Vikan hefur markast af merkilegum ræðum á 80 ára afmæli og Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þó eru alvarlegri atburðir í Evrópu sem verður að taka mið af.
Efnahagur Rússlands er farinn að snúast um hernaðarhagkerfi að langmestum hluta og nítjándi pakki viðskiptaþvingana Evrópusambandsins gagnvart þeim er aðeins eitt skref af mörgum. Ungverjaland og Slóvakía munu líklega draga úr kaupum á rússneskri olíu og nýting ávöxtunar frystra rússneskra fjármuna í Belgíu til fjárhagslegs stuðnings Úkraínu mun loks ná fram að ganga ef marka má skrif kanslara Þýskalands í Financial Times í dag.
Rof á lofthelgi og ólögleg flygildi við flughafnir verður að flokka sem árásir á Evrópulönd með beitingu fjölþáttaógna. Rússnesk loftför sem flugu ólöglega yfir Pólland þann 9. september sl. og Rúmeníu þann 13. settu af stað þrýstinginn á viðbrögð Nató. Fyrir viku síðan var rússneskum herþotum vísað úr lofthelgi Eistlands og nú í vikunni hófust truflanir á dönskum flugvöllum fyrst í Kaupmannahöfn en síðar á fjórum flugvöllum á Jótlandi og í gær á flugvellinum fyrir utan Legoland í Billund auk þess sem þeirra varð einnig vart í Osló og Stokkhólmi.
Drónaveggur til varnar Evrópu verður eitt líklegt viðbragð miðað við umræðuna í Brussel þessa vikuna og evrópskir diplómatar segja rússneskum að Nató sé tilbúið að skjóta niður herþotur. Varnarmálaráðherra Þýskalands segir að þó við séum ekki í stríði þá sé ekki friður.
Vert er og að hlusta á viðbrögð fyrrum forsætisráðherra Eistlands, Kaju Kallas, sem nú er utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, í New York í vikunni svo sem í markverðu samtali við Foreign Policy.
Misskilning er víða að finna, svo sem kemur fram í seinni grein blaðs vikunnar varðandi fjármagnstekjuskatt. Þá vaknar spurningin hvort að framlag stjórnarandstöðunnar á tímum sem þessum muni vera málþóf um málefni eins og bókun 35 eða CE merkingar. En áhugaverða lesningu um þær er að finna í forsíðugreinar vikunnar.