
Vert er að hafa í huga að þegar breyting verður á verðbólgu er það vegna þess að vísitala neysluverðs er að hækka eða lækka. Breyting á verðbólgu er þannig ekki algild breyting á verðlagi. Ef verðbólga lækkar, er ekki þar með sagt að verðlag lækki, heldur aðeins að verðlag hækkar minna en áður. Hér helgar tilgangurinn meðalið. Mæld og vegin verðbólga skal lækkuð hvernig sem farið er að því. Verðbólgan lækkar hins vegar ekki þótt mælirinn breytist. Þá lækka afborganir húsnæðislána ekki heldur, vaxtaálagið hækkar sem þessu nemur eins og fjármálaráðherra benti á skýrslu sinni til Alþingis.[1] Hins vegar eru meiri líkur á að nýgerðir kjarasamningar verði innan viðmiðunarmarka. Með öðrum orðum, með hinni nýju aðferð við útreikning á húsnæðisliðnum eru minni líkur á að hinir nýgerðu kjarasamningar verði endurskoðaðir, þrátt fyrir hækkun verðbólgu. Laun munu því ekki hækka í samræmi við verðbólgu. Einnig munu lífeyrissjóðir eiga auðveldara með að standast lagaákvæði um ávöxtun lífeyris um 3,5% umfram mælda verðbólgu hjá Hagstofu Íslands. Með boðuðum breytingum á mælingum vísitölu[2] er stefnt hröðum skrefum aftur til áttunda áratugar síðustu aldar þegar kaupmætti hins almenna borgara var stýrt með vísitölubrauðum, sem hvergi fengust, og dilkakjöti, sem geymt var í frystigeymslum Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS), en hvergi fannst þegar til átti að taka.
Frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum árið 2017 hefur verðlag hækkað um 39%, hæst sýndi vísitala neysluverðs 10,2% verðbólgu í febrúar 2023. Núna í mars 2024 stendur verðbólgan í 6,8%. Það þýðir þó ekki að verð hafi lækkað, heldur aðeins að verðlag hækkar minna nú en áður. Brjálæðislega dýra samlokan er enn brjálæðislega dýr. Hún kostar enn 2000 krónur en hækkaði ekki í 2500 krónur. Einn stærsti liðurinn í vísitölu neysluverðs er húsnæðisliðurinn. Hann samanstendur af kostnaði við rekstur húsnæðis, s.s. rafmagni og hita o.s.frv., og nemur um 30% af heildinni. Stærsti einstaki liður húnæðisliðarins er reiknuð húsaleiga, sem er ríflega helmingurinn. Heildarhækkun húsnæðisliðsins er orðin um 43% frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við, en reiknuð húsaleiga hefur hækkað um 70%. Árið 2023 hækkaði fyrrnefndi liðurinn um 10,9% og síðarnefndi liðurinn um 12,1%. Ekkert bendir til annars en að húsnæðisverð haldi áfram að hækka en í stað þess að taka á vandanum, laga lánin og byggja meira er mælingaraðferðinni breytt.
Breytt mælingaraðferð Hagstofunnar
Með fréttatilkynningu 26. mars 2024 tilkynnti hagstofustjóri að frá og með júní nk. yrði húsaleiguígildisaðferðin notuð. Þar segir: „Til skamms tíma hafa hins vegar komið fram frávik sem yfirleitt hefur mátt rekja til þróunar á fjármálamarkaði sem hafa haft veruleg áhrif á reiknuðu húsaleiguna. Það er mat Hagstofunnar að þessi frávik séu of mikil til þess að hægt sé að réttlæta óbreytta aðferð“.[3]
Upplifun fólks af verðhækkunum er oft allt önnur en meðaltalshækkun vísitölu. Þannig var hagvöxtur á Íslandi 8,9% árið 2022, sem slær öll met, og 4,1% árið 2023, sem telst mjög gott á hvaða mælikvarða sem er, auk þess sem atvinnuleysi mælist varla. Samt eiga, samkvæmt tölum Hagstofunnar 50% heimila með einn fullorðinn og eitt eða fleiri börn á framfæri erfitt með að ná endum saman. Það sama verður sagt um eftirlaunamenn en samkvæmt talnasafni OECD berjast tæplega 40% þeirra sem eru 65 ára og eldri hérlendis í bökkum. Ein mikilvægasta breytan í því hvernig fólk upplifir dýrtíð er vaxtakostnaður, þ.e. raunvextir + verðbótarþátturinn. Á síðustu tæpu fjórum árum hafa stýrivextir Seðlabanka Íslands ríflega 12-faldast, farið úr 0,75% í 9,25%. Breytingar á húsnæðislið neysluvísitölu hafa engin áhrif á stýrivaxtaákvörðun Seðlabanka.
