Hjartslátt þjóðarinnar má finna í stýrivaxtaákvörðunum Seðlabankans sagði ein þáttastjórnenda Silfursins á RÚV nú á mánudagskvöldið með skáldfögru orðfæri. Peningastefnunefnd ákvað tveimur dögum síðar að lækka meginvexti um fjórðung úr prósentu í 7,25% og hjörtu landsmanna tóku örlítinn kipp.
Greina má mikla notkun orðsins „en“ eftir þrípunkta [...] sem tengja fallega á milli margra samhangandi millifyrirsagna í gegnum allt rit Peningamála Seðlabankans sem komu út samhliða vaxtaákvörðuninni.
Rétt er að minna á tvennt í þessu samhengi. Annað er að orðið „og“ kom í stað „en“ í örfáum tilfellum þessara sérhönnuðu tengimillifyrirsagna. Hitt er að þetta var „bara svona pínku“ lítil lækkun sem nemur um 3,3% af vaxtatölunni. Þannig að greiði fólk 200 þúsund krónur í húsnæðislánavexti gætu vaxtaútgjöld þeirra lækkað um 6.660 krónur, skili vaxtalækkunin sér að fullu til lántaka.
Annað sem áberandi var í yfirlýsingu peningastefnunefndar var orðið „umrót“. Það rót virðist tilkomið innanlands frá dómi en óljóst hvort nefndin rekji það til Hæstaréttar, Neytendasamtakanna eða álits EFTA dómstólsins evrópska.
Viðbrögð sem þó greina má eru ný mæld viðmið Seðlabankans sem reiknuð verða daglega og kallast fastir langtímavextir ríkisskuldabréfa (FLVR). Fyrirmyndin er fengin frá Ameríku, kölluð CMT (e. Constant Maturity Treasury) og athyglisvert að sú reiknaða ávöxtunarkrafa er notuð til viðmiðunar fyrir húsnæðislán með vöxtum sem breytast árlega en þetta viðmið er hvergi notað í evrópskum húsnæðislánum.
Veltihringrás er svo lýsandi hugtak og fagurt orð að ætla mætti að skáldið og náttúrufræðingurinn Jónas Hallgrímsson hafi búið nýyrðið til – eins og orðin aðdráttarafl fallhraði og gangverk. Forsíðugrein vikunnar fjallar um hræðilegar afleiðingar stöðvunar veltihringsásarinnar (AMOC) hérlendis á útflutning, fæðuöryggi og þjóðarvá.
Vissulega eru þjóðhagsvarúðartæki í verkfærakistu Seðlabankans. En ekki passa líkön veltihringrásar fyrir fjárstraumana húsnæðiskerfisins – þaðan sem fjóra tíundu hluta núverandi verðbólgu má rekja, samkvæmt séríslenskum aðferðum. Alþjóðlegir staðlar og sérstaklega evrópsk lagaumgjörð þeirra er efni seinni greinar blaðs vikunnar.

