
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur frá 30. nóvember 2017 segir að téð ríkisstjórn muni stíga markviss skref á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum. Í tengslum við gerð Lífskjarasamnings aðila vinnumarkaðarins birti ríkisstjórnin þann 3. apríl 2019 yfirlýsingu um markviss skref til afnáms verðtryggingar í sjö liðum[1]:
- Frá og með ársbyrjun 2020 verði óheimilt að veita verðtryggð jafngreiðslulán til neytenda til lengri tíma en 25 ára nema með ákveðnum skilyrðum. Rökin fyrir þessu felast fyrst og fremst í þeim ókostum verðtryggðra jafngreiðslulána að verðbótum er bætt við höfuðstól lánsins og greiðslu þeirra frestað þannig að eignamyndun verður hægari en ella og líkur á neikvæðu eigin fé lántaka aukast.
- Frá og með ársbyrjun 2020 verði lágmarkstími verðtryggðra neytendalána lengdur úr fimm árum í tíu ár. Með því móti er komið í veg fyrir verðtryggingu allra eða allflestra tegunda neytendalána, þ.e. annarra en húsnæðislána.
- Frá og með ársbyrjun 2020 verði vísitala neysluverðs án húsnæðis grundvöllur verðtryggingar í lögum um vexti og verðtryggingu á nýjum neytendalánum.
- Fyrir lok júní 2020 verði lokið athugun á aðferðafræði við útreikning vísitölu neysluverðs út frá alþjóðlegum samanburði og leitað til erlendra sérfræðinga. Meðal annars verði aðferðafræði við húsnæðisliðinn tekin til athugunar auk svokallaðs vísitölubjaga, þ.e. mögulegs ofmats á mælingu vísitölu neysluverðs vegna kerfisbundinnar mæliskekkju.
- Fyrir lok árs 2020 liggi fyrir ákvörðun um frekari takmörkun við veitingu verðtryggðra jafngreiðslulána að gefnum forsendum um stöðugleika og vaxtastig. Í því sambandi þarf að skoða sérstaklega áhrif á greiðslubyrði tekjulágra og möguleika þeirra til að fjármagna húsnæðiskaup. Þannig væri unnt að takmarka verðtryggð jafngreiðslulán við 20 ára gildistíma eða skemur eða með setningu hámarks veðsetningarhlutfalls verðtryggðra jafngreiðslulána. Veðsetningarhlutföll gætu breyst eftir stöðu hagkerfisins og verið ólík eftir fyrirkomulagi afborgana, þ.e. jafngreiðslur eða jafnar afborganir eða eftir tímalengd.
- Skoðaðir verði auknir hagrænir hvatar til töku óverðtryggðra lána, t.d. í formi veðsetningarhlutfalla, skattfrelsi séreignarsparnaðar og tilgreindrar séreignar eða að vaxtabætur taki aðeins til vaxta en ekki verðbóta.
- Leitað verði leiða til að stemma stigu við sjálfvirkum vísitöluhækkunum vöru og þjónustu og skammtímasamninga. Slíkar sjálfvirkar hækkanir kynda undir verðbólgu og hækka þar af leiðandi verðtryggðar skuldir með beinum hætti og óverðtryggðrar skuldir með óbeinum hætti. Samkvæmt könnun frá 2015 er um helmingur innlendra samninga og aðfanga tengdur við vísitölur. Skoðað verður að setja skilyrði fyrir verðbreytingum í samningssamböndum sem tryggja upplýsingaskyldu seljenda og takmarka binditíma og auka þar með neytendavernd.
Þann 11. júní 2019 skipaði forsætisráðherra, í samræmi við fjórða lið, samráðsnefnd stjórnvalda, atvinnurekenda og verkalýðsfélaga um aðferðafræði við útreikning vísitölu neysluverðs.[2] Nefndin leitaði til dr. Kim Zieschang, þekkts ráðgjafa og sérfræðings í verðvísitölum, til að skoða aðferðafræðina við útreikning vísitölu neysluverðs út frá alþjóðlegum samanburði.
