Til baka

Leiðari

Vinnumarkaður, efnahagur og menntun

Þetta áramótarit 2023 beinir sjónum að vinnumarkaðinum á Íslandi í víðtækum skilningi, sögulega, fræðilega, faglega og fram á veg. Umfjölluninni er ætlað að veita innsýn í þær áskoranir sem allir aðilar vinnumarkaðarins standa frammi fyrir í íslensku efnahagsumhverfi á komandi ári. Einnig er áhersla á menntun og þróun hennar fyrir vinnumarkaðinn í ljósi sjálfbærni og tækninýjunga meginþemað í viðtali blaðsins.

forsida

Það eru erfiðir tímar og það er atvinnuþref, þó ekki atvinnuleysi blessunarlega, en þessi vetur mun bera með sér einkenni um kjaraþref. Hagkerfið er alveg laust við kvef og aðrar pestir þó það hósti talsvert vegna vaxtahækkana.

Æsingurinn og uppsveiflan sem verið hefur í hagkerfinu dempast nú hratt vegna ytri áhrifa frá alþjóðlegum stýrivöxtum, aðgerðum í verðbólgubaráttunni hér heima, auk loftslagsvár og stríðsátaka sem breiðast um heiminn. Þá hafa jarðhræringar sem skekja útvegsbæ og heimili eins prósents þjóðarinnar augsýnilega efnahagsleg áhrif, bæði í raunhagkerfinu og inn á markaði fyrir húsnæði og peninga auk mögulegra afleiðinga á ferðaþjónustu og atvinnulífið almennt, þó það sé óvíst.

Þema þessa síðasta tölublaðs ársins er vinnumarkaðurinn í víðtækum skilningi. Við fáum ólík sjónarhorn bæði frá bæjarstjórnarmanni á Vestfjörðum og innflytjanda í Vík. Íslendingar fluttust á sínum tíma unnvörpum til Vesturheims á hrakningi undan óblíðum umhverfisáhrifum og efnahagsástandi hér. Nú er ástandið þannig víða í heiminum að margir eru á þess háttar hrakningi og örfáir þeirra vilja koma hingað inn á íslenskan vinnumarkað, sem kallar eftir fólki.

Einnig er í blaðinu að finna fræðilega umfjöllun á nokkrum sviðum, meðal annars frá tveimur ólíkum hagfræðingum um húsnæðismarkaðinn. Telja verður líklegt að aðgerðir í húsnæðismálum þurfi að vera hluti af útkomu kjarasamningsviðræðnanna í vetur.

Hin stóru málin í kjarasamningaviðræðum vetrarins eru fjölmörg og fjölbreytt. Flest þeirra koma við sögu með einum eða öðrum hætti í greinum blaðins. Launamunur kynjanna er ótrúlega þrálátur en ójafnrétti í stjórnunarstöðum, vinnutíminn, umhyggjuvaktin og ástarkrafturinn eru efni fyrstu greinar blaðsins; frá fræðilegu hliðinni en byggt á rannsóknum af íslenskum vinnumarkaði. Þá eru samskipti á vinnumarkaðnum tekin til skoðunar í annarri grein, sem fer vel yfir söguna þar að baki.

Frá aðilum vinnumarkaðarins eru greinar um hvort kjarasamningar næsta árs muni stuðla að stöðugleika eða kynda undir frekari verðbólgu auk þess sem sjónarhorn velferðar með tilliti til kjaramálanna er tekinn fyrir í einni grein. Það að byggja upp fjölskylduvænt samfélag kallar á endurskoðun kerfa sem mörg hver eru orðin gamaldags og byggja á viðhorfum skerðingar frekar en þjónustu. Stöðugleikinn og það hvar ábyrgðin á honum liggur er síðan efni þriðju greinar frá aðilum vinnumarkaðarins.

