
Ísland er á mörkum byggilegs umhverfis, líkt og komið hefur í ljós í gegn um aldirnar. Á tímabili „litlu ísaldarinnar” frá 1300-1850 var lífið á Íslandi erfitt því ekki var hægt að rækta korn hér. Þegar hlýna fór í lok síðustu aldar var farið að rækta meira af korni, einkum byggi og eitthvað af hveiti og höfrum. En hvað verður um fæðuöryggi Íslands ef það kólnar verulega? Verður þá byggilegt á Íslandi? Hvernig mun gengd fisks verða? Verður einhver sjávarútvegs- eða landbúnaðarframleiðsla til eigin neyslu og útflutnings? Hvernig mun viðskiptalíkan íslensks útflutnings verða ef það kólnar hér að meðaltali um 5oC eða meira? Nú lítur út fyrir að slík kólnun gæti verið í kortunum ef losun gróðurhúslofttegunda verður ekki dregin kröftuglega saman.
Hringborð Norðurslóða 2024
Á síðastliðnu ári sendi hópur loftslagsvísindamanna opið bréf til Norðurlandaráðs frá Hringborði norðurslóða. Prófessor Stefan Ramstorf haf- og loftslagsfræðingur frá PIC (Potsdam Institute for Climate Impact Research) í Þýskalandi flutti fyrirlestur í Háskóla Íslands og á Hringborði norðurslóða. Stefan afhenti þáverandi umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni bréfið. Nú hefur nýr ráðherra Jóhann Páll Jóhannsson tekið við ráðuneytinu og málefnið hefur ratað inn á borð Þjóðaröryggisráðs Íslands. Stjórnmálaflokkurinn Viðreisn hélt sérstakan félagafund um málefnið 13. nóvember sl. en enginn þingmaður mætti á fundinn. Annars heyrir þjóðin lítið um alvarleika málsins hvort sem það er frá stjórnmálamönnum eða fjölmiðlum.
Í bréfinu frá vísindamönnunum var lögð áhersla á auknar vísbendingar um áhættu á hnignun veltihringrásar Atlandshafsins (e. Atlantic Meridional Overturning Circulation - AMOC) – sem við köllum í daglegu máli Golfstrauminn – vegna hlýnunar jarðar af völdum útblásturs gróðurhúslofttegunda. Þess vegna teldu þeir brýnt að áhætta vegna viðkvæmra vendipunkta á norðurslóðum, einkum áhættan á hnignun veltihringrásarinnar, sé tekin alvarlega af stjórnvöldum við stefnumótun. Þeir tóku fram að jafnvel þótt líkurnar á að þetta gerist séu miðlungs, þá myndu afleiðingarnar verða hörmulegar og hafa áhrif á allan heiminn um aldir fram í tímann. Vísindamennirnir töldu því nauðsynlegt að grípa til frekari aðgerða til að lágmarka þessa áhættu.
Þá er í bréfinu einnig tekið fram að áhrifin á Norðurlöndin yrðu líklega verulegar hamfarir, þar á meðal mikil kólnun í svæðinu á sama tíma og nærlæg svæði hlýna. Þetta myndi auka og dýpka þann svokallaða „kalda blett“ sem þegar hefur myndast í Atlantshafinu sunnan Íslands – sjá myndir 1 og 2 – og líklega leiða til fordæmalauss öfgaveðurs. Þó að áhrifin á veðurmynstur, vistkerfi og mannlegar athafnir krefjist frekari rannsókna, bentu þeir á að þetta gæti hugsanlega stofnað í hættu búsetu og framleiðni landbúnaðar í norðvestur Evrópu.
