
Árið 1987 birti heimspekingurinn Mikael Karlsson stutta grein í Vísbendingu, sem hann nefndi „Um hlutverk nytjaheimspeki í viðskiptum og öðrum atvinnugreinum“.
Kenningar, aðstæður og ígrundun
Í öðru lagi er viðhorf sem kalla mætti aðstæðubundið, því að þar beinist athyglin að staðbundnum viðmiðum, þ.e. í ljósi þeirra hefða, starfsvenja og siðareglna sem mótast hafa í glímu fólks við viðfangsefnin á viðkomandi starfsvettvangi. Þetta heitir að nálgast úrlausnarefnið „neðan frá“ (e. bottom-up approach). Augljóslega þekkir starfsfólkið sjálft best slík viðmið og þarf enga „utanaðkomandi sérfræðinga“ til að leysa siðferðileg vandamál. Þetta ræðir Mikael skemmtilega út frá skopmynd úr bandarísku tímariti. „Hún sýnir hóp áhyggjufullra viðskiptajöfra umhverfis fundarborð. Einn þeirra er að ræða við ritara sinn um kallkerfið: „Frú Dúgan“, segir hann, „viltu gjöra svo vel að senda inn einhvern sem þekkir muninn á réttu og röngu“.“ Þarna er siðferðilegu viðfangsefni ruglað saman við tæknilegt verkefni, líkt og þegar pípari er fenginn til að losa stíflu úr niðurfalli.
Aðstæðubundna viðhorfið fellur ekki í þessa gryfju því að þar er lögð áhersla á siðvit þeirra sem hafa reynslu af viðfangsefninu. Vandi þessa viðhorfs er fremur fólginn í því að njörva sig niður við hið staðbundna og hefðbunda sem oft endurspegla yfirráð og ójöfnuð sem eru gagnrýniverð. Það er alþekkt að siðferðilegar framfarir á starfssviðum verða vegna utanaðkomandi áhrifa sem mæta oft viðnámi innanfrá. Skýr dæmi eru úr heilbrigðisþjónustu þar sem hefðbundin forræðishyggja lét undan síga vegna menningarstrauma á sjöunda áratug síðustu aldar þegar hugmyndir um aukið sjálfræði fólks ruddu sér til rúms.
Þetta tengist þriðja viðhorfinu til þess hvernig haga skuli hagnýttri heimspekilegri greiningu. Hana mætti kenna við ígrundað mat því að þar er lagt mat á starfshætti og stöðubundin viðmið útfrá almennum siðaboðum. Einnig er mat lagt á samræmið milli yfirlýstra viðmiða og raunverulegra starfshátta. Þetta er stundum kennt við innri gagnrýni, því að spurt er hvort starfsemi á tilteknu sviði standi við þau loforð sem felast í opinberum yfirlýsingum á borð við skráðar siðareglur. Í skráðum siðareglum felst yfirlýsing til almennings um þær skyldur og þá ábyrgð sem fylgja því að gegna ákveðnu starfi og þar með viðmið fyrir mat á því hvernig til tekst með þær skuldbindingar. Margar fagstéttir hafa mótað hugmyndir um góða starfshætti og í fagmennskuhugtakinu sjálfu felast mikilvæg siðferðileg viðmið.
Gagnrýnin greining á siðferði og starfsháttum sem byggir á slíku ígrunduðu mati þarf ekki að vísa í siðfræðikenningar, þótt þær skipti máli fyrir skilning á þeim hugtökum sem notuð eru í greiningunni. Það er heldur ekki gagnlegt í samræðu við fólk á starfsvettvangi að nálgast hagnýt úrlausnarefni „að ofan“ frá háfleygum kenningum, byrja á að tala um hvað Immanuel Kant eða John Stuart Mill hafi til málanna að leggja. Mikilvægt er að skírskota til hugmynda sem hafa skýra tengingu við viðkomandi starfssvið. Ákjósanlegt er að hugmyndirnar feli í sér leiðarljós fyrir góða starfshætti. Einnig er gagnlegt að vísa í viðteknar hugmyndir um heiðarleika og sanngirni sem allir kannast við úr …








