Það er margt áhugavert í nýbirtri fjármálaætlun hins opinbera fyrir árin 2025 til 2029. Af því tilefni er tilvalið að skoða nokkrar algengar fullyrðingar úr þjóðmálaumræðunni um fjármál og umsvif og stöðu ríkissjóðs eða hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga.
Oft er t.d. fullyrt að vöxtur opinberra umsvifa sé gríðarlegur. Líklega er besti mælikvarðinn á þetta heildarútgjöld hins opinbera í hlutfalli við vergra landsframleiðslu. Á þennan mælikvarða jukust opinber umsvif verulega allt frá 19. öld og út þá 20. en síðan hefur ekki verið nein leitni til aukningar. Útgjöldin voru 45% af vergri landsframleiðslu um aldamótin og 45% í fyrra. Jukust í hruninu og svo aftur í Covid en það gekk í báðum tilfellum til baka.
Annar mælikvarði á umsvif hins opinbera sem hægt væri að styðjast við er samneysla, þ.e. kaup hins opinbera eða framleiðsla á ýmiss konar vörum og þjónustu. Undir það falla m.a. rekstrarkostnaður mestalls heilbrigðis- og menntakerfisins og fjölmargir smærri liðir en ekki t.d. millifærslur í gegnum almannatryggingar. Sé samneysla sem hlutfall af vergri landsframleiðslu skoðuð sést enn skýrar að því fer fjarri að umsvif hins opinbera vaxi hraðar en hagkerfið. Þetta hlutfall var 22,7% í fyrra en varð hæst 28,8% árið 1995. Það hefur sem sé farið lækkandi í tæpa þrjá áratugi en fór vaxandi til þess tíma. Samneysluhlutfallið er svipað nú og fyrir fjörutíu árum, í upphafi níunda áratugarins. Mynd 1 dregur þetta vel fram.
