Flest lönd sækjast enn eftir hagvexti, þó hann geti átt sinn þátt í loftslagsbreytingnum – sem verið hafa til umfjöllunar hér undanfarnar tvær vikur. Rétt er að vísa í góða umfjöllun um hagvöxtinn í ljósi nýjustu nóbelsverðlauna, í hlaðvarpi tímaritsins Foreign Policy með sagnfræðiprófessornum Adam Tooze auk þess sem hagfræðiprófessorinn Þorvaldur Gylfason skrifaði um hagvaxtarrannsóknir í sögulegu ljósi vegna Nóbelsverðlaunanna í Vísbendingu fyrir mánuði og fyrir ári síðan.
Hérlendis er hagvöxturinn oft nefndur sem ástæða þess að Ísland eigi ekki heima í Evrópusambandinu og vextir þurfi að vera háir vegna hans. Nú dregur úr hagvexti hér en verðbólga eykst. Gott er að muna að eina langvarandi tímabilið sem verðbólga á Íslandi hefur haldist í markmiði Seðlabankans á þessari öld var þegar að gjaldeyrishöft giltu, í framhaldi af aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna bankahruns og samhliða frosins húsnæðismarkaðar.
Finnski seðlabankastjórinn Olli Rehn segir frá því í nýlegu Odd Lots hlaðvarpi Bloomberg fréttaveitunnar um áskoranir Evrópu að aukinn kostnaður vegna jarðefnaeldsneytis á hátindi orkuverðskrísunnar árið 2022 nam 3% af landframleiðslu Evrópusambandsins þegar hann hækkaði um 500 milljarða evra. Flest lönd heims fundu fyrir verðbólguáhrifum í framhaldi af innrásinni í Úkraínu vegna hækkunar orkuverðs. Hérlendis urðu áhrifin á raforkuverð engin.
Nú um stundir eru evrópsk varnarmálaútgjöld að aukast verulega og jafnvel um 3% landsframleiðslunnar hjá vissum löndum, þó ekki í einu vetfangi en vissulega mishratt. Hagvaxtaráhrifin eru óljós. Hérlendis eru þess háttar útgjöld lítið að aukast.
Álíka 3% útgjaldaaukningu gæti þurft til að bregðast við loftslagsvánni og öðrum umhverfisógnum af hruni líffræðilegs fjölbreytileika og mengun. Í raun ætti það að vera einföld aukning að samþykkja þar sem sú fjárfesting skilar mun meiri arðsemi en hinar. Sú fyrri rann til orkusala en hin síðari fer í útgjöld til að bregðast við hernaðarógninni sem fjármögnuð hefur verið mikið til af orkusölugróðanum.

