Nýfallinn dómur Hæstaréttar um breytilega vexti (mál 55/2024) dregur vel fram að það vantar tilfinnanlega góð viðmið fyrir breytilega vexti á íslenskum markaði. Í málinu var tekist á um það hvort aðferðir Íslandsbanka við að taka ákvarðanir um breytingar á vöxtum fasteignalána stæðust kröfur íslenskra laga og hvort lögin samræmdust tilskipunum Evrópusambandsins um neytendavernd á sviði lánasamninga.
Rétturinn byggði m.a. á því að ákvæði lánasamningsins um viðmið um breytingar á vöxtum væru loðin og teygjanleg, sem þau óneitanlega voru, og því ógjörningur fyrir lántaka að leggja mat á hvort breytingar sem gerðar voru á vöxtunum voru eðlilegar og réttlætanlegar. Rétturinn taldi þó að miða hefði mátt við tvö af viðmiðunum sem tilgreind voru, stýrivexti Seðlabankans og vísitölu neysluverðs, þ.e. verðbólgu, en útfærslan á tengingunni við vísitölu neysluverðs hefði ekki verið nógu skýrt útfærð. Viðmiðið um stýrivexti var því það eina sem stóðst kröfur laga um skýrleika og fyrirsjáanleika að mati réttarins og önnur viðmið voru felld úr gildi. Jafnframt komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að vextir á þessu tiltekna láni hefðu hækkað minna en stýrivextirnir á því tímabili sem horft var til og taldi það sýna að hækkunin hefði ekki verið óeðlileg. Bankanum var því ekki gert að endurgreiða neitt, a.m.k. ekki til þess lántaka sem höfðaði málið.
Það sem ekki er í dómnum
Þótt það sé ekki rakið í dóminum þá hefði samanburður á vöxtunum við breytingar á vísitölu neysluverðs ekki heldur leitt í ljós óeðlilega hækkun vaxtanna. Skýringin er að þegar verðbólga rauk upp 2021-2023 tók talsverðan tíma …

