Samheldni eykur öryggi. Þess vegna var Atlantshafsbandalagið stofnað 1949 og tveim árum síðar Kola- og stálbandalag Evrópu, sem varð smám saman að Evrópusambandinu eins og það er nú. Stofnríki NATO voru tólf og nú eru aðildarríkin orðin 32 talsins.
Friður og vaxandi velmegun
Kola- og stálbandalag Evrópu hafði það höfuðmarkmið að girða fyrir ítrekuð átök á svæðinu með því að setja helztu náttúruauðlindir álfunnar, kol og stál, undir sameiginlega stjórn. KSB taldi sex aðildarríki í upphafi: Frakkland, Þýzkaland, Ítalíu, Belgíu, Holland og Lúxemborg. Nú eru aðildarríki ESB orðin 27 talsins. Órofa friður meðal aðildarríkjanna æ síðan og aukin velmegun með tímanum vitna um þá snilldarlegu framsýni sem bjó að baki þessari stofnanaumgjörð til að tengja Evrópulöndin innbyrðis og efla tengsl þeirra við Norður-Ameríku.
Í ljósi þess árangurs sem náðst hefur kemur ekki á óvart hversu aðildarríkjum bæði NATO og ESB heldur enn áfram að fjölga. Aðild svo margra Mið- og Austur-Evrópuríkja að ESB og NATO eftir skipbrot kommúnismans 1989-1991 og síðan aðild Finnlands og Svíþjóðar að NATO í skyndingu eftir framhaldsinnrás Rússa í Úkraínu 2022 þéttir raðirnar í Evrópu. Í þessu ljósi þurfa Íslendingar og Norðmenn án frekari tafar að endurskoða tregðu sína gagnvart aðild að ESB til að þétta raðirnar enn frekar á útjaðri Evrópu. Þar eð Bandaríkin virðast ekki lengur vera fyllilega áreiðanlegur bakhjarl og bandamaður, knýr árásarstríð Rússlands gegn Úkraínu ESB-þjóðirnar til að standa saman og styrkja varnir sínar á eigin spýtur.
Breytt heimsmynd
Eftir heimsstyrjöldina síðari þurfti rústuð Evrópa á að halda þeirri rausnarlegu vernd sem Bandaríkin veittu sem helzta forusturíki NATO. Yfirburðastaða Bandaríkjanna eftir stríð lýsti sér meðal annars í því að 1960 nam landsframleiðsla þeirra 40% af heimsframleiðslu borið saman við 21% hlutdeild ESB, 4% hlutdeild Kína og 3% hlutdeild Indlands. Nú blasir við breytt heimsmynd því hlutdeild Bandaríkjanna í heimsframleiðslu var komin niður í 26% 2024 borið saman við 17% hlutdeild ESB, annað eins í Kína og 4% hlutdeild Indlands – og 2% hlutdeild Rússlands, sem er aðeins örlitlu meiri en …








