
Snemma í október 2018 afturkallaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála leyfi tveggja fyrirtækja til þess að rækta frjóan lax í opnum kvíum í Tálknafirði og Patreksfirði. Nefndin taldi að skoða þyrfti betur aðra kosti, svo sem lokaðar kvíar, ófrjóan lax og landeldi. Lax sem alinn er í sjó hér við land er af norskum stofni og náttúruverndarsamtök og veiðiréttarhafar vilja ekki að hann blandist staðbundnum laxi, sem hefur lagast að aðstæðum á löngum tíma. Með vaxandi eldi og hlýnandi sjó hefur líka orðið vart við laxalús á nokkrum svæðum á Vestfjörðum. En stjórnmálamenn vildu ekki láta málið tefjast meðan aðrir kostir væru skoðaðir. Fimm dögum eftir að úrskurðarnefnd auðlindamála felldi úrskurð sinn samþykkti Alþingi lög sem leyfðu ráðherra að gefa út bráðabirgðaleyfi fyrir eldi eftir að það hefði verið fellt úr gildi ,,enda mæli ríkar ástæður með því“. Nokkrir þingmenn gerðu athugasemdir við hraðann á málinu en enginn treysti sér til þess að standa gegn því. Lögin voru samþykkt mótatkvæðalaust, en nokkrir þingmenn sátu hjá og aðrir voru fjarverandi. Í nóvember veitti umhverfis- og auðlindaráðherra síðan bráðabirgðaleyfi fyrir sjóeldi í opnum kvíum í Tálknafirði og Patreksfirði í samræmi við hin nýju lög. Málsmeðferðin var kærð til Eftirlitsstofnunar EFTA og í desember 2021 birti stofnunin formlega áminningu til íslenskra stjórnvalda. Þar kom fram að lagabreytingin frá 2018 bryti í bága við evróputilskipun um mat á umhverfisáhrifum og að íslensk stjórnvöld hefðu brugðist þeirri skyldu sinni að bæta úr því. Meðal annars var fundið að því að ekki mætti kæra útgáfu bráðabirgðaleyfa til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. Bent er á að umhverfisvernd sé eitt af meginmarkmiðum samnings um evrópskt efnahagssvæði. Laga verði íslensk lög að tilskipuninni og tryggja að gildu umhverfismati sé lokið áður en leyfi sé veitt fyrir sjóeldi.
Fólki fækkaði hratt á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði á fyrstu árum aldarinnar. Einkum var það fólk á aldrinum frá tvítugu til fertugs sem flutti á brott. En höfuðborgarsvæðið freistaði síður eftir að bankarnir hrundu og nokkur undanfarin ár hefur íbúum fjölgað á sunnanverðum Vestfjörðum. Uppbygging sjóeldis ræður sennilega mestu um það. Skoða verður ákvarðanir alþingismanna haustið 2018 í því ljósi. Löng reynsla sýnir að bæði almenningur og stjórnvöld vilja gera margt til þess að verja veik byggðarlög. Hitt er annað mál hvort sjóeldi á laxi hefur það aðdráttarafl sem vonast var til. Íbúatölur frá svæðinu, sem rýnt er í hér á eftir, leiða ýmislegt fróðlegt í ljós.
Sjóeldi á laxi vegur ekki þungt í hagtölum fyrir landið allt…
Um þessar mundir ala fimm fyrirtæki lax í sjó hér við land. Eitt er í eigu Íslendinga, en norsk félög eiga hin. Rúmur helmingur eldisins er á Vestfjörðum, aðallega suðurfjörðunum, en auk þess er það stundað á sunnanverðum Austfjörðum. Ráða má af reikningum móðurfélags austfirsku félaganna að leyfi sem gefin hafa verið út til laxeldis í sjó hér við land séu samtals nálægt 100 milljarða króna virði. Fyrirtækin hafa ekki borgað íslenskum stjórnvöldum fyrir leyfin. Þau borga skatta og gjöld eins og önnur fyrirtæki hér á landi en auk þess greiða þau í sjóði sem styðja við uppbyggingu innviða og rannsóknir á sjóeldi og áhrifum þess. Ráðgert er að innviðagjaldið hækki á komandi árum.
Þó að sjóeldi á laxi hafi vaxið hratt á nýliðnum árum vegur það ekki þungt í íslensku atvinnulífi. Þáttatekjur í greininni voru 0,3% af tekjum í atvinnulífinu öllu árið 2022, en hlutur alls fiskeldis var þá hálft prósent. Þáttatekjur eru summa rekstrarafgangs, afskrifta og launa og tengdra gjalda. Hlutdeild sjóeldis á laxi í atvinnu er heldur minni, eða um 0,2%. Árið 2022 voru 330 ársverk unnin í sjóeldisfyrirtækjunum fimm, samkvæmt ársreikningum þeirra. Hér eru talin störf í seiðaeldi á landi og fiskvinnslu annars staðar en á Austurlandi. Auk þess er algengt að fiskeldisfyrirtæki ráði verktaka, en þeir eru ekki með í þessari tölu. Árið 2022 var lax 2,5% af útflutningi Íslendinga á vörum og þjónustu.
…en skiptir miklu máli í vestfirsku atvinnulífi
Miklu meira munar um sjóeldið á Vestfjörðum en í tölum fyrir landið allt. Á árunum 2012 til 2019 skýrði það um það bil 5% hagvöxt í þessum landshluta, en samtals var hagvöxtur þar 25% á þessum árum. Umsvifin hafa vaxið hratt fram á síðustu ár. Ætla má að árið 2022 hafi 160 ársverk verið í sjóeldisfyrirtækjum á Vestfjörðum. Það eru ríflega 4½% ársverka þar. Auk þess tengjast störf í öðrum atvinnugreinum eldinu. Þyngst vegur það í atvinnulífi á sunnanverðum Vestfjörðum. Gera má ráð fyrir að …








