
Umræða um skuldasöfnun hins opinbera er víða býsna hávær og það á einnig við á Íslandi. Í þjóðmálaumræðunni er oft mikið gert úr henni og dregin upp dökk framtíðarsýn í hvert sinn sem fréttir berast af hallarekstri hvort heldur er ríkis eða sveitarfélaga. Vissulega er ekki gæfulegt að reka ríki eða sveitarfélög með miklum halla í eðlilegu árferði, bæði vegna þess að það veltir byrðum á milli kynslóða og sökum þess að það getur valdið þenslu og verðbólgu. Sé allt of glannalega farið getur það jafnvel leitt til fjármálakrísu.
Það er hins vegar ekki þar með sagt að opinberar skuldir séu alltaf hið versta mál. Þeim fylgja nefnilega líka verulegir kostir. Markaðurinn fyrir ríkisskuldabréf gegnir þannig í flestum tilfellum lykilhlutverki á eignamörkuðum. Kjör á þeim markaði eru viðmið fyrir aðra markaði, bæði fyrir skuldabréf og hlutabréf og flóknari fjármálagerninga, t.d. alls konar afleiður og oft fyrir lán með breytilegum vöxtum. Þau eru líka notuð í ýmsum öðrum tilgangi utan fjármálamarkaða, t.d. við að reikna eðlilega afkomu og álagningu í regluðum atvinnugreinum eins og veitustarfsemi.
Vegna þessa hlutverks markaðarins fyrir ríkisskuldabréf gefa ýmis ríki sem hafa litla eða enga þörf fyrir fjármögnun engu að síður út slík bréf og leggja sig fram um að tryggja djúpan og virkan markað fyrir þau. Sem dæmi má nefna Noreg og Singapúr en bæði löndin eiga risavaxna þjóðarsjóði og hafa enga þörf fyrir að sækja fé á markaði.
Traust til skuldabréfaútgefenda
Traust á útgefandanum, efnahag hans, pólitískum vilja til að standa í skilum og laga- og réttarkerfi skiptir allt máli fyrir eftirspurn og virkni markaðar. Til að markaðurinn fyrir ríkisskuldabréf gegni hlutverki sínu sem hornsteinn fjármálakerfis þarf hann að vera stór og djúpur, með mörgum kaupendum og seljendum og töluverðri veltu. Tregðuvægið byggir á því að mikið þurfi til að hagga markaðinum, stórar fjárhæðir geta flætt inn á og út af honum án þess að setja hann í uppnám eða hreyfa verulega vexti eða markaðsverð.
Húsbréfakerfið sem var tekið upp 1989 lék lengi vel lykilhlutverk á íslenskum skuldabréfamarkaði. Þótt húsbréfin væru ekki spariskírteini og þar með bein krafa á ríkissjóð þá nutu bréfin ríkisábyrgðar og markaðurinn fyrir þau var í raun hluti af markaðinum fyrir ríkisskuldabréf. Flokkar húsbréfa voru stórir, markaðurinn fyrir þá djúpur og ávöxtunarkrafa þeirra almennt viðurkennt viðmið fyrir vexti, sérstaklega á fasteignalánum. Þegar íbúðabréfakerfið tók við af húsbréfakerfinu árið 2004 var því ætlað að taka við þessu hlutverki.
Fyrst um sinn gekk það nokkurn veginn eftir og tiltölulega djúpur markaður var með stóra flokka íbúðabréfa (HFF bréf). Þegar hratt fjaraði undan lánastarfsemi útgefandans í harðri samkeppni við innlánsstofnanir gerbreyttist staðan. Sá grundvallareiginleiki íbúðabréfanna að útgefandinn gat ekki greitt þau upp fyrir gjalddaga, ólíkt því sem gilti um húsbréfin, reyndust dýrkeypt mistök. Ýmis önnur mistök voru líka gerð í rekstri Íbúðalánasjóðs en þau verða ekki rakin hér. Á endanum varð sjóðurinn óstarfhæfur með neikvætt eigið fé og lánveitingum og útgáfu íbúðabréfa var hætt.
Þessi staða þýddi að íbúðabréf gátu ekki lengur með góðu móti gegnt lykilhlutverki á íslenskum skuldabréfamarkaði. Staða þeirra versnaði svo verulega þegar fjármálaráðherra kynnti þá fyrirætlun sína árið 2022 að þvinga fram gjaldþrot Íbúðalánasjóðs og greiða í framhaldi af því bréfin upp á nafnverði (um 700 ma. króna), sem var langt undir markaðsverði (um 850 ma. króna) vegna þess að nafnvextir bréfanna voru þá talsvert yfir ávöxtunarkröfu þeirra. Eigendur bréfanna, sem voru að uppistöðu til lífeyrissjóðir, tóku þetta skiljanlega ekki í mál. Við tók deila sem ekki var leyst úr fyrr en á þessu ári með samningum. Á meðan var stór hluti íslenska skuldabréfamarkaðarins botnfrosinn enda illmögulegt að átta sig á eðlilegu verði íbúðabréfa. Það var einnig afleitt fyrir markaðinn fyrir lán með breytilegum vöxtum því að erfitt var að finna traust viðmið fyrir slíka vexti.
Skuldabréfamarkaður blómgast á ný
Nú þegar búið er að leysa deiluna um íbúðabréfin ætti skuldabréfamarkaðurinn að geta jafnað sig á ný. Við hann munu bætast ríkisskuldabréf fyrir um 540 ma. kr. sem verða meðal eigna sem eigendur íbúðabréfanna fá í skiptum fyrir þau bréf. Þetta er töluverð aukning á framboði því að í lok apríl voru …








