
Í síðustu viku létu forystumenn ríkisstjórnarinnar eftir sér hafa að til greina kæmi að breyta því hvernig vísitala neysluverðs er reiknuð vegna náttúruhamfaranna í Grindavík. Svo virðist sem til standi að gera íbúum bæjarins mögulegt að kaupa sér húsnæði annars staðar sem þá mundi líklega hækka verð á húsnæði og auka mælda verðbólgu. Ráðherrar vilja í framhaldinu skoða hvort hægt sé að endurmeta aðferðafræði við útreikning húsnæðisliðar í vísitölu neysluverðs til þess að verðbólgumælingin verði lægri.
Þessi umræða minnir á löngu liðna tíma þegar sjálfsagt þótti að niðurgreiða ýmis matvæli til þess að lækka verðbólgumælingu og áhrif hennar.
Eldsumbrot, verðbólgumæling og peningastefna
Í umræðunni er blandað saman nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi er það verðbólgumælingin sjálf og vægi húsnæðisliðarins í henni. Í öðru lagi er það hvernig peningastefnan muni bregðast við tímabundinni aukningu verðbólgu vegna hækkunar á húsnæðisliðnum. Og í þriðja lagi liggur kannski að baki sú hugsun að hamfarirnar verði til þess að hækka höfuðstól verðtryggðra lána, sem varla getur talist réttlátt.
Það er ólíklegt að Seðlabankinn bregðist við tímabundinni hækkun verðbólgu sem stafar af skorti á húsnæði fyrir Grindvíkinga með vaxtahækkun. Allavega væri það ekki skynsamlegt. Hlutfallsleg verð breytast frá einu ári til annars, stundum er skortur á húsnæði og stundum er of mikið framboð. Stundum lækkar gengi krónu vegna minni útflutnings og verð á innflutningi hækkar og þannig mætti áfram telja. Ákvarðanir um peningastefnuna byggjast á því hvort mikil almenn eftirspurn eftir vörum og þjónustu kyndi undir verðbólgu. Á vinnumarkaði sjást merki slíkrar þróunar í skorti á vinnuafli og litlu atvinnuleysi. Væntingar um verðbólgu í framtíðinni skipta einnig miklu máli vegna þess að væntingar um háa verðbólgu orsaka meiri verðhækkanir og hækkanir launa. En það væri skrítin peningastefna sem myndi bregðast við því að eldgos geri fólk heimilislaust með vaxtahækkun.
Hækkun verðbólgumælingarinnar myndi hins vegar verða til þess að höfuðstóll verðtryggðra húsnæðislána myndi hækka. Vegna mikils aðflutnings erlends vinnuafls og almenns skorts á húsnæði getum við síðan þurft að bíða lengi eftir því að húsnæðisliður verðvísitölunnar lækki umtalsvert þótt miklar vaxtahækkanir geti valdið tímabundinni lækkun.
Það sem skiptir máli til lengri tíma er hvort vísitala neysluverðs sé rétt reiknuð. Um þetta hefur verið fjallað í fjölda ára og kannski kominn tími til þess að ákveða hvort gera eigi breytingar eða ekki.
það væri skrítin peningastefna sem myndi bregðast við því að eldgos geri fólk heimilislaust með vaxtahækkun
Um húsnæðislið í verðvísitölu[981eec]
Það má gagnrýna að hafa húsnæðisliðinn inni í vísitölu neysluverðs með þeim hætti sem nú er og felur í sér að hækkun húsnæðisverðs kemur hratt inn í verðbólgumælinguna. Síðustu árin hefur fasteignaverð hækkað, einkum á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni, meðal annars vegna þess að eigendur húsnæðis hafa leigt það til ferðamanna og einnig hafa þúsundir farandverkafólks, mest frá Austur-Evrópu, aukið eftirspurn eftir húsnæði. Á síðasta ári fluttu þannig að jafnaði um eitt þúsund fleiri einstaklingar til landsins en frá því í hverjum mánuði. Þessi þróun veldur því að húsnæðisverð hækkar sem hækkar vísitölu neysluverðs sem síðan hækkar höfuðstól allra verðtryggðra húsnæðislána. En þetta er ekki verðbólga sem orsakast af peningalegum þáttum – aukningu peningamagns, lágum vöxtum o.s.frv. – heldur hækkun á verði húsnæðis. Það að gagnrýnisraddir heyrist við þessar aðstæður er skiljanlegt.
Nú bætast við þúsundir Grindvíkinga sem þurfa á nýju húsnæði að halda sem mun auka þrýsting á húsnæðisverð enn frekar. Náttúruhamfarirnar munu þá valda því að vísitala neysluverðs hækkar frá því sem annars hefði orðið sem aftur hækkar höfuðstól verðtryggðra lána. Ef nú, sem væntanlega verður raunin, vextir Seðlabankans hækka ekki sem viðbragð við náttúruhamförunum …








