
Rannsóknir benda til þess að fátækt eða erfiðar félagslegar aðstæður barna í æsku geti mótað stöðu þeirra til framtíðar. Þau börn sem búa t.d. ekki við hvatningu til menntunar og þroska á barnsaldri eru líklegri til að standa verr en aðrir félagslega í framtíðinni og með því móti er viðhaldið félagslegum ójöfnuði milli kynslóða. James J. Heckman Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði hefur bent á þessar staðreyndir og lagt áherslu á mikilvægi þess að ráðist sé að rótum vandans með snemmtækri íhlutun sem jafni stöðu barna á fyrstu æviárum þeirra.
Ástæða er til að staldra sérstaklega við menntun barna, því menntakerfið er mikilvægt jöfnunartæki, staður þar sem öll börn eiga að fá sömu tækifæri til að læra og þroskast óháð efnahag eða félagslegri stöðu, og að einstaklingsbundnum þörfum þeirra sé mætt. Samkvæmt íslenskri menntastefnu er skóli án aðgreiningar bundin í lög en þeirri stefnu er ætlað að koma til móts við vaxandi fjölbreytileika meðal nemenda og veita hverjum og einum góða og viðeigandi menntun. Stefnunni er einnig ætlað að stuðla að félagslegu réttlæti í skólum. Ójöfn tækifæri skapast ekki aðeins vegna ójafnrar félagslegrar stöðu heldur einnig vegna ýmissa annarra áskorana sem börn glíma við. Margt bendir til að skólakerfið hér á landi sé ekki í stakk búið til að veita einstaklingsbundna þjónustu og að fjöldi barna nái því ekki að fóta sig innan skólakerfisins. Slíkt getur haft mikil áhrif á bæði andlegt og líkamlegt atgervi þeirra og mótað líf þeirra til framtíðar.
Gögn um bið eftir þjónustu
Ein birtingarmynd þess vanda sem hópur íslenskra barna glímir við er bið þeirra eftir þjónustu hjá opinberum aðilum. Umboðsmaður barna hefur að undanförnu staðið fyrir reglulegri upplýsingasöfnun um þann fjölda barna sem bíður eftir þjónustu hjá tilteknum aðilum með það að markmiði að varpa ljósi á stöðuna hverju sinni. Birtar eru tölur tvisvar á ári um bið barna eftir þjónustu hjá nokkrum opinberum aðilum en það var fyrst gert í febrúar 2022 og því voru tölur um bið eftir þjónustu birtar í fimmta sinn í mars nú í ár.
Umboðsmaður barna
Samstarfsaðilar verkefnisins eru Barna- og fjölskyldustofa, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Geðheilsumiðstöð barna, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Barna- og unglingageðdeild LSH, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heilsuskóli Barnaspítalans og nú síðast bættist Heyrnar- og talmeinastöð Íslands í hópinn. Áður en embætti umboðsmanns barna hóf reglulega birtingu þessara upplýsinga hafði embættið ítrekað gert athugasemdir við stjórnvöld vegna biðtíma barna. Þá hafði embættið margoft fengið ábendingar og ákall frá börnum um bætt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, sérstaklega geðheilbrigðisþjónustu. Loks má geta þess að barnaréttarnefnd Sameinaðu þjóðanna hefur gert athugasemdir við langan biðtíma eftir þjónustu í skýrslum sínum til íslenskra stjórnvalda enda hefur vandinn verið viðvarandi í fjölmörg ár.
Jöfnuður og biðtími
Bið barna eftir þjónustu er til þess fallin að skapa ójöfnuð til framtíðar. Börn sem þurfa að bíða lengi eftir greiningu búa ekki við sömu tækifæri og önnur börn. Ekki aðeins er hætta á að vandi barnanna aukist á meðan á biðinni stendur heldur fara þau einnig á mis …








