
Bókun 35, þriðji orkupakkinn, EES, auðlindir á Norðurslóðum, erlend fjárfesting, Mannréttindadómstóll Evrópu, NATO, efnahagslögsagan, vörumerkið „Iceland“, loftslagsbreytingar, stríðsátök. Þetta eru allt málaflokkar sem hljóma kunnuglega. Þeir hafa allir alþjóðlegan vinkil og tengjast með einum eða öðrum hætti fullveldishugtakinu. Þrátt fyrir að hugtakið dúkki upp í margvíslegu samhengi fer sjaldan fram umræða um hvað felst nákvæmlega í því. Hugmyndin er að gera það hér og sýna hvernig alþjóðlegir dómstólar hafa útskýrt alþjóðlega vinkla fullveldisins síðustu 100 árin
Fasti alþjóðadómstóllinn
Í þjóðarétti (alþjóðalögum) er litið svo á að tilteknar einingar, ríki, geti verið þjóðréttaraðilar og átt réttindi og borið skyldur að lögum. Þessi formlega staða ríkja hefur þau áhrif að milli þeirra gildir jafnræði. Það eru fyrst og fremst þessir fullvalda jafningjar sem skapa þær reglur sem gilda á alþjóðavettvangi. Hafa verður þó í huga að völd, hernaðarmáttur og áhrif þessara fullvalda jafningja eru afar ólík. Fyrsti varanlegi alþjóðadómstóllinn – Fasti alþjóðadómstóllinn (e. Permanent Court of International Justice), fyrirrennari alþjóðadómstólsins í Haag – útskýrði þetta, í hinu svokallaða Lotus máli frá 1927, með þeim hætti að þjóðaréttur stýri tengslum sjálfstæðra ríkja. Þær réttarreglur sem skuldbinda ríki stafi frá þeirra eigin frjálsa vilja eins og hann birtist í samningum eða breytni sem almennt er talin birtingarmynd lagareglna og sem er ætlað að reglubinda samskipti sjálfstæðra samfélaga eða með það að markmiði að ná sameiginlegum markmiðum
S.S. Wimbledon
Fjórum árum fyrir uppkvaðningu dómsins í Lotus-málinu kvað sami dómstóll upp annan grundvallardóm í hinu svonefnda S.S. Wimbledon-máli. Í honum var velt upp spurningunni hvernig ríki getur verið fullvalda en samt sem áður skuldbundið að þjóðarétti. Rétt er að hafa í huga að Wimbledon-málið er fyrsti dómur Fasta alþjóðadómstólsins sem var fyrsti varanlegi alþjóðadómstóllinn sem ríki komu sér saman um (aðildarríki Þjóðabandalagsins, sem var fyrirrennari Sameinuðu þjóðanna). Dómurinn markar því ákveðin tímamót.
Málavextir voru þeir að franskt félag hafði leigt enskt gufuskip, S.S. Wimbledon, til hergagnaflutninga til Póllands. Þýsk stjórnvöld neituðu skipinu för um Kílarskurðinn, þar sem Þýskaland væri hlutlaust ríki samkvæmt Versalasamningnum, með þeim afleiðingum að skipið varð að fara um dönsku sundin og tafðist við það. Sami samningur kvað aftur á móti á um að Kílarskurðurinn væri opinn öllum skipum er ættu í friði við Þýskaland, m.ö.o. Þýskaland var skuldbundið til að leyfa siglingar erlendra skipa í Kílarskurðinum nema fánaríki skips ætti í ófriði við Þýskaland. Franska félagið hélt því fram að þýska ríkið hefðu með neitun sinni skapað sér skaðabótaábyrgð. Þrátt fyrir að hægt hefði verið að höfða einkamál á hendur þýskum stjórnvöldum fyrir þýskum dómstólum ákvað franska ríkið að höfða mál gegn Þjóðverjum fyrir Fasta alþjóðadómstólnum á grundvelli þess að skaðabótaskyldan byggðist á því hvort skilningur Þjóðverja á Versalasamningnum hefði átt við rök að styðjast.
Á endanum stóðu Frakkland, Bretland, Japan og Ítalía að málshöfðuninni gegn Þýskalandi með meðalgönguaðild
Með þessum orðum varði dómstóllinn fullveldi sem grundvöll nútíma alþjóðasamskipta. Hann undirstrikar að fullvalda ríki dregur ekki úr hæfi sínu til að fara sjálft með eigin …








