
Í orkuskiptunum felast óendanleg tækifæri fyrir íslenskt samfélag til að hætta innflutningi á jarðefnaeldsneyti, nýta raforkukerfið enn betur, minnka loftmengun, vera framvörður í loftslagsmálum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þau styrkja ímynd Íslands sem land hreinnar orku, loftgæða, lágrar losunar og ósnortnar náttúru sem hefur bein, jákvæð áhrif á ferðaþjónustu á Íslandi og skapar margvíslega möguleika til aðgreiningar frá samkeppnislöndum.
Heimurinn horfir til Íslands í umhverfis- og loftslagsmálum, segir Simon Anholt, alþjóðlega þekktur ráðgjafi í stefnumörkun ríkja á sviðum efnahagslífs, stjórnmála og menningar, sem flutti erindi á ársfundi Íslandsstofu í mars sl.:
„Allt við ímynd Íslands bendir til að heimsbyggðin sé tilbúin að líta á það sem eitt þriggja eða fjögurra landa í heiminum sem standi fremst vegna framlags þeirra í sjálfbærnimálum. Þið hafið ekki um neitt að velja í þessum efnum. Þið hafið verið tilnefnd til forystu – og þið verðið að standa undir væntingum. Einbeitið ykkur að umhverfis- og loftslagsmálum ... það er hlutskiptið sem ykkur var ætlað.“
Hvað er til ráða?

Einfaldast og skjótvirkast er að hraða orkuskiptum í vegasamgöngum þar sem tækni rafknúinna ökutækja er orðin vel þroskuð og úrval ökutækja mikið. En stefna stjórnvalda þarf að vera skýr og aðgerðir í samræmi við stefnuna. Það hefur gengið vel undanfarin ár en skyndilegur viðsnúningur stjórnvalda nýverið varðandi fjárhagslegan stuðning til rafbílakaupa gengur gegn þeirra eigin stefnu í orkuskiptum og hefur valdið alvarlegu bakslagi sem skapar óvissu meðal annarra hagaðila. Í dauðafæri má ekki bregða fæti fyrir sóknina.
Á Loftslagsdegi Umhverfisstofnunar kom fram að:
„Losun frá íslenska samfélaginu er enn þá á uppleið. Þetta sýna nýjar tölur sem kynntar voru á árlegum loftslagsdegi í Hörpu í dag. Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, segir alvarleg mistök hafa verið gerð þegar felldir voru niður hagrænir hvatar á rafbílum.“
Ísland er einstaklega auðugt land þegar kemur að endurnýjanlegri orku sem hægt er að nota til að knýja ökutækjaflotann í landinu. Þann 1. júní 2024 voru 292.303 ökutæki í umferð á Íslandi og þar af voru 29.223 alfarið rafknúin, eða 10%. Að auki voru 23.201 tengiltvinnbílar í landinu, eða 7,9%.
Langflestir raf- og tengiltvinnbílar eru hlaðnir á kvöldin eða á nóttinni en könnun sem Samorka gerði árið 2019 sýndi að svo var í 96% tilfella. Það þýðir að raforka er á lausu til að knýja mjög stóran hluta af bílaflotanum og má færa rök fyrir að árið 2030 væri hægt að knýja um 100.000 rafbíla án nýrra virkjana. Það eykur nýtingu bæði mannvirkja til raforkuframleiðslu og til flutnings- og dreifingar raforku og skapar ávinning til að styrkja raforkuframleiðslu, flutnings- og dreifikerfi.
Alþjóðleg þróun
Það er okkur Íslendingum til happs að hinn alþjóðlegi bílaheimur hefur ákveðið að veðja á rafbílinn sem arftaka sprengihreyfilsbílsins sem sést meðal annars í gríðarlegum fjárfestingum bílaframleiðenda í nýjum tegundum rafbíla og fjárfestingum rafhlöðuframleiðenda í nýjum kynslóðum rafhlaða. Þetta endurspeglast í sífellt meira úrvali rafbíla með meiri drægni og auknum hleðsluhraða. Frá árinu 2018 til ársins 2023 næstum sjöfaldaðist fjöldi rafbílategunda í boði á Íslandi. Ef nýjum tegundum sem væntanlegar eru á markað á þessu ári er bætt við má reikna með að heildarfjöldi rafbílategunda á þessu ári verði 103 sem er áttföldun frá árinu 2018.
Fyrir utan að rekstrarkostnaður rafbíls er ríflega helmingi lægri en sambærilegs sprengihreyfilsbíls þá hefur meira úrval rafbíla, meiri drægni, þéttara hraðhleðslunet og aukinn hleðsluhraði leitt til mikils vaxtar í nýskráningum nýrra rafbíla á Íslandi sem hafa farið úr 782 árið 2018 í 10.181 árið 2023. Samhliða hefur hlutdeild rafbíla af heildarnýskráningum aukist úr 3,7% árið 2018 í 49,8% árið 2023.
Fyrstu fimm mánuði þessa árs hefur hins vegar orðið bakslag í nýskráningum rafmagns fólksbíla sem eru 73,8% færri en á sama tíma í fyrra og hafa aðeins 889 rafmagns fólksbílar verið nýskráðir á árinu. Hlutdeild þeirra af heildarskráningum er 16,7% sem er ríflega helmingi minni hlutdeild en á sama tíma í fyrra þegar nýskráðir höfðu verið 3.392 rafbílar. Ástæðurnar má rekja til mistaka fjármála- og efnahagsráðuneytis sem innleiddi fjölmargar aðgerðir tvenn síðustu áramót sem hafa unnið gegn orkuskiptum í vegasamgöngum.
Þegar þróun í nýskráningum er rýnd niður á heimili, almenn fyrirtæki og bílaleigur sést að aðgerðirnar hafa haft áhrif á alla kaupendahópa.
Það hefur sýnt sig víða um heim að þegar hlutdeild rafmagnsbíla af heildarnýskráningum fer yfir 5% þá sé það ákveðinn vendipunktur í orkuskiptum ökutækja og að þá sé ekki aftur snúið í rafbílavæðingu. Ísland er mjög gott dæmi og fylgir þeirri þróun nákvæmlega.
Heimilin ná 4,9% hlutdeild í rafbílakaupum árið 2017, fara í 5,8% árið 2018 og eftir það tekur hlutdeildin hressilega við sér og fer í 13% árið 2019 og nær hámarki árið 2023 í 74,3%. Frá árinu 2010 hafa heimilin keypt 92.122 fólksbíla og þar af 19.752 rafknúna. Á …