Nefndin skilaði af sér skýrslu ári síðar. Í sem stystu máli var ekkert út á aðferðafræði Hagstofu að setja, hvorki af hálfu samráðsnefndar né hins erlenda sérfræðings. Hagstofan reiknar út neysluverðsvísitölu (VNV) á grundvelli laga nr. 12/1995. Samkvæmt aðferðarfræði þjóðhagsreikninga koma tvær aðferðir til greina við útreikning húsnæðisliðar, þ.e. svokölluð húsaleiguígildisaðferð, og er hin aðferðin er svokölluð einföld notendaaðferð. Húsaleiguígildisaðferðin miðar að því að finna húsnæði af sama tagi og á sama svæði sem er annars vegar í útleigu og hins vegar í notkun eigenda. Greidd leiga þess fyrrnefnda er svo yfirfærð á húsnæðið sem er í notkun eigenda sinna. Önnur nálgun er að kanna með reglubundnum hætti hjá þeim sem búa í eigin húsnæði hve mikið þeir teldu sig fá í leigu ef þeir myndu leigja út húsnæðið sitt í stað þess að búa í því. Sú nálgun er þó ónákvæmari en hin. Aðferðin er háð umfangsmiklum leigumarkaði með fjölbreyttum tegundum eigna þar sem leiguverði er ekki stýrt, þ.e. verð er ekki niðurgreitt af stjórnvöldum eða öðrum.
Íslenskt húsnæði
Á Íslandi er leigumarkaður lítill og vanþroskaður m.v. nágrannalöndin, u.þ.b. 80% landsmanna búa í eigin húsnæði og 20% í leiguhúsnæði. Hagstofan notast því ekki við húsaleiguígildisaðferðina heldur reiknar hún út einfaldan notendakostnað. Samt beitir nefndin hagstofustjóra miklum þrýstingi í til að taka upp húsaleiguígildisaðferðina og felur sig á bak við hinn erlenda sérfræðing, sem ekkert fann að aðferðum Hagstofu, eða eins og segir í skýrslunni: „Þá hvetur nefndin Hagstofuna, í ljósi umfjöllunar dr. Zieschang, til að greina hvort aðstæður á leigumarkaði hafi þróast með þeim hætti á undanförnum árum að aðferð húsaleiguígilda gæti leyst af hólmi aðferð einfalds notendakostnaðar í heild eða gagnvart afmörkuðum hluta íbúðarhúsnæðis.“
Það þarf sterk bein til að standast þennan þrýsting.
Fljótlega eftir að skýrslan birtist í júní 2020 lagði ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fram frumvarp um tvo fyrstu liði yfirlýsingarinnar Í tengslum við gerð Lífskjarasamningsins. Miklar breytingar voru orðnar á viðhorfum aðila vinnumarkaðarins frá undirritun Lífskjarasamningsins og greinilegt hverjir það eru sem vilja halda í verðtrygginguna. Að mati Alþýðusambands Íslands (ASÍ) var húsaleiguígildisaðferðin í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda vegna Lífskjarasamnings. ASÍ taldi hins vegar að undanþágur frá banni við verðtryggðum jafngreiðslulánum til lengri tíma en 25 ára væru ótækar og krafðist þess að þær yrðu allar felldar brott. Sambærileg sjónarmið koma fram hjá Stefáni Ólafssyni prófessor og ráðgjafa verkalýðsfélagsins Eflingar. Samtök atvinnulífsins (SA) tóku undir með verkalýðshreyfingunni um breytingu á vísitölunni en styðja undanþágur stjórnvalda við banninu, sem gerir tillögur stjórnvalda um afnám verðtryggingar í reynd marklausar. Vegna þessa ágreinings komst frumvarpið ekki lengra.[3]
Ráðgjafarnefnd um vísitölu neysluverðs heyrir beint undir hagstofustjóra. Þetta er einhver valdamesta nefnd landsins.
Erlendur samanburður
Ísland er ekki eina ríkið heiminum sem byggir útreikning neysluvísitölu á notendakostnaði ef marka má orð Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni þann 21. janúar sl. en greinilegt að stjórnvöld, með Seðlabankann í fararbroddi, hafa lengi viljað fikta í vísitölunni. Þar vísar ráðherra til reynslu Nýsjálendinga sem tókust á við svipaða hluti eftir jarðaskjálftana í Christchurch og við gerum nú í Grindavík: Lilja segir[4]:
„Húsnæðisverð hækkaði mjög mikið eftir jarðskjálftann en verðbólgan gerði það ekki. Það er mjög áberandi. Ég spurði seðlabankastjóra út í þetta. Það er vegna þess að húsnæðisliðurinn í vísitölu neysluverðs er bara hvergi eins og hann er hjá okkur. Ég segi bara að það þarf að breyta þessu núna. Við erum búin að tala um þetta í 20 ár. Við byrjuðum að tala um þetta í Seðlabankanum 2005. Við getum ekki farið í þessar stóru aðgerðir þar sem þarf að auka framboð nema við hugum að þessu. Ekki hugum, við þurfum að gera þetta“.
