú þessa viku þingsetningar með framlagningu fjárlagafrumvarps. Þegar vextir eru ennþá uppi í háum hæðum en bæði hagvöxtur og skuldsett heimili í mínus. Meðaltalið er þá kanski mjúkt og fínt en sumir fljúga hátt meðan aðrir hafa hrapað. Hvert erum við komin þá?

Þegar framtíðin virðist óljós þá er hollt að líta til sögunnar. Gott getur verið að læra af henni þó hún geti trauðla endurtekið sig þá má bæði finna rím og enduróm. Farið hefur verið vandlega yfir sögu fullveldisins og krónunnar í tveimur síðustu forsíðugreinum þar sem staðreyndirnar æpa á áframhaldandi umræðu. Áður hefur verið fjallað um bæði fullveldið og kostnaðinn við krónuna hér í Vísbendingu. Sama á við um samþjöppun, eignarhald og samkeppni en seinni grein af tveimur sýnir tölurnar bæði fyrir aflaheimildir og dagvörumarkað.

Stöðugt er haldið áfram með þróun efnistaka á síðum Vísbendingar. Dyggir lesendur hafa tekið eftir víðtækari bakgrunni greinahöfunda, þó efnistökin falli áfram ávallt undir einkunnarorð vikuritsins - um viðskipti, efnahagsmál og nýsköpun. Þverfagleiki er grundvöllur árangursríkrar framþróunar og þess vegna birtast greinar af sviði hugvísinda og jafnvel sögulegar svo sem um stjórnunarkenningar og niðurskurðarhyggju.

Hagfræðileg stöðnun er næsta vís ef hugurinn er fastur í viðjum einstrengingslegrar hugmyndafræði. Í löndunum allt í kringum okkur sjáum við nú frjósama umræðu um þróun hagfræðikenninga, meðal annars vegna áskorana verðbólgunnar og baráttunnar við hana.

Árangurinn er ólíkur milli landa. Því er visst áhyggjuefni að ekki sé meiri fjölbreytileiki þegar að fundargerðir peningastefnunefndar birtast og allir þar eru sammála. Sögulega vitum við að einu sinni á þessari öld var farið með stýrivextina upp í 18% til að berjast við verðbólgu. Vonandi þarf aldrei að endurtaka þá tilraun.

Nýjustu verðbólgutölur, sem miðast nú við nýja aðferð við útreikning húsnæðisliðarins frá því í sumar, breytast vegna breytinga mæliaðferðanna. Væru verðbólgutölur síðustu ára leiðréttar afturvirkt miðað við samræmda aðferð þá væri okkar sögulega verðbólga nú minni. Þyrfu stýrivextir því varla að vera eins háir og þeir nú eru. Þegar staðreyndirnar breytast þá skipti Keynes karlinn um skoðun – og spurði jafnframt – hvað gerir þú?

Næsta grein