
Einstæðir viðburðir halda áfram að hrannast upp í hverri viku í upphafi ársins. Miklar þverstæður birtast í mynd okkar af heiminum. Nánasta nágrannalandið Grænland er dag eftir dag á forsíðum Financial Times.
Flestum er orðin ljós sú staðreynd að breytt skipan heimsins raðast nú upp og orðið er skýrt að sú gamla heimsmynd sem við höfðum hvarf. Það hvernig Íslandi tekst að breytast eða laga sig að stöðunni í heiminum er samt álíka óljóst nú og fyrir ári, þegar Trump tók við að nýju og hugmyndin um að virða alþjóðasamninga snerist á hvolf.
Það heimshagkerfi frjálsra viðskipta sem við höfum lifað við allt okkar líf er ekki lengur til. Því er einkennilegt að hlusta á íslenska stjórnmálamenn, núverandi og fyrrverandi, halda stöðugt áfram að útskýra fyrir okkur hvernig leiðtogar evrópskra bandalagsþjóða hafi allir rangt fyrir sér varðandi áhyggjur af ógnum úr vestri.
Storminn í heimshagkerfinu vegna ógnartilburða, hótana og viðskiptahernaðar bandaríska forsetans gæti þó lægt vegna viðbragða fjármálamarkaða. Grænland kemur við sögu beint eða óbeint í mörgum pistlum frá og ræðum á World Economic Forum ráðstefnunni í Davos. Sú merkasta er ræða Mark Carney forsætisráðherra Kanada sem fer á spjöld sögunnar. Hann vísar þar í fræga ritgerð eftir Václav Havel bæði í upphafi og niðurlagi. Rétt er að mæla með áhorfi og lestri.
Merkilega lítið fer fyrir umfjöllun um Kanada í íslenskum miðlum. Indland er annar blindur blettur í umræðunni en grein um stöðu þess birtist í Vísbendingu vikunnar. Hin grein blaðsins fjallar um húsnæðismarkaðinn í framhaldi af forsíðugrein síðustu viku.
Loks er rétt að benda á aðgengilega upptöku af kynningarfundi forsætisráðherra um atvinnustefnu í alþjóðlegu samhengi í síðustu viku þar sem framsækni frumkvöðls hagfræðingurinn Mariana Mazzucato hélt lykilfyrirlestur. Hún skrifar einnig góða grein í tilefni af Davos ráðstefnunni í Project Syndicate nú í vikunni.