Það þýðir þó ekki að verð hafi lækkað, heldur aðeins að verðlag hækkar minna nú en áður
Sjálfstæðar stýrivaxtaákvarðanir
Seðlabankinn er frjáls að sínum ákvörðunum og notar þau gögn sem hann kýs. Seðlabankastjóri jók hins vegar þrýsting á hagstofustjóra til að breyta húsnæðisliðnum með því að lækka ekki stýrivexti í kjölfar kjarasamninga nú í mars. Stýrivaxtahækkanirnar auka lántökukostnað heimila, fyrirtækja og ríkissjóðs. Þannig hafa húsnæðisvextir og vextir á bílalánum hækkað mikið, auk annarra neyslulána, dráttarvaxta og námslána vegna verðbótaþáttarins. Meðalvextir á íbúðalánum voru t.d. um 7,7% í byrjun ársins 2023 en standa nú í tæpum 11%. Önnur lán bera mun hærri vexti. Með auknum vaxtagjöldum heimila aukast vaxtatekjur banka. Hreinar vaxtatekjur þeirra námu um 150 miljörðum króna í fyrra, sem er fjórðungs aukning m.v. árið á undan. Ekkert af þessu kemur fram í breytingum á neysluverðsvísitölu þar sem verð á peningum er ekki innifalið í neysluverðsvísitölu.
Í Bandaríkjunum var á sjöunda áratugnum almennt litið á vaxtakostnað sem stóran póst í verðbólgu. Með Watergate-kynslóðinni lagðist þetta viðhorf af enda tengdi sú kynslóð bankageirann ekki við ríkisfjármálin, hvað þá við hið daglega líf borgaranna. Sama viðhorf ríkti hérlendis og endurspeglast sá skilningur á vaxtahugtakinu m.a. í doktorsriti Benjamíns H. J. Eiríkssonar: Outline of an Economic theory, frá 1954, sem Háskólinn gaf út 2012 með inngangi eftir Gylfa Zoëga, prófessor. Þar eru vextir skilgreindir sem greiðsla fyrir þjónustu. Vextir eru þó ekki einingarverð slíkrar þjónustu heldur ágóðastuðull umræddrar fjárhæðar. Þetta kemur einnig fram í öðrum greinargerðum Benjamíns fyrir stjórnvöld á sínum tíma. Einkum þeirri sem hann skrifaði með Ólafi Björnssyni, prófessor, í tillögum til endurreisnar efnahagslífsins á sjötta áratugnum, tillögum sem stjórnvöld höfnuðu. Bandaríkin notuðu aðferð um einfaldan notendakostnað til að mæla verðbólgu fram til ársins 1983 en þá breytti Ronald Reagan, fertugasti forseti Bandaríkjanna 1981-1989, mælingu á húsaleigulið neysluvísitölunnar og tók upp húsaleiguígildisaðferðina í stað aðferðar um einfaldan notendakostnað, eins og Hagstofa Íslands mun gera nú á næstunni. Í Bandaríkjunum hafa eftirlaun almannatrygginga verið verðtryggð frá árinu 1975. Markmið Reagans var það sama og stjórnvalda hérlendis er nú: að lækka mælda verðbólgu, ekki verðbólguna sjálfa, til að lækka eftirlaun.
Verð peninga
Í nýrri rannsóknarritgerð (febrúar 2024): The Cost of Money is part of the Cost of Living: New Evidence on the Consumer Sentiment Anomaly, eða í beinni þýðingu: Verð peninga er hluti af framfærslukostnaði: Ný gögn um frávik í upplifun neytenda.[4] Greinin hefur vakið mikla athygli og mun án efa hafa mikil áhrif á peningastefnu og mælingu vísitölu í framtíðinni. Þeir félagar lögðu upp með rannsóknarspurninguna: Af hverju er fólk að sleppa sér út af verðbólgu ef verðbólga mælist lítil með hefðbundnum mælingaraðferðum? Höfundar vekja athygli á því að þegar Okun reiknaði hina svokölluðu eymdarvísitölu (vísitala neysluverðs + atvinnuleysi) á sjöunda áratugnum, voru vextir inni í vísitölu neysluverðs en lántökukostnaðurinn skýrir næstum þrjá fjórðu hluta af óánægju bandarískra neytenda árið 2023. Það hefði mátt ætla að eymdin hefði horfið með breytingum Reagans á vísitölunni 1983!
