
Við Íslendingar búum við margvísleg forréttindi sem skapa okkur lífsgæði umfram meginþorra fólks í heiminum. Lífsgæði okkar felast m.a. í fjölbreyttum tækifærum til að byggja upp starfsvettvang og frístundir að eigin vali, eða með öðrum orðum að vera það sem við elskum.
Fjölbreytt, lítt snortin, aðgengileg náttúra og ríkur menningararfur er það sem dregur flesta ferðamenn til landsins. Aðdráttarafl íslenskrar náttúru, menningar og sögu í augum ferðamanna frá öllum heimshornum felur í sér fjölþætt tækifæri til nýsköpunar og til að skapa eigin viðskiptatækifæri og atvinnu.
Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem hefur vaxið hraðast hérlendis undanfarin ár og er nú svo komið að greinin er ein af meginstoðum íslensks efnahagslífs og mikilvæg forsenda fyrir þeim lífsgæðum sem okkur sem hér búum þykja sjálfsögð og eðlileg. Fjöldi þeirra sem hafa atvinnu af ferðaþjónustu hefur aukist verulega undanfarin ár en í júlí sl. störfuðu um 35.000 manns við greinina samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Spár gera ráð fyrir áframhaldandi fjölgun fólks starfandi í ferðaþjónustu á komandi árum og mikilli nýsköpun og þróun innan greinarinnar. Á það bæði við um nýsköpun þar sem tækni kemur við sögu en einnig margvíslega þróun upplifunar óháð tækni. Stjórnvöld boða auk þess sókn í ferðamálum með stefnumótun til ársins 2030 og aðgerðaáætlun sem segir til um hvaða aðgerða sé þörf til að stefnan raungerist.
Tækifæri
Í nútíð og framtíð liggja tækifæri fólks og atvinnugreinarinnar fyrst og fremst í þeim auðlindum sem til staðar eru. Auðlindir ferðaþjónustu felast gjarnan í þáttum sem okkur heimamönnum þykja hversdagslegir og venjulegir og sem við sjáum ekki sem eitthvað mikilvægt eða sérstætt. En glöggt er gests augað eins og máltækið segir og því er það þannig að í augum ferðamanna felst aðdráttarafl í mörgu af því sem okkur heimafólki þykir lítt merkilegt. Því er svo mikilvægt við þróun ferðaþjónustu að líta í kringum okkur með augum gestsins. Meðal þess sem okkur heimamönnum þykir e.t.v. lítt spennandi en hefur aðdráttarafl fyrir ákveðna markhópa ferðamanna eru t.d. myrkur, kuldi og snjór.
Í gegnum tíðina hafa auðlindir ferðaþjónustunnar verið kortlagðar og rýndar af Ferðamálastofu, fræðimönnum og fleirum. Slík greining á auðlindum verður þó aldrei tæmandi og ógerlegt að vita hvað getur orðið uppspretta nýrra upplifana eða tækifæra í komandi framtíð. Þannig er það í raun okkar eigið hugmyndaflug sem er helst takmarkandi þátturinn þegar kemur að nýsköpun og vöruþróun í ferðaþjónustu.
Sjálfbærni
Við alla uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu er mikilvægt að hafa sjálfbærni að leiðarljósi og gæta þess að unnið sé af ábyrgð að allri þeirri uppbyggingu sem á sér stað. Á þetta er lögð áhersla í ferðamálastefnu stjórnvalda til ársins 2030 þar sem stefnt er að því að Ísland verði leiðandi í sjálfbærri þróun á sviði ferðamála. Áhersla er á efnahagslega, umhverfislega og félagslega sjálfbærni í öllum þáttum sem lúta að ferðaþjónustu.
Forsenda sjálfbærrar þróunar ferðaþjónustu og ábyrgrar nýtingar auðlinda er þekking og færni starfsfólks í greininni. Þrátt fyrir þróun tæknilausna, er hæft starfsfólk á öllum stigum algjör forsenda þess að skapa upplifun og veita gestum góða þjónustu með ábyrgum hætti. Vinnuafl í ferðaþjónustu hérlendis er alþjóðlegt og greinin nýtur starfskrafta bæði Íslendinga og fólks víða annars staðar að …








