„Við verðum að hræða fólk“ sagði Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, árið 2009 við Hans heitinn Rosling, höfund bókarinnar Factfulness (2018). Gore vildi fá hann til þess að hjálpa sér við að sýna til hvers hlýnun jarðar gæti leitt ef allt færi á versta veg. Rosling var sammála Gore um að bregðast yrði hratt við loftslagsbreytingum, en hann vildi ekki beita ótta í baráttunni. Í bók sinni bendir hann á að hrætt fólk hegði sér ekki alltaf skynsamlega. Hann vildi draga upp sem sannasta mynd af vandanum. Þess vegna vildi hann ekki sýna verstu hugsanlegu áhrif loftslagsbreytinga án þess að sýna um leið það sem væri líklegast og það sem gæti í besta falli gerst. Ýkjur yrðu bara til þess að menn hættu að hlusta.
Markmið Parísarsamkomulagsins frá 2015 eru að halda hlýnun jarðar frá upphafi iðnbyltingar „vel undir 2°C“ og leita leiða til þess að halda hlýnuninni undir 1,5 gráðum. Margir telja markmiðin óraunhæf. Nú þegar hefur meðalhiti hækkað um ríflega 1°C á rúmum tvö hundruð árum. William Nordhaus, sem fékk Nóbelsverðlaun í hagfræði fyrir rannsóknir sínar á loftslagsmálum 2018, telur líklegt að heimsframleiðsla dragist saman um 1-5% ef hitastig á jörðinni hækkar um 3°C frá því um 1800.

