Það er húsnæðiskrísa á Íslandi – þar sem viðvarandi skortur hækkar verð íbúða stöðugt. Þú sífellda verðhækkun húsnæðis er síðan helsti áhrifaþáttur verðbólgunnar og sú víxlverkun sjálfmagnandi. Húsnæðisskorturinn er þannig risastórt úrlausnarefni við stjórn efnahagsmála.
Með þessu blaði birtist fyrsta ársfjórðungsrit Vísbendingar og er það helgað húsnæðismálum að þessu sinni. Fyrirsjáanlegt er að húsnæðismál verði eitt helsta málefnið næsta mánuðinn í aðdraganda kosninga og eitt mikilvægasta úrlausnarefnið í efnahagsstjórn landsins á komandi misserum. Þó ekki sé efnahagsleg kreppa hérlendis þá er sú langvarandi húsnæðiskrísa sem hrjáir okkur farin að hafa alvarlegar efnahagslegar afleiðingar.
Vikuritið Vísbending, sem komið hefur út í yfir fjörtíu ár, gefur reglulega út veglegar áramóta- og sumarútgáfur sem prentaðar eru í stærra upplagi og hafa undanfarin ár verið 32-40 síður en hefðbundin vikuleg tölublöð eru yfirleitt með tveimur greinum auk leiðaraskrifum í öðrum sálmum. Hætt var að prenta vikuritið síðasta vor en fjögurra síðna tölublöð koma á rafrænu formi til áskrifenda í tölvupósti á hverjum föstudegi. Rúmlega ársgamall vefur blaðins, visbending.is hefur einnig notið vaxandi vinsælda þar sem nálgast má greinarnar hverja eða tölublöðin hvert og eitt. Tenglar í heimildir og tilvísanir hafa einnig verið gerðir lifandi fyrir lesendur sem vilja dýpka þekkingu sína enn frekar.
Í vor gerðum við tilraunir með mánaðarlegar prentaðar útgáfur. Nú þróum við útgáfuna áfram og gefum út fyrsta ársfjórðungsblað vikuritsins með átta greinum í 24 síðna blaði sem bæði er prentað og dreift rafrænt. Fjöldi greina um húsnæðismál sem birst hefur á árinu er einnig aðgengilegur hér neðar. Vonumst við til að þessi nýmæli falli áskrifendum vel.
Efnistök blaðsins nú ná yfir greinar um húsnæðisstefnu stjórnvalda frá innviðaráðuneytinu til hagsmunasamtaka byggingariðnaðarins, bæði í grein aðalhagfræðings og viðtali við framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins. Jafnframt eru tvær sérhæfðar greinar verkfræðings um ljósvist og líffræðings sem er lýðheilsufræðingur og fjallar um sjálfbærni bygginga, loftslags, gæða og hönnunar. Þá eru tvær greinar ólíkra hagfræðinga sem báðar draga fram alþjóðlega vinkla á ytra sjónarhorn á húsnæðismarkaði. Loks er íslenski húsnæðismarkaður greindur innan frá í tveimur greinum. Annarsvegar frá sjónarhóli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem telur svikalogn vera vegna misvægis ólíkra stærða íbúða og hins vegar út frá félagslegri sjálfbærni.
Nýlega samþykkt þingsályktun Alþingis um húsnæðisstefnu, sem rædd er í tveimur greinum blaðsins, felur ekki í sér neina lögformlega bindingu, en þar er að finna stefnumörkun til árins 2038 með fögur fyrirheit. Jafnframt fylgir húsnæðisstefnunni aðgerðaáætlun til ársins 2028, sem samræmist fimm ára stefnumörkun úr fjármálaáætlun. Þar helmingast fjárframlög til félagslegs húsnæðis á næsta ári svo dæmi sé nefnt og vex ekki næstu árin þar á eftir. En vissulega mun ný ríkisstjórn setja sér fjármálastefnu sem markar ramman fyrir áætlanir opinberra fjármála næstu fimm ár hið minnsta og því verður komin fram önnur áætlun um aðgerðir strax á næsta ári.
