Gervigreind er hér tekin til umfjöllunar í tólf greinum og einu viðtali út frá ólíkum sjónarhornum fræðimanna og sérfræðinga, velt er upp menningarlegum, tæknilegum og samfélagslegum áhrifum hennar, ógnunum, tækifærum og varanlegri umbreytingu daglegs lífs, vinnu, lista og menntunar.
Þema áramótablaðs Vísbendingar 2025 er gervigreind. Hér birtast í blaðinu tólf greinar um efnið eftir fræðimenn og sérfræðinga af mismunandi sviðum þekkingar og úr ólíkum geirum atvinnulífsins. Höfundar eru fólk menntað úr tölvunarfræði, stjórnmálafræði, heimspeki, hagfræði, mannfræði, jarðvísindum og norrænum fræðum starfandi við máltækni, menntatækni, tæknifyrirtæki, fjóra háskóla, opinberar stofnanir, sjálfstætt og í listum. Sjá nánar í efnisyfirlitinu og nokkur eru nefnd hér neðar. Þá er í blaðinu eitt viðtal utan úr heimi við Íslending sem starfar í skýjaþjónustunni þar sem gervigreindin vinnur hvað mest af sínum útreikningum.
Viss vandi er á þessum tímapunkti að samræma hugtakanotkun og þýðingar varðandi vitlíkið eða spunagreindina. Gervigreind (e. Artificial Intelligence) hefur lengi verið til tæknilega, eins og Þórhallur Magnússon prófessor fer yfir í sinni grein um hvernig við höfum skapað skepnu sem skapar og dregur upp ólíkar sviðsmyndir. Gervigreindin hóf hraða innreið sína í líf flestra með beinum hætti á undanförnum misserum af fullum þunga þegar að einhverskonar samtal okkar við spjallmennin (e. Chatbots) hófst í gegnum lyklaborðin sem brátt byrjar með töluðum orðum. Svörin sem tæknin framleiðir fyrir okkur byggir á gervitauganetum og líkindareikningi upp úr gagnagrunnum stóru tungumálalíkana (e. Large Language Models) sem geyma ómælt magn stafrænna upplýsinga.
Skáldið Andri Snær Magnason dró línu í sandinn við árið 2022 á hádegisfundi Rithöfundasambandsins í Eddu, húsi íslenskunnar, nú í upphafi mánaðar þar sem fjallað var um hvort jólabækur framtíðarinnar yrðu skrifaðar af gervigreindinni. Þar greindi hann vissan bragarhátt með holum hljómi í texta framleiddum með tækni gervigreindarinnar. Það er því viðeigandi að annað skáld, Bergsveinn Birgisson, með doktorspróf í dróttkvæðum, skrifi ítarlegustu grein áramótablaðsins sem fjallar um afdrif mennskunnar í heimi sem gervigreindin er að taka yfir. Undir lok blaðsins er söguleg greining frá sjónarhóli stafrænnar mannfræði á umbyltingum tækninnar eftir Margréti Hugrúnu Gústavsdóttur Björnsson þar sem merki franski fræðimaðurinn Bruno Latour kemur við sögu.
Bólur og bækur
Ekki er hægt að komast að einni niðurstöðu um gervigreindina, en vissulega leita á hugan póstmódernískar hugmyndir um hyperreality frá öðrum frönskum fræðimanni Jean Baudrillard. Markmið með samsetningu greina blaðsins er að velta upp mörgum mismunandi hliðum. Ein stóra spurningin sem eftir stendur er hvort að vitlíkið geri okkur heimskari, líkt og vikuritið New Yorker hefur fjallað um. En þau sem ekki greiða fyrir áskrift til að lesa greinina þar að fullu geta fengið rúsínuna úr pylsuendanum með 55 ára alvöru sjónvarpsefni á YouTube. Þá má benda lesendum sem þyrstir í enn meira efni um þá vitrænu vanda sem að okkur steðja á grein í Guardian um það sem netið ekki veit og hvernig mikilvæg mannleg þekking glatast. Einnig er vert að lesa grein í tímaritinu Atlantic um áhrif gervigreindar á menntakerfi okkar og hvernig skólar standa á barmi bilunar.
Þá má velta fyrir sér hvort um sé að ræða bólu í fjárfestingum tengdum gervigreindinni og hvort af þeim muni leiða góðan vöxt, vonda bólgu eða eitthvað hrun. Í þessu blaði hefur að mestu verið horft framhjá fjármálahlið gervigreindarinnar en mikið er um hana fjallað í alþjóðlegum fjölmiðlum nú um stundir. Áhrifin af tækniþróuninni á hið kapítalíska efnahagskerfi eru þó tekin fyrir í grein Marteins Sindra Jónssonar dósents. Sammerkt með niðurstöðum nokkurra greina blaðsins er að ljóst er að umbreytingin er hafin og gervigreindin er komin til að vera hluti af daglegu lífi okkar – því anda gervigreindarinnar verður hvorki troðið aftur ofan í lampa Alladíns né önnur ílát.
Undir lok ársins, í miðju jólabókaflóði, hvarflar hugur ritstjórans til gamalla kennara sinna, til dæmis menntaskólakennarans Ragnheiðar Briem sem kenndi okkur að besta fjárfesting allra tíma væri að lesa bók á hverju kvöldi með börnum sínum. Lesendur komnir af barneignaaldri geta vonandi lesið með ömmu- eða afabörnunum sínum. Það er alvöru – get ég lofað ykkur.
Að endingu ber að þakka þeim rúmlega hundrað höfundum sem skrifað hafa vandaðar greinar í vikuritið og þrjú þemablöð þess á árinu. Síðustu tvö árin hafa komið út þemablöð að vori eða hausti auk hefðbundinna sumar- og áramótablaða. Þemun á þessum tíma hafa verið vinnumarkaður, ferðaiðnaður, húsnæðiskerfið, alþjóðamál, skapandi greinar, nýsköpun og nú gervigreind. Fram að þessu tölublaði hafa aðrar fimmtán greinar fjallað um gervigreind eins og auðveldlega má finna með leit á vef Vísbendingar.
Lesendum, höfundum og áskrifendum óskum við gleðilegra jóla, árs og friðar.
Efnisyfirlit áramótablaðs 2025 um gervigreind:
Atvinnuvegaráðherra: Ísland áfram í fararbroddi - Hanna Katrín Friðriksson
Háskólinn á Akureyri: Hlutverk gervigreindar á háskólastigi
Gervigreindarbyltingin: Úr fleipum í framþróun - Lilja Dögg Jónsdóttir
Nýsköpun í þágu menntunar á tímum örrar tækniþróunar - Ásta Olga Magnúsdóttir
Gervigreind mun umbreyta heiminum - Kristján Kristjánsson
Sköpun skepnu sem skapar - Þórhallur Magnússon
Sefjunarhagkerfið og atbeini hönnuða - Marteinn Sindri Jónsson
Viðtal við Halldór Jörgen Faurholt Olesen: Gervigreindin mun aldrei koma í stað mannlegra tengsla
Ljósleiðarabyltingin í náttúruvárvöktun - Kristín Jónsdóttir og Vala Hjörleifsdóttir
Gervigreindarbyltingin: Kostuð af sérfræðingum en hagnýtt af fyrirtækjum - Vilhjálmur Hilmarsson
Tækniframfaratrú og veiklyndi mannsins - Bergsveinn Birgisson
Úr buxnavasa upp í himinhvolf - Margrét Hugrún Gústavsdóttir Björnsson









