
Sjöttu grein Parísarsáttmálans mætti kalla greinina um kolefnismarkað, eða kolefnisyfirfærslur. Hún fjallar um samvinnu milli ríkja í að ná skuldbindingum samningsins. Í greininni er kveðið á um að samningsríkin skuli útbúa vettvang sem heldur utan um samvinnuverkefnin og gæti að því að markmið samvinnunnar séu:
a) Að draga úr losun og stuðla að sjálfbærri þróun.
b) Að hvetja til og einfalda þátttöku ríkja og einkaaðila í samvinnuverkefnum sem draga úr losun.
c) Að ríki sem hýsa samdráttar- og bindingarverkefni hljóti ágóða af.
d) Að lokaútkoman verði alltaf samdráttur í losun á hnattræna vísu.
Í samningnum kemur skýrt fram að ákvæðið skuli ekki misnota með tvítalningu á samdrætti. (United Nations Treaty Collection, 2015)
Yin og yang
Þegar kemur að umræðunni um loftslagsmál og aðgerðir nútíðar og framtíðar sjást tveir grófflokkaðir hópar. Hóparnir skarast og örlítið af hvorum eru í hinum, eins og yin og yang. Annars vegar eru það þau sem sjá tækifæri í stöðunni og horfa jafnvel með glampa í augum til sjöttu greinarinnar og tala um tækifæri til að græða á bindingarverkefnum. Hins vegar eru það þau sem fyllast vonleysi við umræður um kolefniseiningar og mæta til dæmis á COP með skilti þar sem varað er við því að reyna að leysa loftslagsvandann með bókhaldsbrellum.
Fyrir þau sem ekki hafa sökkt sér ofan í málið er erfitt að átta sig á því hvernig greinin virkar og hvort hún skili tilætluðum árangri. Fyrirbærinu þyrfti ef til vill að finna betra nafn því „grein sex“ er ekki mjög lýsandi hugtak.
Nýjustu vendingar
Á COP29 í Aserbaídsjan í fyrra náðist saman um skipulag markaða fyrir einingar innan greinarinnar. Innan hennar eru tveir mismunandi markaðir:
6.2; Tvíhliða samningar milli tveggja ríkja sem vinna sameiginlega að því að ná markmiðum sinna landsframlaga til að færa kolefniseiningar sín á milli.
6.4; Opinn markaður milli allra ríkja sem vilja kaupa og selja kolefniseiningar. Miðlægur vettvangur á sviði Sameinuðu þjóðanna hefur umsjón með markaðnum. (Granziera et al., 2025).
Götóttur sokkur
Samtök sem gefa sig út fyrir að vakta kolefnismarkaði (Carbon Market Watch) hafa rýnt í stöðuna eftir að samstaða náðist um formsatriði á COP29 í Aserbaídjan í fyrra. Þau benda á nokkra hluti sem vel eru gerðir og nokkuð marga sem valda því að vettvangurinn er ólíklegri til að stuðla að markmiðum sínum og þá sérstaklega undir grein 6.2.
Þar er tvítalning einn af stærstu áhættuþáttunum. Þá geta lönd nýtt sér meðaltalsreglu eða „averaging approach“ til þess að komast hjá því að þurfa að draga alla bindingu sem þau selja frá sér, frá eigin bókhaldi. Að auki geta ríki í rauninni hætt við að selja einingar eftir að hafa talið þær til samdráttar hjá einstökum fyrirtækjum og talið einnig í sínu bókhaldi. Svipaða sögu er að segja um grein 6.4 en þar má þó finna fleiri varnagla.
Skýrslan metur sem svo að hætta á tvítalningu sé raunveruleg og meta áhættustýringuna ófullnægjandi undir báðum greinum. En undir grein 6.2 er áhættustýring annara óvissuþátta léleg eða mjög léleg, á meðan hún er að mestu ásættanleg en aðeins í miðlungs gæðum undir grein 6.4. Áhættuþættina má skoða á mynd hér fyrir ofan en sérstaklega áhugasamir geta gluggað í skýrsluna.
Er hægt að staga í gatið?
Ríki í viðskiptum með kolefniseiningar verða að vera meðvituð um þessar glufur í regluverkinu og verða að krejast þess að viðskipti þeirra með kolefniseiningar séu gagnsæ og að þessar glufur verði ekki nýttar. En svoleiðis fyrirkomulag er auðvitað ekki viðunandi ástand til lengdar.
Næsta tækifæri til þess að stoppa í þennan sokk verður ekki fyrr en á COP33 sem haldið verður síðla árs 2028. Þá verður gengið frá rammanum utan um viðskiptin svo þau verði sem áreiðanlegust árið 2030 þegar mest mun reyna á. Árið 2030 munu mörg ríki þurfa að kaupa samdrátt eða bindingu til þess að ná þeim markmiðum sem þau hafa sett sér, með svokölluðum NDC (e. Nationally Determined Contributions), eða sjálsfákvörðuðum landsframlögum ríkja til Parísarsamningsins (The Paris Agreement, UNFCCC, n.d.). Noregur, Sviss, Svíþjóð og Japan hafa til að mynda kynnt magntölur um hvað þau ætla sér að kaupa mikið af kolefniseiningum til að ná markmiðum sínum (Granziera et al., 2025). Miðað við yfirlýsingar frá núverandi ráðherra málaflokksins á Íslandi og Umhverfisstofnun, mun Ísland ekki ná markmiðum sínum fyrir árið 2030. Ekki liggur fyrir hvernig eða hvaðan Ísland hyggst kaupa kolefniseiningar til að ná markmiðunum.
Tækifæri fyrir Ísland?
Þá komum við að spurningunni hvort að við getum ekki grætt eitthvað á þessu kerfi. Sú spurning snýr ekki að því hvort Ísland ætli …








