Í nýrri könnun Visku kemur fram að sérfræðingar keyra gervigreindarbyltinguna áfram, fjármagna notkunina sjálfir og kalla eftir markvissri innleiðingu á vinnustöðum.
Í nóvember síðastliðnum kynnti Viska, stærsta stéttarfélag háskólamenntaðra sérfræðinga á Íslandi, könnun meðal tæplega 6.000 sérfræðinga um notkun gervigreindar á vinnumarkaði. Niðurstöðurnar eru um margt sláandi; um 80% sérfræðinga á vinnumarkaði nota gervigreind í starfi og um 70% segja hana auðvelda störf og auka afköst. Tæplega 70% þeirra sem nota gervigreind í starfi nota eigin aðgang með tilheyrandi kostnaði og aukinni áhættu fyrir stofnanir og fyrirtæki. Gervigreindarbyltingin á Íslandi er hafin, kostuð af sérfræðingum en hagnýtt af fyrirtækjum sem eru tortryggin og ómarkviss í innleiðingu gervigreindar.
Um 80% nota gervigreind í starfi og 66% gegnum eigin aðgang
Átta af hverjum tíu sérfræðingum á vinnumarkaði nota gervigreind í starfi og staðan er nokkuð jöfn eftir mörkuðum. Athygli vekur að um helmingur aðspurðra notar gervigreindina í starfi oft í viku, þar af 27% daglega. Ekki virðist marktækur munur milli markaða.
Þegar spurt var um eðli notkunarinnar kemur í ljós að 66% nota eigin gervigreindaraðgang í starfi að hluta eða öllu leyti, þar af um 50% alfarið. Kostnaðarbyrði sérfræðinga af gervigreindinni er áberandi meiri á opinbera markaðnum en hinum almenna.
Séu niðurstöðurnar heimfærðar á allan vinnumarkað má gróflega áætla að um 37.000 sérfræðingar á íslenskum vinnumarkaði noti gervigreind í starfi sem þau greiða fyrir sjálf eða frían aðgang. Byggt á verðskrá þeirrar lausnar sem flestir nota skv. könnuninni, ChatGPT, kosta leyfi fyrir slíkan fjölda rúmlega einn milljarð króna árlega. Milljarður í kostnað er borinn af sérfræðingum en ábatinn fellur enn sem komið er í skaut fyrirtækja. Slík kostnaðarbyrði væri óhugsandi þegar kemur að öðrum framleiðsluþáttum í rekstri fyrirtækja.
67% segir gervigreindina auka afköst og 57% vill auka notkun hennar
Könnun Visku sýnir ekki bara fram á mikla notkun gervigreindar í núinu, heldur skýr merki um áframhaldandi vöxt. 57% sérfræðinga vilja auka notkun gervigreindar í starfi og 67% telja hana auka afköst í starfi. Aftur virðist ekki vera marktækur munur eftir mörkuðum þegar kemur að áhuga á gervigreindinni og áhrifum á afköst.
Um 70% hafa mikinn áhuga á fræðslu og þjálfun en rúmlega 30% fengið hana
Jákvæð viðhorf sérfræðinga gagnvart gervigreindinni hafa leitt til þess að 72% hafa mikinn áhuga á að bæta við þekkingu sína á gervigreind eða …









