
Ásta Fanney Sigurðardóttir hefur nýlega verið valin sem fulltrúi Íslands á Feneyja-tvíæringnum í myndlist, sem er stærsta tækifæri sem íslenskum myndlistarmanni er veitt. En í ár verður Arnhildur Pálmadóttir arkitekt fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr.
Samhliða því að Ásta Fanney vinnur nú að því að undirbúa sýninguna á Ítalíu fyrir næsta vor, sem er heimsins stærsti viðburður á sviði samtímamyndlistar, þá stóð hún á Eldborgarsviðinu í Hörpu í lok janúar með listgjörninginn Glossolalia á Myrkum músíkdögum. Nú í þessum mánuði er hún úti í Malmö með annan gjörning, til að nefna nokkur af þeim mörgu járnum sem hún er með í eldinum.
Verkið Glossolalia var upplifun sem dansaði á mörkum tónlistar, hljóðlistar, skáldskapar, gjörnings og innsetningar en Ásta Fanney er listamaður sem ekki er einfalt að skilgreina enda flakkar hún um á milli sviða. Samkvæmt hefðbundinni flokkun hefur hún gefið út ljóðabækur og er lærð í myndlist.
Við hittum Ástu Fanneyju í stuttu stoppi milli utanlandsferða en hún er á miklu flugi í ferli sínum sem listamaður sem spannar vítt svið. Lykilspurningin sem brennur á vörum ritstjóra fyrir þemablað Vísbendingar um skapandi greinar er um það hvernig nýsköpun eigi sér stað í listinni.
Ég held að við séum aldrei að skapa neitt nýtt, ég held að það sé allt til í heiminum, það er bara hinum megin, í annarri vídd kannski, og við erum að hjálpa því að raungerast í þessum heimi.
En það fer kannski eftir því hvernig maður hugsar um nýsköpun, ertu að tala um nýja vél eða uppfinningu til að hjálpa náttúrunni eða auðvelda manneskjunni eitthvað? Kannski er það að hugsa í lausnum, að hafa þolinmæðina til að velta vandamálinu fyrir sér og skoða allar hliðar, jafnvel skoða sjónarhorn sem er ekki einu sinni hluti af viðfangsefninu.
Þegar við hugsum um nýja sköpun í öðru formi eins og tjáningu þá er það örugglega eitthvað sem tengist því að geta viðurkennt einhvers konar sannleika og fundið honum farveg. Að geta horft á sjálfan sig eða horfst í augu við nýjar eða óþekktar aðstæður. Það er hægt að skilja sköpun á svo margan hátt. Oft er í listum verið að hugsa um samhengi við söguna, að sköpunin sé einhvers konar spegill sem sýnir fólki hvar við erum stödd. Eða þá að listin dregur fram eða bendir á hluti, oft pólitíska hluti til að betra samfélagið en ekkert endilega alltaf. Listin er líka frjáls – um leið og þú setur henni skorður þá er hún komin eitthvert annað.
En ég held að öll sköpun eigi það sameiginlegt að það er einhvers konar opnun í henni, maður er opinn fyrir heiminum, fyrir möguleikum, fyrir samtali, fyrir vulnerability (berskjöldun) líka. Það að geta leyft sér að mistakast og prófa alls konar hluti er svo mikilvægt ásamt því að geta haldið áfram í þrautseigju ef eitthvað er ekki að virka. Þetta er samt svo fyndið af því stundum er eitthvað akkúrat öfugt sem virkar. Þannig verður að passa sig á því að hjakkast ekki í einhverju of mikið svo að það missi allt líf, þá er gott að leyfa því bara að sitja, fara og fá sér kaffi, snúa sér að öðru og geta sleppt hlutunum. Ætli þetta sé ekki þegar öllur er á botninn hvolft eitthvert jafnvægi og hlustun. Oft er nýsköpun einmitt líka hlustun, held ég, maður er að hlera framtíðina.
Nú hefur þú svifið á milli sviða í listheiminum. Þú ert kynnt sem hljóðlistamaður í Vouge tímaritinu og í nýlegu viðtali í tímaritinu Wallpaper* ertu einfaldlega kölluð listamaður, í samtali um Glossolalia viðburðinn þinn í Eldborg í Hörpu í síðasta mánuði. Hvernig er það, viltu skilgreina þig sem einhvers konar tiltekna tegund af listamanni?
Ég er ekkert svo mikið að tengja við skilgreiningar yfir höfuð, ég skil samt alveg af hverju fólk notar þær, til að skilja afstöður og setja hluti í samhengi. En ég er yfirleitt ekkert að stressa mig yfir skilgreiningum. Heldur ætla ég bara að halda áfram að gera alls konar og ekki vera of mikið að pæla í því hvað það kallast. Yfirleitt þegar fólk titlar mig sem eitthvað eða kynnir mig sem eitthvað þá segi ég bara …