Í rannsókninni þróa Larry Summers og félagar mælikvarða fyrir vísitölu neysluverðs sem tekur tillit til kostnaðar við peninga. Grunnur hennar er vísitalan sem gilti áður en Reagan komst með puttann í hana. Þeir bæta við hana kostnaði við bílalán, vaxtagreiðslum af neytandalánum og öðrum persónulegum vaxtagreiðslum eftir kúnstarinnar reglum. Niðurstaða þeirra er ótvíræð og þarf ekki að koma á óvart. Þegar kostnaður við peninga, þ.e. vextir, er tekinn með í reikninginn, mælist verðbólga hærri en þegar notuð er hefðbundin aðferð. Verðbólgan hækkar um eitt prósentustig að meðaltali fyrir árið 2023. Vaxtaútgjöld einstaklinga hækkuðu um 43% fyrstu 11 mánuði ársins 2023. Þegar þau útgjöld og kostnaður vegna húsnæðis eru færð inn í VNV hækkar verðbólga frá 3% í ársbyrjun 2023 í 9% í nóvember. Niðurstaða þeirra á ekki eingöngu við um Bandaríkin heldur tekur rannsóknin til 10 landa. Verðbólga í Bandaríkjunum er nú ríflega helmingi lægri en hérlendis eða 3,2% miðað við 6,8%.
Húsnæðisverð og vaxtakostnaður
Þá hefur Covid-2019 haft mikil áhrif þar eins og hér með gífurlegum styrkjum til fyrirtækja með seðlaprentun. Í kjölfarið hefur húsnæðisverð hækkað þar mikið og aukið misskiptinguna enn frekar. Hérlendis hefur húsnæðisverð hækkað mun meira, auk þess sem vextir eru almennt mun hærri, svo ekki sé minnst á vaxtavextina, verðtrygginguna. Það má gera því skóna að með breytingunum á mæliaðferðinni verði munurinn meiri hérlendis en í bandarísku rannsókninni. Eina úrræðið sem stjórnvöld leggja til er að breyta mælinum og halda að þá verði allt eins og í öðrum Evrópulöndum. Væri ekki heillavænlegra fyrir lántakendur að tekin yrði upp evra og að lánastofnanir veittu fólki, sem tekur jafngreiðslulán, upplýsingar um afborganir frá upphafi láns til lokagreiðslu?
Þegar verðtrygging sparifjár og lánsfjár hófst hérlendis 1979 voru laun verðtryggð en því var hætt 1983. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár var hugsuð sem bráðabirgðalausn til að komast á lygnan sjó. Hálfri öld síðar og með gjörbreyttri heimsmynd, er hún orðin meginvandamál íslenskra heimila, ekki síst vegna áreksturs við vaxtafrelsi og frjálst flæði fjármagns með EES-samningi. Nú stendur valið milli evrunnar og krónunnar. Í Bandaríkjunum er litið á verðbólgu sem skaðvald sem lækkar arðgreiðslur til hluthafa. Hérlendis er þessu þveröfugt farið; verðbólgan er gullgæs hinnar íslensku fjármálastéttar sem lifir og starfar í gerviveröld. Fjármálastéttin býr ekki við krónuna. Hún skuldar ekki húsnæðislán í krónum, heldur safnar í sjóði og nýtur kosta verðtryggingarinnar með vaxtavöxtum. Fjármálaelítan hefur í reynd nýlenduvætt Ísland. Grunnþörf borgarans, heimilið, myndar fótinn fyrir rentuna og hefur lítið breyst frá tíma einokunarverslunarinnar: krónan er eins og vaðmálið forðum til innanlandsbrúks en þorskurinn malar gull fyrir kónginn. Hvenær ætlar íslensk stjórnmálastétt að vakna af dvalanum?
Fyrri hluti greinarinnar birtist í síðasta tölublaði, sjá:
https://visbending.is/greinar/visitala-verdbaetur-og-kjarasamningar-hvad-kostar-kronan/
Tilvísanir
-
Greinin er eftir þá Larry Summers, fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Judd N. L. Cramer og Karl Oskar Schulz, allir þrír við Harvard-háskóla og Marijn A. Bolhuis við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn https://www.nber.org/papers/w32163
↩ -
Skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um húsnæðisverð í verðvísitölum, verðtrygging og verðbólgumarkmið - til 149. löggjafarþings 2018-2019 https://www.althingi.is/altext/pdf/149/s/1083.pdf
↩ -
Hagstofa Íslands: Hagtíðindi, 26. mars 2024 https://hagstofa.is/utgafur/utgafa/verdlag/husnaedislidur-i-visitolu-neysluverds/
↩ -
Greinargerð Hagstofu Íslands: Húsnæðisliður í vísitölu neysluverðs - Innleiðing á nýrri aðferðafræði - 26. mars 2024 https://hagstofas3bucket.hagstofa.is/hagstofan/media/public/2024/972997d4-e646-445f-8360-73670cc18e03.pdf
↩








