Í almannaumræðu gætir oft töluverðs misskilnings um eðli fjármagnstekjuskatts. Þannig er því t.d. oft haldið fram að ósanngjarnt sé að skatthlutfallið á fjármagnstekjur sé lægra en á launatekjur. Við fyrstu sýn virðist það rétt, skattur á fjármagnstekjur er 22% en á aðrar tekjur er hann (með útsvari) á bilinu 31,49% til 46,29%.
Þegar nánar er að gáð er þessi samanburður þó villandi því að ekki er verið að bera saman sambærileg hlutföll. Almennur tekjuskattur leggst á þann kaupmátt sem annað en fjármagnstekjur, oftast launatekjur, skila fólki á hverjum tíma. Fjármagnstekjuskattur er hins vegar ekki reiknaður út frá þeim kaupmætti sem ávöxtun fjármagns skilar eigendum heldur nafnávöxtun fjármagnsins. Væri fjármagnstekjuskattur lagður á raunávöxtun væri auðveldara að bera hann saman við almennan tekjuskatt en af því að hann er lagður á nafnávöxtun verður samanburðurinn merkingarlítill. Fleiri flækjur eru á samanburðinum, m.a. mismunandi frítekjumörk og það að fjármagnstekjuskattur er bara innheimtur þegar búið er að fá tekjurnar greiddar út en ekki af uppsafnaðri ávöxtun en horfum framhjá því hér til einföldunar.
Raunverulegt skatthlutfall
Hve miklu munar á skatthlutfalli fjármagnstekjuskatts að nafninu til og í raun fer eftir samspili raunávöxtunar og verðbólgu. Sé raunávöxtun lág en verðbólga talsverð verður fjármagnstekjuskattshlutfallið í raun miklu hærra en það er að nafninu til.
Ef við skoðum fjármagnstekjuskatt af einstökum fjárfestingum sjáum við t.d. að þær sem bera lægsta nafnvexti, t.d. óbundnar innstæður í bönkum, eru almennt með neikvæða raunávöxtun, þ.e. vextirnir eru lægri en sem nemur verðbólgu. Innstæðurnar rýrna því við geymslu og skila engri aukningu kaupmáttar …