Til baka

Aðrir sálmar

Verðmæti og verð

Verðmæti húsnæðis felur í sér margvíslegt mat á verði. Tjónið í Grindavík felst ekki aðeins í húsnæðinu sjálfu heldur einnig í öðrum innviðum. Í samhengi við hlutabréfamarkaðinn eru fjárhæðirnar sem um ræðir ekki svo yfirþyrmandi.

deilimynd-asgeirbrynjar

Enginn veit hvert heildartjónið verður í Grindavík á endanum. Áætlun um verðmat alls þess tjóns er ennþá illmöguleg í raunhæfri útfærslu. Óvissa íbúa um afdrif heimila sinna verður svo aldrei metin til fjár.

Í efnhagspólitík líkt og í hagfræði er vert að muna að ekki er til neitt eitt rétt verð. Þó notast sé við líkön þar sem finna má út svokallað jafnvægisverð þá má ekki líta svo á að hagfræðijöfnur færi okkur sannleikann í einni tölu.

Vissulega eru opinberar tölur til um bæði fasteignamat og brunabótamat þar sem koma fram ákveðin verðmöt á íbúðahúsnæði og atvinnuhúsnæði. Niðurstaða um tjónabætur gæti legið þar á milli. Líkt og kemur fram í grein Gylfa Zoega í blaði vikunnar þarf samhliða að ákvarða fjármögnun til að greiða megi fyrir húsnæðistjónið. Innviðirnir ofan og neðanjarðar eru síðan önnur saga.

Áhugavert verður að fylgjast með hvernig einkavædd veitufyrirtæki takast á við hamfarir þær sem nú ganga yfir og hve mikið af áunnum hagnaði af rekstri getur nýst til að takast á við höggið sem tjónið af eldgosum og jarðskjálftum veldur.

Áður en ákveðið er hvort ríkissjóður hleypur undir bagga með einkafyrirtækjum þá þarf að leysa úr húsnæðisvanda íbúanna. Húsnæðismarkaður hefur raunar lengi verið í miklu ójafnvægi hér á Íslandi og markaðsöfl ekki skapað nægt framboð þrátt fyrir hagnaðarmöguleika. Ójafnvægði sem magnaðist af ferðamannastraumi birtist nú enn skýrar þegar rýma hefur þurf eitt bæjarfélag.

Hægt að lesa um hið stóra samhengi verðmats fyrirtækja landsins í hinni grein blaðsins. Reynsla síðasta árs á hlutabréfamarkaði sýnir okkur að verðfall bréfa í einu fyrirtæki vegna brostinna væntinga, jafnvel bara tímabundið, getur verið mun meira en verðmat allra þeirra fasteigna sem finna má í bæ þar sem um eitt prósent þjóðarinnar bjó.

Næsta grein