Aðeins eitt af 50 stærstu fyrirtækjum Íslands getur sýnt fram á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamkomulagið. Þetta er meðal helstu niðurstaðna greiningar Sjálfbærnivísis PwC á losun stærstu fyrirtækja Íslands fyrir árið 2023. Af þeim 50 fyrirtækjum sem metin voru, geta níu sýnt fram á samdrátt í losun frá eigin rekstri og virðiskeðju en 74% fyrirtækjanna greina ekki frá öllum þýðingarmiklum losunarþáttum samkvæmt komandi kröfum.


Á dögunum gaf PwC á Íslandi út Sjálfbærnivísi sem ætlað er að vera árlegt yfirlit yfir árangur sjálfbærnistarfs stærstu fyrirtækja Íslands. Mat á fyrirtækjunum byggir á opinberum upplýsingum, árs- og sjálfbærniskýrslum, og matið er unnið af PwC.
Í Sjálfbærnivísinum er lagt mat á hvort fyrirtæki gefi út loftslagsbókhald byggt á gagnreyndum aðferðum og hvort að fyrirtæki sýni samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins. Sjálfbærnivísirinn byggir á Klimaindeks PwC í Noregi.
Við mat á fyrirtækjunum var einnig horft til komandi krafna um sjálfbærniupplýsingar, CSRD (Corporate Sustainability Reporting Directive), tilskipunar sem tekur gildi á komandi ári. Tilskipuninni fylgja ESRS staðlar (European Sustainability Reporting Standard), sem kveða nánar á um hvað og hvernig skuli upplýsa um sjálfbærni. Einn hlutinn er loftslagsstaðall, ESRS E1, sem mun móta hvernig fyrirtæki greina frá loftslagsaðgerðum sínum og setja fram loftslagsbókhald til framtíðar. Kröfurnar munu líklega taka gildi strax á komandi ári og ná til stórra fyrirtækja. Hvernig eru fyrirtæki í stakk búin og eiga þau langt í land?
Niðurstöður
Greining á skýrslugjöf fyrirtækjanna 50 leiddi í ljós að 41 þeirra setti fram einhvers konar tölur um losun, eða 82%. Þar af setja 35 fyrirtæki, eða 70%, fram loftslagsbókhald sem tekur að minnsta kosti til umfangs 1 sem tekur til beinn áhrifa fyrirtækis og umfangs 2 sem tekur til orkunotkunar.
Af þessum 35 fyrirtækjum setja 34 (68%) einnig fram tölur fyrir umfang 3 sem tekur til losunar í virðiskeðju fyrirtækisins, sjá mynd 3. Við skoðun á eldri skýrslum fyrirtækjanna kom í ljós að árið 2018 var hlutfall fyrirtækja sem birti loftslagsbókhald af einhverju tagi 40% en er nú komið upp í 84%*. Sjá mynd 2.
Upplýsingar um losun í umfangi 3
Samkvæmt Greenhouse Gas Protocol (GHG) og komandi kröfum CSRD eiga fyrirtæki að kortleggja losun í umfangi 1, 2 og alla losun í umfangi 3, þ.e. losun frá öllum mikilvægum losunarþáttum af þeim 15 sem skilgreindir hafa verið, sjá mynd 3. Mismunandi er milli atvinnugreina hvaða þættir teljast þýðingarmiklir í umfangi 3. Til að meta hvort fyrirtækin greini frá öllum þýðingarmiklum losunarþáttum í umfangi 3 er byggt á upplýsingagjöf fyrirtækisins og viðmið PwC fyrir umfang 3, sjá mynd 4.
Samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda hjá níu fyrirtækjum
Greiningin sýndi að aðeins níu af fyrirtækjunum 50 gátu sýnt fram á samdrátt í losun frá eigin rekstri og virðiskeðju sinni. Til að geta sýnt fram á samdrátt í losun þurfa losunartölur að ná yfir alla þýðingarmikla losunarþætti, þar á meðal í umfangi 3. Aðeins fyrirtæki sem greina frá öllum þýðingarmiklum losunarþáttum í umfangi 3 komast í flokk 1 og 2. Einungis eitt af þessum 9 fyrirtækjum gat sýnt fram á losunarsamdrátt síðustu þrjú …