Ein fræðileg grein sem fjallar um verkföll og verkbönn færir okkur einnig sögulegan sjónarhól og loks eru tvær fræðilegar greinar í lok blaðsins. Önnur er yfirferð um bakgrunn rannsókna Claudiu Goldin, sem fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði afhent í Stokkhólmi nú fyrr í mánuðinum. Þar koma launamunur kynjanna og kynjamismunun fyrir ásamt getnaðarvarnarpillunni og grægðisstörfum. Hin fjallar um yfirstandandi vinnu við mótun nýrrar menntastefnu um framhaldsfræðslu eða ævimenntun. Sú grænbókarvinna sem er nú á lokastigi byggir á fyrirliggjandi rannsóknum og á að verða grunnur hvítbókar og frumvarps til nýrra laga um þennan mikilvæga þátt menntakerfisins.

Menntunin og vinnumarkaðurinn þurfa og að verða miklu betur samtengd í því umbreytingarferli sem ör tækniþróun og hamfarir í umhverfinu okkar kalla á. Sjálfbærni, náttúran og samfélagsleg nýsköpun skipta þar miklu máli, líkt og kemur skýrt fram í viðtali þessa tölublaðs sem tekið var eftir 25 ára afmælisfyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík. Alþjóðleg þróun og raddir utan úr heimi geta fært okkur gagnlegan leiðarvísi um hvernig við þurfum að breyta bæði menntakerfinu okkar og vinnumarkaðnum til þess að verða áfram samkeppnishæft land í breyttum heimi.

Sagan er mikilvæg til þess að skilja og læra af henni en hún mun ekki endurtaka sig þó að hún geti rímað. Mikilvægt er að muna að hagkerfið er ekki stjórnlaust náttúruafl heldur er því stjórnað af fólki. Til þess að komist verði að skynsamlegri niðurstöðu um efnahagsleg málefni þarf að fara fram upplýst, gagnrýnin og gagnvirk umræða. Það krefst gagnlegs lesturs og vandvirkrar hlustunar frekar en upphrópana eða trúarlegrar fullvissu um að þetta reddist. Samhengi stefnumörkunar ólíkra þátta efnahagslífsins verður lykilatriði, eigi vel að fara á vinnumarkaðnum næstu árin. Samhljómur og gott samband milli allra þeirra aðila sem að þeirri stefnumótun koma verður afgerandi í því hvernig okkur mun farnast við siglingu þjóðarskútunnar.

Að lokum þakkar ritstjóri öllum greinarhöfundum og áskrifendum fyrir samstarfið á árinu sem er að líða. Framundan er nýtt ár og áframhaldandi umbrotatímar sem geta orðið til góðra umbreytinga sé gagnrýnin umræða og vönduð fjölmiðlun í hávegum höfð. Vikuritið Vísbending verður með á þeirri vegferð og hlakkar til áframhaldandi áskorana og góðra samskipta.

Efnisyfirlit áramótablaðsins 2023:

Ástin, umhyggjan og kapphlaupið við tímann – hið ósýnilega valdatafl – Guðbjörg Linda Rafnsdóttir & Ólöf Júlíusdóttir

Munu kjarasamningar næsta árs stuðla að stöðugleika eða kynda verðbólgubálið? Þorsteinn Víglundsson

Samskipti á íslenskum vinnumarkaði – Gylfi Dalmann Aðalsteinsson

Velferðarmál eru kjaramál – Halla Gunnarsdóttir

Efnahagsleg velmegun er samofin raunverulegri fjárfestingu í inngildingu – Nichole Leigh Mosty

Stöðugleikinn og pólitísk ábyrgð – Finnbjörn A. Hermannsson

Um verkföll og verkbönn – Katrín Ólafsdóttir & Aldís G. Sigurðardóttir

Menntun er umbreytingarafl – viðtal um samfélagslega nýsköpun við Concepción Galdón prófessor í Madríd

Þétt byggð, leigu- og fasteignaverð – Ólafur Margeirsson

Fjórar stoðir frumframleiðslu á Vestfjörðum, þar af þrjár nýjar – Gylfi Ólafsson

Stjórnvaldsaðgerðir og aðgerðaleysi á húsnæðismarkaði – Þórólfur Matthíasson

Nóbelsverðlaun í vinnumarkaðshagfræði – Herdís Steingrímsdóttir

Ævimenntun sem lykill að farsæld – Berglind Rós Magnúsdóttir

Næsta grein