Kanada og Svíþjóð eru dæmi um önnur ríki sem beita notendakostnaði við mat á búsetu í eigin húsnæði og taka við matið tillit til vaxta og afskrifta. Útreikningur vaxta er ólíkur milli landa. Kanada og Svíþjóð notast við nafnvexti við útreikning á húsnæðislánunum, sbr. óverðtryggð húsnæðislán, en Ísland við raunvexti (nafnvextir = raunvextir + verðbótarþáttur). Verðbótarþátturinn mælir rýrnun peninga eða kaupmáttar hvernig svo sem það er orðað. Meðferð afskrifta er hins vegar hliðstæð í Kanada, Svíþjóð og á Íslandi. Aðferðirnar í Svíþjóð og Kanada annars vegar og á Íslandi hins vegar þjóna ólíkum markmiðum í útreikningi á VNV. Markmið Svía er að mæla verðlag sem greitt er í viðskiptum með eigið húsnæði. Markmið Kanadamanna er að mæla hvað eigendur húsnæðis þurfa að borga tengt húsnæðinu sem þeir eiga. Markmið Íslendinga er hins vegar að meta reiknaða húsaleigu í samræmi við verðlag einkaneyslu og alþjóðlega þjóðhagsreikningastaðla en þar teljast nafnvextir til fjárfestingar í húsnæði.
Samráð og dómar
Samráðsnefnd stjórnvalda, atvinnurekenda og verkalýðsfélaga (e. corporatism) setti ekkert út á mismunandi notkun vaxta. Hér hefði mátt spyrja hvernig rýrnun peninga til fjárfestingar einstaklinga þjónaði markmiðum vísitölu til verðtryggingar, og leggja til að Ísland tæki upp nafnvexti í stað raunvaxta við útreikning húsnæðisliðarins. Hin séríslenska verðtrygging og útreikningur jafngreiðslulána (annuitet-lána) er vægast sagt sérkennilegur. Jafngreiðslulán veita lántakanda venjulega upplýsingar um afborganir frá upphafi láns til lokagreiðslu. Þau gera það ekki hérlendis en minna um margt verðbólgureikningsskil fyrirtækja hér á árum áður, sem rugluðu bókhald fyrirtæka, og komu í veg fyrir erlenda fjárfestingu. Jafngreiðslulánin samræmast tæplega EES-samningi nema með skóhorni, sbr. EFTA-dómstóllinn: Case E-27/13. Í reynd er verðtryggingin bara vaxtavextir, sem Hagstofa er látin reikna út, í stað þess að bankar reikni út sitt verðbólguálag sjálfir. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 12/1995, um vísitölu neysluverðs, situr ráðgjafanefnd skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Hæstarétti, einum tilnefndum af ASÍ og einum tilnefndum af SA, Hagstofunni til ráðgjafar um gerð vísitölunnar, og fylgist með reglubundnum útreikningi hennar. Ráðgjafarnefnd um vísitölu neysluverðs heyrir beint undir hagstofustjóra. Þetta er einhver valdamesta nefnd landsins. Hlutverk hennar er að reikna út vaxtavexti í frjálsum viðskiptum (sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu). Skyldi þetta verklag tíðkast víða? Í skattalögum er farið með verðbætur á sama hátt og aðra vexti. Skattborgarar greiða skatt af verðbótum, og eftirlaun lækka þrátt fyrir rýrnun bankainnstæðna.
Framhald greinarinnar birtist í næsta tölublaði, sjá:
https://visbending.is/greinar/visitala-verdbaetur-og-kjarasamningar-hvad-kostar-kronan-seinni-hluti/
Tilvísanir
-
Yfirlýsing ríkisstjórnar um markviss skref til afnáms verðtryggingar. https://www.vr.is/media/6802/yfirlysingverdtrygging.pdf
↩ -
Aðferðafræði við útreikning vísitölu neysluverðs - skýrsla nefndar. Forsætisráðuneytið, júní 2020. https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/FOR/Fylgiskjol-i-frett/Aðferðafræði%20við%20útreikning%20vísitölu%20neysluverðs-skýrsla%20júní%202020.pdf
↩ -
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 - á 151. löggjafarþingi 2020–2021, þingskjal 752. https://www.althingi.is/altext/pdf/151/s/0752.pdf
↩ -
Sprengisandur á Bylgjunni 21. janúar 2024. https://www.visir.is/k/62399b57-b109-4230-ad37-5fd134223cc9-1705835550105/lilja-alfredsdottir-lofar-tillogum-fra-rikisstjorn-a-morgun-vardandi-grindavik
↩








