Til baka

Aðrir sálmar

Tollar Trumps tæta og trylla

Aðrir sálmar fjalla líkt og báðar megin greinar vikuritsins um tollana í Bandaríkjunum

Mikilvæg leið til að skilja skrítinn samtíma er að skoða söguna. Þó deila megi um hvort fortíðin hafi gott forspárgildi fyrir framtíðina. Þá er hið minnsta gagnlegt að skoða sambærilega atburði í fortíð og hægt að áætla út frá þeim hvað gerðist við svipaðar aðstæður. Sú er einmitt raunin í forsíðugrein vikuritsins. Þar er veitt vönduð innsýn í rannsóknir á fyrra kjörtímabili Trumps þegar innleiddir voru tollar í Bandaríkjunum á vissar innfluttar vörur.

Þá má einnig benda á grein mína í Heimildinni í síðustu viku þar sem efnahagsleg áhrif af fyrstu hundrað dögum hins síðara kjörtímabils forsetans voru metin. Efnahagsspá Alþjóða gjaldeyrissjóðsins fyrir heiminn hefur versnað vegna stefnu forsetans sem einkennst hefur af mikilli óreiðu. Líkur á samdrætti í heiminum hafa þre- til fjórfaldast.

Hægt er að færa rök fyrir vissri skynsemi í ákveðinni tegund tolla þó flestir hagfræðingar séu andstæðir þeim. Síðari grein vikunnar fjallar um merkan hagfræðing af indverskum uppruna sem lengi hefur haldið á lofti ákveðnu mikilvægi tolla. Hér í Vísbendingu viljum við vekja upp gagnrýna umræðu og kveikja hughrif lesenda til að velta báðum hliðum sem flestra mála fyrir sér.

Apple hefur fært hluta af framleiðslu síma sinna frá Kína til Indlands og þaðan munu koma flest þau tæki sem fara á bandarískan markað í lok næsta árs.

Kanada hefur nú kosið sér nýjan leiðtoga, Mark Carney, sem var seðlabankastjóri landsins í fjármálakrísunni og seðlabankastjóri Bretlands á dögum Brexit, auk þess að vera fyrsti seðlabankastjóri heims til að taka umhverfismálin á dagskrá.

Þegar þetta er skrifað, á síðasta degi aprílmánaðar, sem jafnframt er hundraðasti dagur Trumps í seinni embættistíð sinni, þá hafa vinsældir hans fallið og fylgistölurnar eru komnar undir 40%. Kjósendum finnst hann hafa gengið of langt, og þó hann hafi vissulega verið virkur í aðgerðum þá þykja þær of kaótískar – samkvæmt könnunum í Bandaríkjunum.

Næsta grein