Til baka

Aðrir sálmar

Skrattakollar og ömmur þeirra

- kljást við kölska, finna devil in the details og get lost in translation.

Erlend áhrif berast mishratt til landsins. Sæmundur fróði kom á bakinu á sel, ef marka má söguna, með sína þekkingu að utan.

Vonbrigði seðlabankastjóra yfir því að lækkun olíuverðs berist ekki til landsins var auðsjáanleg í vikunni. Eftir að seðlabankinn hélt áfram að lækka vexti, en bara svona pínku.

Þá hótaði bankinn að hætta lækkunarferlinu, eftir þetta fimmta hænuskref, ef verðbólgan minnkaði ekki. Spennandi verður að lesa Peningamál bankans sem komu út samhliða, og leita skýringa þar á háa raunstýrivaxtastiginu hérlendis í samanburði við útlönd. Kanski koma þar fram raungögn sem geta sýnt fram á orsakasamhengi milli hárra vaxta og lækkunar verðbólgu.

Ljóst er að hin vel markaðssetta sala fjármálaráðherra á Íslandsbanka hefur dregið mikið peningamagn úr umferð, sem ætti að draga úr verðbólguþrýstingi samhliða því að bæta stöðu ríkissjóðs, til skamms tíma. Spennandi verður að fylgjast með verðþróun næstu daga, bæði söluþrýstingi frá tíunda hluta þjóðarinnar og kaupgleði þeirra faglegu fjárfesta sem ekki fengu úthlutað úr tilboðsbók.

Á enskri tungu er stundum sagt að merking geti týnst í þýðingu, líkt og sýnt er fram á í forsíðugrein vikunnar. Hún er síðari hluti ýtarlegrar og mikilvægrar yfirferðar sem löggjafinn þarf og leysa úr og löggiltir endurskoðendur að skilja.

Djöfulinn er líka sagt að megi finna í smáatriðunum, með nákvæmum lestri smáa letursins, eða í fyrstu neðanmálsgrein. En stórt letur getur þótt einfaldara, eins og lesa má um í síðari grein vikuritsins, sérlega ef nærsýni eða fjarsýni skapar þröngsýni eða dregur úr víðsýni. Auk þess sem þannig má skemmta skrattanum.

Þó Ari fróði hafi sagt Sæmund fróða hafa lært í Frakklandi eru deildar meiningar hvar Svartiskóli hafi verið. Líklegast er talið að það hafi verið í hluta Þýskalands sem kallaðist Franconia eða Franken, svo sem lesa má um í Líndælu, frá fyrsta eða öðru ári þessarar aldar.