Loks bentu vísindamennirnir á að mörg önnur áhrif verða líkleg á heimsvísu, þar á meðal hliðrun í hitabeltisúrkomu, minnkun upptöku koldíoxíðs í höfum (og þar með hraðari aukning í lofthjúpi), auk verulegrar hækkunar sjávarborðs, sérstaklega við Atlantshafsstrendur Bandaríkjanna og stórfeld truflun gæti orðið á sjávarvistkerfum og þar með fiskveiðum. Vísindamennirnir bentu á að þar sem aðlögun að svo alvarlegri loftslagsvá er ekki raunhæfur kostur, hvöttu þeir ráðherranefnd Norðurlandaráðs til að: bæði hefja mat á þessari verulegu áhættu fyrir Norðurlöndin og grípa til aðgerða til að lágmarka áhættuna sem mest. Þetta gæti falið í sér að nýta sterka alþjóðlegu stöðu Norðurlandanna til að auka þrýsting á hert viðbrögð og forgang í alþjóðlegu átaki um að draga úr losun gróðurhúslofttegunda sem hraðast, til að standa sem næst markmiði Parísarsamkomulagsins um 1,5°C hækkun meðalhita að hámarki.
Hringborð Norðurslóða 2025
Nú í ár kom Stefan Ramstorf aftur til Íslands til að kynna nýjar rannsóknir á AMOC á Hringborði norðurslóða. Rannsóknir benda til enn hærri líkinda en sagt var frá fyrir ári á hnignun langtíma stöðugleika veltihringrásarinnar í loftslagslíkanaspám sem ná út fyrir árið 2100 (til 2300–2500) undir mismunandi losunarspám gróðurhúsalofttegunda.
Rannsóknin greinir hluta CMIP6-líkana sem ná út fyrir 2100, undir háum, milðlungs og lágum losunarsviðsmyndum. Helstu greiningarmælikvarðar eru hámarkshafflæði (í Sverdrup (Sv) einingu – milljón km3 á sek), dýpt flæðis, blöndunarlagsdýpt á svæðum djúpblöndunar og norðurflutningur hita við 26° norðlægrar breiddargráðu ásamt varmaútstreymi til andrúmslofts norðan 45° breiddargráðu.
Breytingar AMOC í átt að veiku flæði
Í öllum há-losunar líkanarspám þróast AMOC eftir árið 2100 í afar veikt flæði (< 6 Sv) undir yfirborðsblöndunarlagi („grunn flæðisástand“). Fyrir sviðsmyndir með meðal- og lága losun breytist hluti flæðis í svipað veikt flæði fyrir lok tímabilsins (á árunum 2300–2500). Þessi afar veiku flæði einkennast af: (a) minnkuðu magni flæðis (<6 Sv), (b) stöðvuðun djúpflæðis (djúphafsniðurdæling nánast hætt), og (c) grunnri hámarksflæðisdýpt, <200 m (í stað u.þ.b. 2 km). Í slíku ástandi minnkar norðurflutningur hita við 26° N niður í ~20–40% af núverandi gildi, og varmaútstreymi til andrúmslofts norðan 45° breiddargráðu fer niður í <20%, jafnvel næstum ekkert, sem bendir til verulegrar kólnunar í Atlantshafi sunnan Íslands og norðvestur af Evrópu. Núverandi mælingar og öll líkönin sem fjallað er um í greininni sýna þennan „kalda blett“ (sjá myndir 1 og 2) í nágrenni Íslands.
Hrun djúpblöndunar og hraði breytinga
Helstu niðurstöður líkanareikninga sýna að þegar yfirborðsflæði AMOC til norðurs veikist, leiðir það til hruns djúpblöndunar í Norður-Atlantshafi á miðri 21. öld (á árabilinu 2040–2080). Drifkraftur Atlandshafsveltihringrásarinnar er að saltur sjór frá Karíbahafinu sekkur í Norður-Atlantshafi vegna þess að hann hefur hærri eðlisþyngd en sjór með lága seltu. Hrun niðurflæðis og djúpsjávarmyndunar minnkar saltflutning til norðurs, sem gerir sjóinn ferskari. Eftir að djúpblöndun hrynur hverfur niðursökk yfirborðssjávar til djúpsjávar nær algjörlega, og …








