
„Við verðum að hræða fólk“ sagði Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, árið 2009 við Hans heitinn Rosling, höfund bókarinnar Factfulness (2018). Gore vildi fá hann til þess að hjálpa sér við að sýna til hvers hlýnun jarðar gæti leitt ef allt færi á versta veg. Rosling var sammála Gore um að bregðast yrði hratt við loftslagsbreytingum, en hann vildi ekki beita ótta í baráttunni. Í bók sinni bendir hann á að hrætt fólk hegði sér ekki alltaf skynsamlega. Hann vildi draga upp sem sannasta mynd af vandanum. Þess vegna vildi hann ekki sýna verstu hugsanlegu áhrif loftslagsbreytinga án þess að sýna um leið það sem væri líklegast og það sem gæti í besta falli gerst. Ýkjur yrðu bara til þess að menn hættu að hlusta.
Markmið Parísarsamkomulagsins frá 2015 eru að halda hlýnun jarðar frá upphafi iðnbyltingar „vel undir 2°C“ og leita leiða til þess að halda hlýnuninni undir 1,5 gráðum. Margir telja markmiðin óraunhæf. Nú þegar hefur meðalhiti hækkað um ríflega 1°C á rúmum tvö hundruð árum. William Nordhaus, sem fékk Nóbelsverðlaun í hagfræði fyrir rannsóknir sínar á loftslagsmálum 2018, telur líklegt að heimsframleiðsla dragist saman um 1-5% ef hitastig á jörðinni hækkar um 3°C frá því um 1800.
Ef aðgerðir í loftslagsmálum eiga að bera árangur er best að sem flestir taki þátt í þeim. Hér um bil öll ríki heims eiga aðild að Parísarsamkomulaginu, en nú hafa Bandaríkjamenn sem kunnugt er sagt sig frá því. Fleiri þjóðir hugsa sinn gang í framhaldi af því. Losun gróðurhúsalofts eykst með hverju ári og alltaf fréttist af nýjum hitametum. Rætt er um stóráföll sem gætu fylgt í framhaldinu. Metan gæti losnað úr freðmýrum í Síberíu og hægst gæti á Golfstraumnum. Ekki eru samt allar fréttir af þessum málum slæmar. Margir vilja gera sem mest úr hættunni af loftslagsbreytingum, en minna er talað um það sem þó þokast í rétta átt.
Loftslagsaðgerðir bera árangur
Draga fór úr losun gróðurhúsalofts á mann á Vesturlöndum löngu áður en áhyggjur af hlýnun jarðar tóku að hafa áhrif á stefnu stjórnvalda þar. Upp úr miðri 20. öld fóru Bretar og fleiri Vestur-Evrópumenn að nota olíu í stað kola. Við það minnkaði losunin þó nokkuð. Olía hækkaði mikið í verði árin 1973 og 1974 og aftur 1979-1980. Í kjölfarið fóru menn að einangra hús sín betur, bílar urðu sparneytnari og ný heimilistæki þurftu minna rafmagn en eldri tæki. Árið 1979 náði losun gróðurhúsalofts á mann hámarki víða á Vesturlöndum. Í Bretlandi hefur losun á mannsbarn skroppið saman um meira en helming síðan þá og í Þýskalandi og Bandaríkjunum hefur hún minnkað um þriðjung. Að hluta til má skýra þetta með því að framleiðsla hefur færst til Asíu, en það skýrir ekki nærri alla breytinguna.








