Ísland er ung eldfjallaeyja umvafin norður Atlantshafi. Flekaskil fara gegnum landið með tveimur þverbeltum þar sem jarðskjálftar nálægt 7 að stærð geta orðið. Undir landinu er möttulstrókur sem flytur heita kviku í átt að yfirborði og er ábyrgur fyrir mikilli eldvirkni á eynni en 33 eldstöðvar eru taldar virkar. Vegna legu eyjunnar eru veður válind, hún er hulin jöklum að hluta en umvafin hafi og því helst hitastig nokkuð jafn kalt árið um kring.
Þessi sérstaka lega landsins gerir það að verkum að flestar helstu tegundir náttúruvár finnast á Íslandi, eldfjalla- og jarðskjálftavá, skriðu- og snjóflóðavá, vatnsflóða- og jökulhlaupavá, flóðbylgjuvá, gróðureldavá og veðurvá eins og ofsaveður og aftaka úrkoma.
Er náttúruvá að aukast á Íslandi?
Margt bendir til að svo sé. Ekki er hægt að benda á ákveðna atburði í þessu samhengi, heldur er mikilvægt að skilja ferlana sem valda náttúruvá.
Náttúruvá fyrir tilstuðlan athafna mannsins hefur aukist. Ljóst er að hlýnun jarðar hefur margskonar áhrif á náttúruvá og er mikilvægt rannsóknarefni. Hopun jökla á Íslandi veldur þrýstingslétti sem hefur áhrif á undirliggjandi jarðskorpu. Margar af kröftugustu eldstöðvum landsins eru undir síminnkandi jökulfargi sem örvar kvikuframleiðslu og ef svo heldur áfram sem horfir aukast líkur á eldgosum. Hopandi skriðjöklar skilja eftir sig lón og óstöðugar hlíðar sem geta hlaupið fram og orsakað gríðarlegt tjón. Ennfremur, samfara hlýnun jarðar geta auknar sveiflur í veðurfari og aukin úrkoma haft áhrif á t.d. tíðni skriðufalla og snjóflóða. Hér er hægt að telja fleira til, eins og sjávarflóð, aukna tíðni jökulhlaupa samfara aukinni eldvirkni, …