Hugtök eru mikilvæg og það hvernig við notum orðin til að skilgreina þau skiptir máli. Grænt gímald virðist þannig orðið nýtt hugtak í skipulagi samkvæmt forsíðugrein vikunnar, en jafnframt víti til að varast frekar heldur en að endurtaka út um víðan völl.
Skattlagning er annað mikilvægt hugtak, sem seinni grein vikuritsins fjallar um. Til að hugtök virki í veruleikanum geta stofnanir skipt máli alveg eins og orðin. Þeirra hlutverk er afgerandi í hvernig okkur mun takast að byggja upp betra samfélag.
Davos fundurinn í síðustu viku verður lengi í minnum hafður fyrir nokkurra hluta sakir. Hér skal dregin fram ein tilvitnun í seðlabankastjóra Evrópu, Christine Lagarde. Hún sagði þar að við skyldum varast hávaðann af truflun og óhljóðum en þess í stað myndu tölurnar segja okkur sannleikann. Traust á tölum er mikilvægt.
Þegar fyrirhugaðar eru breytingar opinberra gjalda sem hafa áhrif á verðbólgu er eðlilegt að ætla að þær séu vel undirbúinar og áhrifin metin. Þó vekja svör fjármálaráðherra í sal Alþingis í gær vissan ugg þar sem hann virtist í fyrstu hafa ætlað að koma sökinni af vísitöluhækkun yfir á aðra. En ljóst er af undirliðum vísitölunnar að það eru opinber gjöld sem að drífa áfram mestan hluta hækkunar verðbólgunnar nú í upphafi árs. Sem er nú orðin 5,2%. Þar ber hæst – skoði fólk vef Hagstofunnar – undirliði vísitölunnar sem fela í sér vörugjöld á bifreiðar ásamt hækkunum hitaveitu og rafmagns í húsnæðisliðnum sem lengi hefur verið til umfjöllunar og nýlega aftur.
Af alþjóðlega sviðinu þessa vikuna ber hæst „viðskiptasamning allra viðskiptasamninga“ sem var tuttugu ár í mótun, og skrifað var undir í vikunni milli Indlands og Evrópusambandsins. Í síðustu viku var forsíðugrein Vísbendingar um Indland og einnig má benda á grein um landið í alþjóðaþemablaði þarsíðustu áramót og grein síðasta haust.







