
Fyrir stjórnanda listaskóla var hressandi að heyra hagfræðing lýsa því yfir í útvarpi að hann telji að listnám sé hugsanlega besta menntunin til að rækta skapandi hugsun. Eins og gefur að skilja er þetta skoðun margra listamanna en þarna kom hún úr óvæntri átt. Það var Ásgeir Brynjar Torfason ritstjóri Vísbendingar sem tjáði sig með þessum hætti í þættinum Á Sprengisandi þann 27. júlí sl. þar sem fjallað var um skapandi greinar og nýsköpun og kallaði hann um leið eftir því að fleiri tækju til máls um efnið. Áskorun hans er kveikjan að þessari grein, því ég tala fyrir þessu sjónarmiði hvenær sem færi gefst.
Sjónarhorn mitt er út frá myndlistinni en minn starfsvettvangur er Myndlistaskólinn í Reykjavík, rótgróinn skóli sem býður upp á fjölbreytt myndlistarnámskeið fyrir fólk á aldrinum frá fjögurra ára og upp úr. Listnámsbraut skólans er tveggja ára samfellt nám sem lýkur með stúdentsprófi. Nemendur sem stefna að því þurfa að hafa lokið minnst eins árs námi við annan skóla en hluti nemenda sækir eins árs námspakka sem samsettur er úr völdum áföngum af brautinni þar sem þau hafa þegar lokið framhaldsskóla, flestir koma af stúdentsbraut en lítill hópur hefur lokið starfsbraut. Einnig eru kenndar fjórar sérhæfðar, verklegar listnámsbrautir í keramiki, málaralist, teikningu og textíl. Námið á þessum brautum tekur tvö ár og er skilgreint á fjórða þekkingarþrepi sem liggur á mörkum framhalds- og háskólastigs, svokallað viðbótarnám í framhaldsskóla (sjá nánar hæfniramma um menntun á Íslandi og má einnig vísa í 20. gr. laga um framhaldsskóla 92/2008).
Í áðurnefndu útvarpsviðtali kom fram að háskóli sé ekki endilega umhverfið sem helst stuðlar að nýsköpun; það séu gjarnan innflytjendur og fólk sem ekki hefur lokið framhaldsskóla (brottfallið) sem nýtir sköpunarkraftinn til að skapa eitthvað nýtt og stofna fyrirtæki. Þetta ýtti líka á takka innra með. Ekkert er á móti háskólanámi í listum en skólakerfið má ekki festast í þröngum skorðum staðla og samræmingar.
Bóknám, verknám, listnám
Umræðan um að rétta hlut verklegra greina gagnvart þeim bóklegu innan menntakerfisins er áratugagömul hér á landi og mun eldri á heimsvísu. Enn er þó verið að smíða þröskulda sem setja hömlur á fólk. Jafn víðfeðm grein og myndlistin á auðvitað snertipunkta við ýmiskonar fræði; sjálfsagt á hún mest sameiginlegt með þeim greinum sem styðjast við eigindlegar rannsóknaraðferðir. Þó er sá risastóri grundvallarmunur á að útkoman úr starfi myndlistarmannsins er yfirleitt ekki rýnd með sama hætti og niðurstöður vísindamannsins. Með því að setja listnám á háskólastig, jafnfætis vísindum, varð stúdentspróf skilyrði og áhersla á bóklegar greinar aukin. Það kemur í veg fyrir að ákveðinn hópur fái aðgang að námi við hæfi, í sumum tilvikum fólkið sem á mest erindi í listnám. Sjálf tala ég ekki um listsköpun sem vísindi, mér finnst það einfaldlega of heftandi.
Listnám er í eðli sínu verknám og það að því er gert að lúta forsendum akademíunnar kallar á nýjar námsleiðir fyrir þá sem eiga fullt erindi í listnám en ekki í bóknám. Fyrir nokkrum árum var menntamálaráðuneytið að vinna að stofnun fagháskólastigs sem er til víða um heim og sem samkvæmt mínum skilningi þýðir háskóli í verklegum greinum með mun minni áherslu á akademískt eða rannsóknartengt nám. Það var prýðileg hugmynd en sú vinna virðist því miður hafa dagað uppi.
Viðbótarnám við Myndlistaskólann hefði átt heima undir þeim hatti en þar fer fram mikilvægt starf þegar litið er til nýsköpunar og framþróunar. Námið veitir fyrst og fremst djúpa verklega þekkingu og tæknilega þjálfun en jafnframt öðlast nemendur góða yfirsýn á sína grein og þekkingu á sögu og þeirri gerjum sem á sér stað í dag. Ef nemendur okkar hafa áhuga á frekara námi í háskólum hér heima þurfa þeir að fara aftur á byrjunarreit á meðan námið er metið til fulls við suma háskóla erlendis. Það er bæði dýrt fyrir einstaklinginn og samfélagið. Sem dæmi má nefna textílbraut skólans en eins og flestir vita leiðir textíliðnaðurinn af sér einn stærsta umhverfisvanda heimsins. Ef við hér á Íslandi ætlum okkur að taka þátt í leitinni að lausnum á þeim vanda þurfum við að gefa í og efla nám í greininni og hvetja til rannsókna og tilrauna. Æskilegast væri ef nemendur gætu lokið grunnnámi hér heima og ættu kost á að vinna lokaverkefni sem tengist íslenskum veruleika, jafnvel notað íslenskt hráefni, og byggt upp tengslanet hér á landi en ekki eingöngu erlendis.
Samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskólans eiga grunnþættir menntunar: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun að endurspeglast í öllu skólastarfi. Markmiðið með námi er að það leiði til þess að nemendur öðlist lykilhæfni sem tilgreind er sem námshæfni, heilbrigði, skapandi hugsun og hagnýting þekkingar, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi, menntun til sjálfbærni og læsi, á íslensku, erlend tungumál og tölur og upplýsingar. Námshæfnin trónir efst á listanum yfir lykilhæfni; það er mikilvægast að læra að læra.
Myndlist og brottfall
Myndlist er tilvalið námsefni til að efla þessa góðu þætti í fari fólks. Að skapa listaverk er alltaf lærdómsferli. Nemendur læra að sjálfsögðu góðar og gagnlegar aðferðir, handbrögð og tækni en jafnrík áhersla er lögð á að þau þrói hugmyndir sínar áfram; festi sig ekki við það sem fyrst kemur upp í hugann heldur kanni viðfangsefni sitt frekar, kafi dýpra, leiti víðar og skimi hærra. Það eru engin takmörk fyrir því hvað hægt er að gera og aðferðirnar geta þessvegna verið vísindalegar – eða alls ekki. Nemendur velja sjálfir sitt viðfangsefni og vinnuaðferð og fyrir vikið eru verk þeirra alltaf einstök og samanburður milli einstaklinga tilgangslaus. Við lok áfanga lýsa þau tilurð eigin verka fyrir samnemendum og ræða þau á jafningjagrundvelli. Öll taka þátt í umræðunum því það er ekki bara lærdómur að standa fyrir svörum, það er jafnmikilvægt að öðlast þjálfun í að spyrja góðra og uppbyggilegra spurninga.
Hér á landi hefur brottfall úr námi verið með því mesta sem gerist í Evrópu. Því hefur verið haldið fram að þegar kemur að þróun á sjálfu menntakerfinu eigi nýsköpun sér frekar stað innan lítilla skóla en stærri stofnana. Í Myndlistaskólanum förum við okkar eigin leiðir og höfum náð mjög góðum árangri með okkar litla nemendahóp og oftar en ekki tekst okkur að opna fólki leið út úr kyrrstöðu. Það er í senn gott fyrir einstaklinginn og ábatasamt fyrir samfélagið í heild.
Myndlistaskólinn í Reykjavík
Á listnámsbraut Myndlistaskólans í Reykjavík koma allskonar nemendur sem öll þurfa að hafa lokið a.m.k. árs námi við annan framhaldsskóla. Mörg eiga að baki snurðulausa skólagöngu. Hluti nemenda hefur hinsvegar mætt miklu andstreymi í hefðbundna kerfinu og ekki fengið tækifæri til að nýta styrkleika sína vegna þess hve kerfið er upptekið af veikleikum þeirra. Í Myndlistaskólanum reynum við að mæta áhuga nemenda (sem væntanlega hafa flest áhuga á myndlist), ekki einungist með því að setja sterkari fókus listgreinakennslu en aðrir framhaldsskólar gera heldur er nálgunin við bóklegar greinar frábrugðin því sem gengur og gerist. Í kjarnafögum er t.d. ekki mikil áhersla á ritgerðaskrif eða að reikna flókin dæmi. Þess í stað vinna nemendur á myndrænan og skapandi hátt með texta og upplýsingar þegar þau skapa myndlistarverk byggð á skáldsögu, listastefnu eða stærðfræði; með öðrum orðum fjölbreytt og krefjandi verkefni sem þjálfa margskonar læsi og fela í sér ýmsar óvæntar áskoranir.
Nemendum listnámsbrautar Myndlistaskólans gengur mjög vel að komast í frekara nám í myndlist og hönnun en þau fara líka í ýmsar aðrar áttir. Ég tel að þau séu fær í flestan sjó því ég er sammála ritstjóra Vísbendingar um að listnám sé almennt mjög góður undirbúningur fyrir líf og störf í flóknum heimi. Það er uppbyggilegt, styrkir hæfni á breiðu sviði og skilar sterkari, heilli og traustari einstaklingi til samfélags sem þarf á öllum sínum kröftum að halda til að leysa margslungin verkefni.
Það er komin góð reynsla á þessar kennsluaðferðir Myndlistaskólans og þær eiga erindi. Ekki endilega við alla, en fyrir suma breyta þær öllu. Við deilum þeim gjarnan með öðrum skólum þar sem áhugi er á að kynna þær.







