
Í fyrri hluta greinarinnar í síðustu viku var fjallað um nýfallin dóm Hæstaréttar um breytilega vexti (mál 55/2024) og skort á góðum viðmiðum fyrir breytilega vexti á íslenskum markaði. Í þessum síðari hluta greinarinna er farið nánar yfir möguleg viðmið og hugsanleg viðbrögð lánveitenda ásamt því að greina lausnir til framtíðar, sérstaklega með tilliti til fjármögnunar.
Stýrivaxtaviðmið
Stýrivextir (meginvextir) Seðlabankans eru einnig oft nothæft – þó ekki fullkomið – viðmið fyrir skammtíma óverðtryggða vexti enda er þeim beinlínis ætlað að hafa áhrif á aðra slíka vexti í fjármálakerfinu. Tæknilega væri ekkert því til fyrirstöðu að setja í lánaskilmála að lán væri með tilteknu álagi ofan á þá vexti. Það væri jafnvel hægt að miða við aðra vexti Seðlabankans sem eru ákveðnir og birtir um leið og stýrivextirnir, t.d. vexti Seðlabankans á daglánum. Það væri að því leyti eðlilegra að útlánavextir Seðlabankans ættu að komast nær því að endurspegla fjármögnunarkostnað viðskiptabanka en innlánsvextir Seðlabankans. Stýrivextirnir eru nú vextir á innlánum sem bundin eru til 7 daga. Gallinn við að nota vexti sem Seðlabankinn ákveður er m.a. að það getur verið talsverður munur á þeim og raunverulegum markaðsvöxtum við ýmsar aðstæður.
Í dómi Hæstaréttar var einnig komist að þeirri niðurstöðu að verðbólga (þ.e. breytingar á vísitölu neysluverðs) gæti verið nothæft viðmið fyrir breytilega vexti. Það er rétt, svo langt sem það nær, enda sveiflast óverðtryggðir markaðsvextir almennt að einhverju marki með verðbólgu. Gallarnir eru þó ýmsir á því að nota verðbólgu sem viðmið fyrir breytilega vexti á óverðtryggðum lánum. Einn er að raunvextir á markaði sveiflast alla jafna töluvert og breytingar á verðbólgumælingum endurspegla það ekki. Annar er að notkun á verðbólgu sem viðmiði myndi í raun breyta óverðtryggðum lánum í verðtryggð, þó með annarri útfærslu en almennt tíðkast á verðtryggingu. Það myndi m.a. takmarka val þeirra lántaka sem vilja ekki verðtryggingu.
Síðan eru nokkrir aðrir tæknilegir gallar, sem raunar eiga líka almennt við um verðtryggð lán, t.d. að vísitala neysluverðs er bara mæld einu sinni í mánuði og vísitölugildi tiltekins mánaðar byggir í raun á verðlagi í mánuðinum á undan. Breytingar á vísitölunni milli mánaða geta verið verulegar og árstíðasveiflu getur jafnvel gætt, sem myndi þýða skrýtnar sveiflur í vöxtum sem byggðu á þeim. Verðbólgutölur eru fyrir vikið yfirleitt gefnar upp miðað við 12 mánuði í einu.
Líkleg viðbrögð lánveitenda við dómi
Líkt og sjá má á upptalningunni að ofan er hægt að finna ýmis misgóð en þó líklega nothæf viðmið fyrir breytilega óverðtryggða vexti á lánum í íslenskum krónum. Líklegt má teljast að viðbrögð lánveitenda við dómi Hæstaréttar verði að taka einhver þeirra í notkun. Það mun líklega ekki breyta lánakjörum að jafnaði svo neinu nemur og hafa almennt lítil áhrif á hag lánveitenda og lántaka. Minna má á í því samhengi að aflagning LIBOR kerfisins hafði að því er virðist engin veruleg áhrif á erlenda markaði. Þeir tóku a.m.k. enga kollsteypu.
Það hefði þó einn augljósan kost ef lán yrðu almennt með sama viðmiði, t.d. IKON. Það myndi gera það einfalt fyrir lántaka að bera saman kjör hjá mismunandi lánveitendum og ýta undir samkeppni þeirra. Nú geta lánveitendur bara borið saman vexti þegar lánið er tekið en ekkert tryggir að það lán sem virðist hagstæðast nú (þ.e. með lægstu breytilegu vöxtunum) verði það einnig síðar á lánstímanum.
Almennt er það auðvitað hagsmunamál fyrir lántaka að vextir séu bæði lágir og fyrirsjáanlegir. Það að taka upp tiltekið viðmið fyrir breytilega vexti gerir e.t.v. útreikningana einfalda en það gerir vextina ekki fyrirsjáanlega. Það er einfaldlega ekki hægt að spá með mikilli vissu fyrir um þróun t.d. IKON eða REIBOR vaxta eða vísitölu neysluverðs.
Vilji lántaki vita vexti fram í tímann er auðvitað hægt að taka lán með föstum vöxtum. Það gefur fyrirsjáanleika en þó ekki fullkominn. Sá sem sem tekur verðtryggt lán með föstum vöxtum veit þannig raunvextina fyrirfram en ekki nafnvextina (þ.e. vexti með verðbótum). Sá sem tekur óverðtryggt lán með föstum vöxtum veit á sama hátt nafnvextina en ekki raunvextina. Almennt er raunar ógjörningur að fá óverðtryggt lán til mjög langs tíma með föstum vöxtum í krónum. Bankar og lífeyrissjóðir bjóða upp á fasta nafnvexti til að hámarki nokkurra ára, t.d. 5, en ekki allan lánstímann sem getur jú orðið allt að 40 ár.
Fjármögnun til framtíðar
Skýringin á því að bankar geta ekki með góðu móti boðið fasta nafnvexti til mjög langs tíma er einfaldlega að þeir geta ekki sjálfir tryggt sér fjármögnun á föstum vöxtum til langs tíma. Þeir gætu þó líklega teygt sig lengra en í 5 ár, t.d. hefur ríkinu tekist að selja óverðtryggð skuldabréf með lokagjalddaga eftir 17 ár, þ.e. árið 2042. Það er þó hætt við að fasteignalán sem fjármögnuð væri með slíkri skuldabréfaútgáfu yrði erfitt að markaðssetja því að lántakinn tæki mjög mikla áhættu hvað raunvexti varðar. Ríkið …








