Rannsóknir benda til þess að fátækt eða erfiðar félagslegar aðstæður barna í æsku geti mótað stöðu þeirra til framtíðar. Þau börn sem búa t.d. ekki við hvatningu til menntunar og þroska á barnsaldri eru líklegri til að standa verr en aðrir félagslega í framtíðinni og með því móti er viðhaldið félagslegum ójöfnuði milli kynslóða. James J. Heckman Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði hefur bent á þessar staðreyndir og lagt áherslu á mikilvægi þess að ráðist sé að rótum vandans með snemmtækri íhlutun sem jafni stöðu barna á fyrstu æviárum þeirra.


