Konur hérlendis tapa miklum tekjum við barneignir samkvæmt nýlegri rannsókn
Á síðustu öld jókst vinnumarkaðsþáttaka kvenna verulega um allan heim og í dag er vinnumarkaðsþátttaka kvenna á Íslandi með því hæsta sem gengur og gerist í heiminum (Ortiz-Ospina o.fl., 2018). Þrátt fyrir það hafa barneignir mikil áhrif á starfsframa og tekjuþróun kvenna umfram karla bæði hérlendis og erlendis. Rannsóknir gefa til kynna að launamun kynjanna í dag megi einna helst rekja til barneigna (Kleven o.fl., 2019).
Lagt hefur verið mat á tekjumissi kvenna við barneignir (e. child penalty in earnings) víða og í lokaverkefni mínu til BS prófs lagði ég mat á tekjuþróun foreldra við barneignir á Íslandi. Til þess notaðist ég við gögn úr álagningarskrám ríkisskattstjóra fyrir árin 2003-2023. Rannsóknin felst í því að kanna hvaða áhrif það hefur á tekjuþróun einstaklinga, til styttri og lengri tíma, að eignast sitt fyrsta barn almennt, eftir hjúskparstöðu, aldri o.fl. Við mat á tekjumissi kvenna við barneignir er notast við atburðarrannsókn (e. event study) sem er sama aðferðarfræði og Kleven o.fl. (2019) notast við í samskonar rannsóknum erlendis. Aðferðafræðin byggist á að skoða breytingar í kringum fæðingar fyrsta barns hjá mæðrum í samanburði við feður til þess að skilja betur áhrif þess að verða foreldri með tilliti til jafnréttis kynjanna (e. gender inequality).
Grunnur rannsóknarinnar
Grunnrannsóknin fylgir foreldrum frá því fjórum árum fyrir fyrstu barneign þar til fimm árum eftir barneign og skoðar áhrif fyrstu barneigna sem eiga sér stað árin 2007-2018 á rauntekjur. Niðurstöðurnar sem sjá má á mynd 1 sýna mjög skýrt að konur verða fyrir miklum rauntekjumissi við eignast sitt fyrsta barn en karlar ekki. Viðmiðunartíminn er árið áður en að barneignin á sér stað (t = −1) og því miðast tekjubreytingar á öðrum tímapunktum við það ár. Sjá má að rauntekjur þróast með mjög svipuðum hætti hjá körlum og konum árin áður en barneignin á sér stað. Strax þegar fyrsta barn kemur í heiminn (t = 0) skilst þróun rauntekna karla og kvenna skarpt að. Rauntekjur kvenna dragast saman um rúm 30 prósent á sama tíma og karlar hækka örlítið í tekjum eða standa í stað. Árið eftir fæðingu, þegar barnið er eins árs, dragast rauntekjur mæðra ennþá meira saman og samdrátturinn er tæp 50 prósent samanborið við árið fyrir fæðingu. Á öðru ári barnsins leiðréttist þetta að einhverju leiti og tekjur eru það sem eftir er athugunartímabilsins í kringum 25-30 prósent lægri en þær voru árið fyrir barneignina. Þetta sýnir að rauntekjur kvenna ná ekki sama stigi og fyrir fyrstu barneign á fyrstu fimm árum barnsins og raunar má sjá á mynd 2 að þær gera það ekki heldur á fyrstu 10 árum barnsins. Tekjur karla hækka áfram árlega eftir fæðingu fyrsta barns, þó að hækkanirnar séu heldur lægri en fyrir barneign. Því virðist sem að barneignir hafi afar lítil áhrif á tekjur karla. Eftir fimm ár er tekjumissir kvenna við barneignir í hlutfalli við karla (e. child penalty in earnings) um 36,5 prósent og eftir tíu ár er hann 34,5 prósent og því mikill til langs tíma.
Inn í rauntekjur teljast fæðingarorlofsgreiðslur og því innihalda tekjur mæðra og feðra á fyrsta og jafnvel öðru ári barnsins fæðingarorlofsgreiðslur. Á tímabili grunnrannsóknarinnar, 2007-2018, var fæðingarorlofslöggjöf þess eðlis að níu mánuðir voru til umráða, hvort foreldri hafði sjálfstæðan óframseljanlegan rétt til þriggja mánaða orlofs og svo stóðu eftir þrír mánuðir sem skipta mátti eftir hentisemi. Á tímabilinu var það í langflestum tilfellum þannig að mæður tóku meginþorra sameignilegs fæðingarorlofs. Til ársins 2013 mátti dreifa greiðslum í fæðingarorlofi yfir 18 mánaða tímabil eftir fæðingu barnsins en frá árinu 2013 mátti dreifa því yfir 24 mánaða tímabil. Börn á Íslandi voru að meðaltali 20 mánaða gömul þegar þau fengu leikskólapláss árið 2017 (BSRB, 2022). Á tímabilinu voru að meðaltali 70 prósent eins árs barna í einhvers konar dagvistun fjarri heimili, sem þýðir að um 30 prósent eins árs barna voru ekki í dagvistun (Hagstofa Íslands, e.d.-a, e.d.-b).
Tekjumissir kvenna á fyrsta ári barnsins rímar við að greiðslur í fæðingarorlofi hjá launafólki eru reiknaðar sem …








