Stöðugleiki í húsnæðismálum til lengri og skemmri tíma er mikilvægt hagsmunamál fyrir samfélagið allt. Eitt af meginmarkmiðum stjórnvalda er að skapa jafnvægi á húsnæðismarkaði – til að einstaklingar og fjölskyldur eigi kost á húsnæði á viðráðanlegu verði. Í stærra samhengi skapar það einnig möguleika til að draga úr áhrifum á verðbólgu og vexti. Skýr og heildstæð stefna stjórnvalda í húsnæðismálum er lykill að þessum markmiðum.
Húsnæðisstefna 2024 – 2038
Alþingi samþykkti í sumar þingsályktunartillögu innviðaráðherra um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028.
Húsnæðisstefnunni er þannig ætlað að mæta þeim megináskorunum sem felast í að stuðla að auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði með stöðugu framboði fjölbreytts húsnæðis í samræmi við íbúðaþörf og þarfir vinnumarkaðarins, að auka gæði, öryggi og hagkvæmni íbúða í jafnvægi við umhverfið og tryggja að þau sem á þurfa að halda hljóti viðeigandi húsnæðisstuðning. Þannig verði stutt við grundvallarrétt hvers og eins til húsnæðis og sköpuð skilyrði til velferðar og virkrar þátttöku í samfélaginu.
Markmið og framtíðarsýn
Húsnæðisstefna byggist á eftirfarandi framtíðarsýn í húsnæðismálum:
Stöðugleiki ríkir á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mætir þörf í jafnvægi við umhverfið. Öllum er tryggt öruggt og gott húsnæði í blandaðri byggð og húsnæðiskostnaður þeirra er viðráðanlegur.
Í húsnæðisstefnu eru sett fram fjögur markmið stjórnvalda í húsnæðismálum:
- Jafnvægi verði á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mæti þörf og þróun húsnæðis- og leiguverðs sé stöðug.
- Skilvirk stjórnsýsla og bætt starfsumhverfi mannvirkjagerðar stuðli að auknum gæðum, öryggi, rekjanleika og hagkvæmni íbúðauppbyggingar í jafnvægi við umhverfið.
- Landsmenn búi við húsnæðisöryggi og jafnrétti í húsnæðismálum með því að sköpuð verði skilyrði með markvissum húsnæðisstuðningi til að öll hafi aðgengi að öruggu og góðu húsnæði með viðráðanlegum húsnæðiskostnaði.
- Framboð íbúða stuðli að virkum vinnumarkaði og styðji við öflug vinnusóknarsvæði um allt land.
Fjölbreytt húsnæði og gæði
Til að ná stöðugleika á húsnæðismarkaði þarf framboð á fjölbreyttu húsnæði að endurspegla íbúðaþörf mismunandi félagshópa og styðja við öflug atvinnu- og þjónustusóknarsvæði um land allt. Íbúðauppbygging þarf að byggjast á áreiðanlegum upplýsingum um íbúðaþörf samkvæmt mannfjöldaspá og fyrirhugaða uppbyggingu hverju sinni á grundvelli öflugra tæknilegra innviða stjórnvalda. Festa þarf í sessi öflugt samstarf ríkis og sveitarfélaga til að tryggja framboð byggingarhæfra lóða, nauðsynlegt skipulag og innviði undir stöðuga íbúðauppbyggingu.
... stjórnvöld hafa sett fram heildstæða langtímastefnu í húsnæðismálum á landsvísu sem hefur að leiðarljósi að tryggja að öll búi við húsnæðisöryggi ...
Samhliða þarf að huga að gæðum húsnæðis sem felast ekki einungis í að húsnæði sé öruggt, heilnæmt og vandað, heldur einnig sjálfbært. Húsnæði þarf auk þess að vera aðlaðandi og vel hannað, m.a. með tilliti til grunngæða húsnæðis s.s. dagsbirtu, hreins lofts, góðrar hljóðvistar, aðgengis, góðs skipulags og skilvirkni. Þá þarf húsnæði að uppfylla rýmisþörf daglegra athafna og tengingar hins byggða umhverfis við græn svæði og göngu- og hjólastíga. Skapa þarf skilyrði til að slíkt húsnæði standi öllum til boða, óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, m.a. með blöndun byggðar.
Regluverk styðji við uppbyggingu
Mikilvægt er að regluverk og framkvæmd í skipulags- og byggingarmálum styðji við uppbyggingu íbúða og tryggi …








