Dagurinn 1. janúar 1994 markaði merkileg tímamót fyrir allt venjulegt fólk á Íslandi því þá voru ákvæði EES samningsins um evrópska efnahagssvæðið lögfest. Með því fékk Ísland aðgang að sameiginlegum innri markaði Evrópusambandsins án hindrana, að því gefnu að Ísland innleiddi regluverk sem gerði sömu kröfur og önnur Evrópuríki gera. Þær kröfur má m.a. finna í ákvörðun Evrópuþingsins og -ráðsins (nú nr. 768/2008/EB sem tók við af ákvörðun nr. 93/465/EBE) um sameiginlegan ramma um markaðssetningu á vörum (hér eftir „rammi“) sem í reynd nær utan um neytendavernd, öryggi alls kyns vara og þjónustu og opinbera markaðsgæslu en líka hindrunarlaust aðgengi fyrir íslenskar vörur á innri markaðnum. Það er auðvitað afar eftirsóknarverð staða fyrir pínulitla þjóð að vera hluti af svo skilvirku kerfi og stórum markaði, næstum eins og hendi sé veifað. En hvernig virkar kerfið í reynd og er það virkt?
Tvöfaldur ávinningur
Í fyrsta lagi ber að nefna að markaðsaðgengi vara og þjónustu byggir á því að á sameiginlega innri markaðnum sé til staðar samræmi sem öll ríki tryggja. Öll ríki innleiða sömu kröfur og tryggja samræmi þannig að framleiðsluaðferðir og aðferðir við prófun á öryggi er þekkt stærð á markaðnum. Þegar búið er að setja vöruna á markað í einu Evrópulandi er hún komin í frjálst flæði innan hins evrópska markaðar og annað ríki má ekki gera viðbótarkröfur um prófanir eða skoðanir.
Hluti af þessu samhæfða kerfi er kallað „Nýja aðferðin“ en hún þykir skilvirk, gerir tækninýsköpun mögulega og bætir samkeppnishæfni iðnaðar í Evrópu. Hluti nýju aðferðarinnar …