
Stjórnvöld standa nú frammi fyrir þeim vanda hvernig á að taka á fjárhagshlið náttúruhamfaranna í Grindavík. Í Grindavík bjuggu um 3.600 manns áður en hamfarirnar byrjuðu sem er tæplega 1% landsmanna. Vísindamenn hafa sagt að ekki sé öruggt að búa í bænum og óvíst hvenær svo verði. Jafnframt er víst að mörgum íbúum getur varla liðið vel þegar jarðaskjálftar verða með reglulegu millibili, sprungur gera líf í bænum hættulegt og eldgos eru yfirvofandi. Hamfarirnar hafa þannig valdið tjóni fyrir hagkerfið sem metið hefur verið á 107 milljarða samkvæmt mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og er þá bæði íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði meðtalið auk húsnæðis sem stofnanir notast við
Um tryggingar
Einstaklingar geta tryggt eignir sínar fyrir tjóni með því að greiða iðgjald til tryggingafélaga. Í þessu fyrirkomulagi felst samtrygging þannig að á ári hverju greiða flestir meira til félaganna en þeir fá greitt í bætur á meðan sumir fá meira greitt út en sem nemur iðgjöldum þegar þeir verða fyrir tjóni. Að baki liggur lögmál stórra talna. Tryggingafélögin geta með nokkurri vissu spáð fyrir um upphæð tjóns á hverju ári og ákveðið iðgjöld í samræmi við það. En tryggingafélög geta ekki tryggt okkur fyrir náttúrhamförum vegna þess að þær gerast sjaldan og geta haft áhrif á fjölda fólks og því ekki hægt að reikna væntanlegt tjón.
Það er hluti af okkar óformlega samfélagssáttmála að við tryggjum íbúa landsins fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara með aðkomu hins opinbera. Ríkið rekur Náttúruhamfaratryggingu Íslands í þessum tilgangi. En stofnunin leysir ekki íbúa Grindavíkur frá því að hafa eigur sínar bundnar í húsnæði sem ekki er hægt að nota eða sem fólk vill ekki nota vegna viðvarandi hættuástands. Það er því nauðsynlegt að grípa til annarra aðgerða til þess að íbúar bæjarins geti komið sér fyrir annars staðar.
Í fjármálakreppum kemur hið opinbera oft bönkum sem hafa tapað útlánum til bjargar með því að kaupa þá að hluta eða að öllu leyti. Þá fær bankinn fjármagn en ríkið eignarhald á bankanum, þ.e.a.s. á hinum slæmu eignum bankans. Líkja má hlutskipti Grindvíkinga við hlutskipti banka sem hefur orðið fyrir tjóni og viðbrögðin geta verið svipuð. Í stað útlánataps er fasteignatap, í stað banka þá eru fjölskyldur. Ímyndum okkur að bæjarfélagið Grindavík sé fjárfestingasjóður sem eigi allt húsnæði í bænum og íbúarnir séu svo hluthafar í sjóðnum. Nú tapar húsnæðið verðmæti sínu og sjóðurinn er þá með neikvætt eigið fé. Ríkið getur þá komið og látið sjóðinn fá fjármagn, í raun keypt út hinar ónýtu fasteignir.
Það ætti því að bjóða íbúum Grindavíkur að selja ríkinu eignir sínar á verði sem væri á milli fasteigna- og brúnabótamats. Æskilegt væri að ríkið stofnaði sjóð sem hefði sjálfstæða stjórn og fengi úthlutað fjármagni til þess að kaupa fasteignir í Grindavík. Stjórn sjóðsins bæri svo ábyrgð á þessum eignum og ef þær verða einhvers virði þegar ósköpin hafa gengið yfir þá myndi sjóðurinn selja eignirnar og hefðu fyrri eigendur forkaupsrétt. Sjóðurinn myndi einnig kaupa útstandandi húsnæðislán af bönkum og lífeyrissjóðum.
Það er alls óvíst að allir íbúarnir vildu selja húsnæði sitt strax. Kannski vilja sumir bíða og sjá hverju fram vindur á meðan aðrir vilja óþreyjufullir hefja búsetu á öruggari stað.
Það væri ekki rétt að hækka skatta um 100 milljarða eða skera niður önnur útgjöld ríkisins um sömu upphæð
Um fjármögnun
Nú komum við að einni af meginreglunum í hagfræði. Hún segir okkur að þegar tjón verður, t.d. vegna náttúruhamfara eða styrjalda, þá eiga stjórnvöld að dreifa byrðunum yfir tíma, ekki láta samfélagið taka allt höggið á meðan það ríður yfir. Nú hefur …








