Nýlega kom út skýrsla á vegum forsætisráðuneytisins um íslenska embættismannakerfið í alþjóðlegum samanburði. Skýrslan ber yfirskriftina Kjölfesta í hringiðu lýðræðisins og byggir á umfangsmikilli rannsókn sem stóð yfir í tvö og hálft ár. Þar er farið yfir sögu og þróun íslenska embættismannakerfisins. En hvað er embættismannakerfi? Í stuttu máli, er embættismannakerfi þjóðríkja það fyrirkomulag sem stjórnvöld hafa ákveðið að skuli gilda um stöður, hlutverk, ráðningar og ákvarðanir um starfslok starfsfólks í æðstu stöðum stjórnkerfisins, starfsfólks sem starfar daglega í mestri nálægð við ráðherra.
Tvennt er mikilvægt að hafa í huga við lestur skýrslunnar þegar íslenska embættismannakerfið er skoðað í alþjóðlegum samanburði. Í fyrsta lagi, hvers ber að gæta þegar kerfi annarra ríkja eru skoðuð í þeim tilgangi að draga af þeim lærdóma fyrir okkar eigið embættismannakerfi. Í öðru lagi, í vestrænum lýðræðisríkjum eru í megindráttum til tvenns konar embættismannakerfi; fagleg embættismannakerfi og pólitísk embættismannakerfi.
Þegar skipulag embættismannakerfa landa er skoðað þá blasir við okkur fyrirkomulag sem er niðurstaða af ákveðnu sögulegu og pólitísku ferli. Sú niðurstaða sýnir hvernig stjórnvöld á hverjum tíma brugðust við staðbundnum vandamálum eða leituðust við að ná tilteknum markmiðum. Pólitískt og stjórnsýslulegt samhengi breytinga sem gerðar voru skiptir máli, tildrög þeirra og hvað breytingarnar áttu að leysa. Þá fyrst er hægt að draga ályktanir um það hvaða hugmyndir megi yfirfæra frá einu landi til annars og þá hvernig.
Tvær tegundir embættismannakerfa
Eins og fyrr segir þá eru almennt tvær tegundir embættismannakerfa ríkjandi í vestrænum lýðræðisríkjum; faglegt embættismannakerfi og pólitískt embættismannakerfi. Eitt af því sem aðgreinir …

