
Fjórða útflutningsstoð Íslands, hugverkaiðnaður, hefur alla burði til þess að verða sú verðmætasta í lok þessa áratugar. Við höfum það í höndum okkar hvernig mál þróast en skilvirkt og fyrirsjáanlegt starfsumhverfi mun hafa mikið um framhaldið að segja og því hefur stefna stjórnvalda og lagasetning mikil áhrif. Vöxtur útflutningstekna hugverkaiðnaðar er ekki tilviljun. Hann er afrakstur stórhuga frumkvöðla og stefnumörkunar stjórnvalda sem hafa með skattahvötum ýtt undir fjárfestingu í rannsóknum og þróun, með öðrum orðum í nýsköpun.
Útflutningstekjur hugverkaiðnaðar námu 310 milljörðum króna árið 2024 og hafa þær ríflega fimmfaldast frá því árið 2009. Hugverkaiðnaður er fjórða stoð útflutnings á Íslandi en útflutningstekjur greinarinnar námu 16% af heildarútflutningstekjum Íslands á síðasta ári.
Vöxtur hugverkaiðnaðar felur í sér aukna verðmætasköpun, aukinn efnahagslegan stöðugleika og fleiri háframleiðnistörf. Fjárfesting fyrirtækja í rannsóknum og þróun er undirstaða hugverkaiðnaðar en hugverk og sérhæfður mannauður eru helsta auðlindir greinarinnar.
Skattahvatar vegna rannsókna og þróunar helsta tækið
Skattahvatar vegna rannsókna og þróunar eru öflugasta tólið í verkfærakistu ríkisins til að stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu. Fjárfesting í rannsóknum og þróun sem hlutfall af landsframleiðslu hefur farið úr 1,7% árið 2013 í 2,7% árið 2023. Fjárfesting í rannsóknum og þróun hefur því aukist mikið hér á landi á síðustu árum og er nú sem hlutfall af landsframleiðslu yfir meðaltali ESB-ríkja en hins vegar minna en í Bandaríkjunum. Um 75% fjárfestingar í rannsóknum og þróun kemur frá fyrirtækjum. Stjórnvöld í mörgum ríkjum heims hafa markmið um að auka fjárfestingar í nýsköpun og þar er lykilatriði að virkja einkafjármagn.
Lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, sem upphaflega tóku gildi árið 2009, eiga stóran þátt í þessum mikla árangri. Skattahvatarnir voru auknir árið 2018 og aftur árið 2020. Í greiningum Samtaka iðnaðarins í kjölfar breytinga á lögunum kom skýrt fram hversu miklir kraftar voru leystir úr læðingi í atvinnulífinu með auknum skattahvötum, fyrirtæki juku fjárfestingu í nýsköpun, verðmætum háframleiðnistörfum fjölgaði og útflutningstekjur jukust í kjölfarið.
Fyrirtæki fjárfestu fyrir samtals 85,8 milljarða króna í rannsóknum og þróun á árinu 2023 en opinberir aðilar, til að mynda rannsóknastofnanir, fyrir 13 milljarða króna. Uppskeran af fjárfestingu síðustu 15 ára í rannsóknum og þróun er að koma ríkulega fram í hagkerfinu um þessar mundir.
Á síðasta ári rann yfir 90% af framlögum ríkisins vegna rannsókna og þróunar til iðnfyrirtækja sem endurspeglar þá staðreynd að nýsköpun á sér fyrst og fremst stað í iðnaði þó afrakstur hennar sé hagnýttur í flestöllum atvinnugreinum og á flestum sviðum samfélagsins.
Nú stendur yfir heildarendurskoðun á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki með sérstakri áherslu á skattahvata vegna rannsókna og þróunar. Starfshópur á vegum fjármálaráðuneytisins og háskóla-, menningar- og nýsköpunarráðuneytisins stefnir að því að skila tillögum að breytingum á kerfinu í lok þessa árs. Samtök iðnaðarins hvetja stjórnvöld til að viðhalda sterkum og fyrirsjáanlegum skattahvötum enda eru umræddir hvatar helsta tæki stjórnvalda til þess að hafa áhrif á fjárfestingu í nýsköpun sem skilar sér í aukinni verðmætasköpun, hagvexti og meiri framleiðni í hagkerfinu þegar fram í sækir.
Hugverkaiðnaður skýrt skilgreindur
Fyrirtæki í hugverkaiðnaði eiga það sameiginlegt að byggja á fjárfestingu í rannsóknum og þróun og sérhæfðum mannauði. Auðlindin í hugverkaiðnaði er þannig hugverk, mannauður og sérfræðiþekking. Hugverkaiðnaður er síður háður takmörkuðum náttúruauðlindum en aðrar greinar. Þetta skiptir máli því auðlindatakmarkanir hafa þannig ekki áhrif á möguleika greinarinnar til aukinnar verðmætasköpunar í framtíðinni.
Eftir samvinnu við Samtök iðnaðarins hóf Hagstofa Íslands á árinu 2023 að birta tölur um veltu, útflutning og fjölda starfandi í hugverkaiðnaði. Var þetta umtalsvert framfaraskref en í gögnunum mátti í fyrsta sinn finna heildstæða samantekt …








