
Árlega eru gerðar svokallaðar tryggingarfræðilegar úttektir á samtryggingardeildum lífeyrissjóða. Þeim er ætlað er að meta í hvaða mæli sjóðirnir standi undir skuldbindingum sínum vegna þeirra sem eru sjóðfélagar á uppgjörsdegi, sem er oftast í árslok. Matið byggist á þeirri forsendu að sjóðfélagarnir séu í sjóðnum út starfsævina og fái eftir það lífeyri frá honum til æviloka. Matið felst síðan í því að bera saman annars vegar eignir á uppgjörsdegi og núvirði framtíðariðgjalda og ávöxtunar þeirra, og hins vegar núvirði skuldbindinga, bæði þeirra sem eru þegar áfallnar og þeirra sem munu koma til vegna framtíðariðgjalda.
Niðurstaðan úr þessu mati skiptir miklu máli, því í lögum um lífeyrissjóði er kveðið á um að ef munurinn á núvirði eigna og núvirði skuldbindinga samtryggingardeilda sem ekki njóta bakábyrgðar launagreiðanda er á einu ári annað hvort neikvæður eða jákvæður sem nemur meira en 10% af núvirði skuldbindinga eða að meðaltali meira en 5% af núvirði skuldbindinga í fimm ár, þá þurfi sjóðirnir að breyta annað hvort réttindum eða iðgjöldum til að komast inn fyrir þessi mörk, sem í raun hefur yfirleitt verið breyting á réttindum.
Hlutverk og eðli núvirðingarstuðuls
Til að framkvæma þessa útreikninga þarf að ákveða hvaða prósentu eigi að nota til að reikna núvirði framtíðarstærða og hvaða ávöxtun eigi að gera ráð fyrir á framtíðareignum. Það er hægt að færa rök fyrir því að eins og kerfið er byggt upp ætti þetta að vera sama talan. Þannig hefur það líka verið hér á landi svo áratugum skiptir að núvirðingarstuðulinn og forsendan um raunávöxtun í framtíðinni hefur verið 3,5%. Við þetta mat þarf að hafa hliðsjón af því að tryggingarfræðilegar úttektir horfa til töluvert langs tíma, þar sem endapunktur útreikninganna er þegar ævilíkur segja að síðasti sjóðfélaginn á uppgjörsdegi líkur ævinni.
Á undanförnum árum hefur því stundum verið haldið fram að 3,5% núvirðingarstuðullinn sem notaður hefur verið í tryggingarfræðilegum úttektum sé rangur, og þá fremur fullyrt hann sé of hár. Að sumu leyti virðist umræðan byggjast á misskilningi á því hvað núvirðingarstuðullinn er. Hann er ekki, eða ætti ekki að vera, markmið fyrir raunávöxtun lífeyrissjóðanna. Það markmið ætti að vera að ná sem bestri ávöxtun á hverjum tíma að teknu tilliti til áhættu. Núvirðingarstuðullinn felur heldur ekki í sér gólf fyrir ávöxtun eigna sem lífeyrissjóðirnir fjárfesta í. Fjárfestingarstefna þeirra byggist á áhættudreifingu og eignasafnið er alltaf á hverjum tíma samsett af eignum sem eru með lægri ávöxtun og með hærri ávöxtun en meðaltalið.
Það kann að hafa stuðlað að þessum misskilningi að núvirðingarstuðullinn hefur stundum verið kallaður „vaxtaviðmið“. Það orð lýsir hins ekki vel því sem um er að ræða, þ.e. að það er raunávöxtun allra eigna lífeyrissjóða sem skiptir máli varðandi núvirðingarstuðulinn, hvort sem hún er í formi vaxta, arðs, hækkun raunverðs hlutabréfa, leigu o.s.frv.. Hlutafé er stærstur hluti eigna lífeyrissjóða og þar vegur þungt að erlendar eignir lífeyrissjóða eru að langmestu leyti í því formi. Í árslok 2023 nam hlutafé 51% af heildareignum lífeyrissjóða en vaxtaberandi eignir námu 45% af heildareignum.
Þegar öllu er á botninn hvolft þarf núvirðingarstuðullinn að vera besta ágiskun um hver raunávöxtun lífeyrissjóði verði að meðaltali þegar litið er til lengri framtíðar. Ástæðan er sú að ef stuðulinn víkur …








