Í þessari grein eru ferðamálin og gestakomur skoðuð út frá þeirri samfélagsþróun sem við sjáum eiga sér stað fyrir augum okkar nú. Það er mikilvægt að við horfum á ferðamálin sem hluta okkar samfélags. Við erum jú öll ferðafólk alltaf, í einum eða öðrum skilningi. Þar að auki er erfitt að draga einhver skýr mörk utan um hver er gestur; hvar og hvenær. Í stað slíkra æfinga er kannski betra að horfa á heildarmyndina og þessi grein er innlegg í það.
Þegar kemur að þróun okkar samfélags og stöðu mála í dag, má með sanni segja að aldrei höfum við haft það jafngott, og aldrei hefur fólk almennt búið við meiri auðlegð og öryggi en nú. Engu að síður kraumar óánægja og reiði sem ég tel að eigi sér um margt réttmætar ástæður. Þrátt fyrir velmegun og ríkidæmi hafa stöðugt færri raunverulega stjórn á eigin lífi eða ráða að fullu eigin örlögum. Hér er ég ekki að tala um náttúruöflin, sem vissulega geta umbylt öllu á augabragði fyrir hvern sem er. Ég er hér að tala um samfélagið sem er rekið sífellt meira í öngstræti stýringar á öllu mögulegu og ómögulegu samhliða öfga-markaðshyggju. Saman, og að því er virðist á þversagnarkenndan hátt, þrengja þessir þættir gríðarlega úrval möguleika þegar kemur að þróun samfélagsins og hvernig við umgöngumst hvert annað og gesti okkar. Undanfarna áratugi hefur okkur nefnilega verið seld sú hugmynd að allt sé mælanlegt og seljanlegt. Þannig er fólk orðið mannauður, ferðafólk gjaldeyrir, vistkerfi veita okkur þjónustu, gen okkar …