Til baka

Aðrir sálmar

Launamunur og aðstöðumunur

Evrópusamvinnan færir neytendum aukið jafnræði og vernd gegn ójafnri aðstöðu. Að eyða aðstöðumun foreldra barna er ekki síður mikilvægt jafnréttismál eins og að eyða launamun.

Þrjátíu ára afmæli EES samningsins hefur verið fagnað með nokkrum greinum hér í blaðinu að undanförnu, þó lítið hafi farið fyrir umræðu um Evrópumálin í fjölmiðlum annars. Kerfi sem bæta aðstöðumun launafólks hafa byggst á umbótum sem oft hafa á undanförnum árum komið frá Evrópu. Bæði fyrir tilstilli evrópskra tilskipana sem tryggja réttindi og einnig dómsúrskurða, til að mynda svo knýja megi fjármálastofnanir til að gera skiljanlega lánasamninga við fólk.[1]

Ef hér væri samfélagsleg nýsköpun og eðlilegt ástand í stjórnmálunum þá væri fyrir löngu búin að fara fram umræða um til dæmis hugmyndina um ömmu- og afabarnaorlof. Sem gæti brúað bilið eftir að fæðingarorlofi foreldra lýkur við eins árs aldur barna þar til leikskólakerfið tekur við börnum við tveggja ára aldur, þar sem skólagjöld eru reyndar margföld á við opinbera háskóla.

Færa má rök fyrir því að þetta langa óbrúaða umönnunarbil og biðlistamenning sé í raun mun alvarlegri brotalöm fyrir jafnréttið heldur en launabilið sem mælist hérlendis milli kynja, þó það sé óréttlætanlegt.[2] Mikilvægt er þó að viðurkenna að aðstöðumunur birtist með margvíslegu móti.

Hvaða réttlæti er í því að foreldrar bíði í ár með börn sín á biðlista eftir leikskólaplássi þegar þau hefja vinnu eftir að fæðingarorlofi lýkur? Það er líklega ekkert skrítið að fæðingartíðni falli hratt í samfélagi sem er svo uppbyggt.

Samtímis eigum við met á efsta skólastiginu í fjölda útskrifaðra með tvær til þrjár meistaragráður af háskólastigi. Fólk sem fer stuttu síðar með þá margföldu menntun inn á biðlista eftir plássi á öldrunarheimili, þar sem aðflutt vinnuafl annast það án þess að tala sama tungumál. Það er eitthvað skakkt við þessi burðarvirki samfélagsins. Spyrja verður, ekki síst við kosningar, hvað hafi verið gert til að bæta samfélagið og styrkja raunverulegt burðarþol þess.

Tilvísanir

  1. https://visbending.is/greinar/hvernig-utrymum-vid-kynbundnum-launamun/

  2. https://visbending.is/greinar/okkar-evropa-30-arum-sidar/

Næsta grein