Húsnæðiskreppan sem hefur staðið yfir, og ekki sér fyrir endan á, felur í sér aukinn og vaxandi ójöfnuð í húsnæðiskerfi þar sem leigusamningar eru verðtryggði og framboð eykst ekki þrátt fyrir stöðugt hækkandi verð. Markaðslausnir kerfisins hafa brostið getu til viðbragða og auðvitað er mismunandi sýn á hvers vegna sú sé raunin. Aðgerðir hins opinbera hafa ýmist þótt ekki nægjanlegar eða of miklar af þeim sem aðhyllast markaðshyggju af ýtrustu gerð.
Húsnæðismál og sjálfbærni verður að samþætta líkt og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs til arkitektsins Arnhildar Pálmadóttur nú í vikunni sýna vel. Sjálfbærnin nær þó ekki aðeins til bygginganna sjálfra og umhverfisáhrifa þeirra. Heldur ekki síður til stjórnsýslulegra og efnahagslegra þátta en síðast en ekki síst skipta félagslegir þættir sjálfbærninnar máli. Samfélagsleg sjálfbærni er enda stórlega vanmetið hugtak hérlendis þó það hafi haft mikil áhrif til breytinga á samfélagsgerð landanna í kringum okkur undanfarin áratug hið minnsta.
Fjármögnun húsnæðiskerfisins fellur nánast utan umfjöllunar þessa ársfjórðungsrits enda efni í annað jafnstórt tölublað. Sá fjármögnunarhluti kerfisins sem verður örugglega alls ekki ræddur í tengslum við komandi kosningar er hvernig leysa skuli úr stöðugum útgjöldum vegna skulda sem eru á ábyrgð ríkisins hjá íbúðalánasjóði (nú ÍL sjóði) en tap hans var um 2-3 milljarðar króna á mánuði í fyrra og hitteðfyrra, en eigið fé sjóðsins var neikvætt um 254 milljarða króna í upphafi þessa árs. ÍL-sjóður er samkvæmt ársreikningi 2023 ekki gjaldfær eftir tíu ár, en skuldabréf sjóðsins falla á gjalddaga árin 2024, 2034 og 2044.
Efnisyfirlit Haustblaðs Vísbendingar 2024:
- Hildur Dungal: Stefnumótun í húsnæðismálum til lengri tíma
- Karen Kjartansdóttir: Húsnæðiskreppan á Íslandi: Hverjir tapa og hverjir hagnast á félagslegri ósjálfbærni?
- Ingólfur Bender: Stöðug uppbygging íbúða og innviða í takti við þarfir landsmanna
- Ásta Logadóttir: Ljósvist: Mikilvægi innivistar og reglna
- Þórólfur Matthíasson: Húsnæðiskostnaður og -fjárfesting hér og þar
- Viðtal við Sigurður Hannesson um hvað sé hægt að gera til að bregðast við húsnæðiskrísunni
- Jónas Atli Gunnarsson & Ólafur Þórisson: Svikalogn á fasteignamarkaði
- Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir: Loftslagsbreytingar og framtíðarhönnun
- Ólafur Margeirsson: Skorturinn á húsnæði í Evrópu: Lærdómur fyrir Ísland
Eldri greinar ársins um húsnæðismál í Vísbendingu:
- Ólafur Margeirsson: 34. tbl. 2024 Húsnæðishagfræði 101
- Hjálmar Sveinsson: 33. tbl. 2024 Vaxtarverkir
- Jónas Atli Gunnarsson & Ólafur Þórisson: 32. tbl. 2024 Blikur á lofti á tvískiptum leigumarkaði
- Gylfi Zoega & Már Wolfgang Mixa: 28. tbl. 2024 Séreignarsparnaður sem hagstjórnartæki
- Jónas Atli Gunnarsson & Ólafur Þórisson: 16. tbl. 2024 Listin að byggja rétt
- Ólafur Margeirsson: 10. tbl. 2024 Fjárfesting lífeyrissjóða á íbúða- og leigumarkaði
- Ásgeir Daníelsson: 8. tbl. 2024 Húsnæðisverð, lóðaverð og afkoma í byggingariðnaði
- Ólafur Margeirsson, áramótablað 2023: Þétt byggð, leigu- og fasteignaverð